10. janúar 2021

Samvinna og lýðheilsa eru lykilorðin á nýju ári

Góðir félagar, 

Árið 2020 hefur um margt verið mjög sérstakt og óvenjulegt. Árið hefur fyrir mörgum verið erfitt. Um leið hefur það orðið til þess að fá fólk til að hugsa málin öðruvísi og leita annarra lausna til að halda störfum gangandi. Margir hafa sýnt aðdáunarverða hugkvæmni í að halda starfi íþrótta- og ungmennafélaga í horfinu, bæði við þjálfun og í því skyni að bjóða iðkendum sínum upp á leiðbeiningar yfir netið, haldið fundi eða ráðstefnur með fjarfundarbúnaði og fleira í þeim dúr. Ímyndunaraflið er þar eini þröskuldurinn.

Þótt margir tali niður nýliðið ár og finni því margt til foráttu þá getum við ekki annað en viðurkennt, að við höfum öll lært heilmikið á þessum tíma.

Fortíðin er nú að baki og rúmast aðeins í handfarangrinum á ferðalaginu inn í framtíðina. Það er algjör óþarfi að vera of upptekinn af henni. Nú þurfum við þvert á móti að nýta allt það sem við höfum lært og tileinkað okkur á síðasta ári til að byggja upp starfið í félögunum. Það er líka ungmennafélagsandinn í hnotskurn að dvellja ekki við fortíðina heldur horfa fram á veginn. Upplagt er að hefja nýtt ár með jákvæðni og bjartsýni að leiðarljósi. 

Nú þurfum við að laða sem flesta til að vera í félögum okkar og tryggja bæði að vel sé tekið á móti öllum í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og að allir verði með. Félögin eiga að vera bakland fyrir fólk, nærumhverfið, og þar á að vera þekking, þjónusta og utanumhald starfsins. 

 

Árið 2021 er tími mikilla verka

Sambandsaðilar UMFÍ eru 28 talsins og skiptast þeir í 21 íþróttahérað og sjö ungmennafélög með beina aðild. Félögin innan UMFÍ eru 450 talsins og félagsmennirnir rúmlega 270 þúsund. UMFÍ er þjónustu- og samræmingaraðili allra þessara félaga. Umfangið er því geysimikið um allt land.

Nú liggur fyrir vinna á vegum ungmennafélagshreyfingarinnar að endurnýja stefnu og markmið UMFÍ fyrir næstu ár. Áætlað er að fara um landið og funda með ungu fólki og öðrum í grasrótinni, sameina framtíðarsýnina og sjá hvert sambandsaðilar og félög innan þeirra vilja stefna.

Á sama tíma og rætt verður í þaula um framtíðarsýn UMFÍ og skerpt á áherslum er nauðsynlegt að ræða um endurskoðun á skipulagi íþróttahéraða á Íslandi, hlutverk þeirra, stærð og markmið. Ég er þess fullviss að þau geti orðið skilvirkari og skilað félögum og félagsmönnum meiru en þau gera nú. Það mun gerast með enn meiri samvinnu og samstarfi. 

Öll viðfangsefnin framundan þarf að vinna með jákvæðni og framsýni í huga. Það mun stuðla að jákvæðri þróun íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar til framtíðar og bættri lýðheilsu þjóðarinnar. Við megum ekki staðna og festast í sama farinu. Það er ekki samfélaginu við góða. Við verðum að koma í veg fyrir það og bókstaflega hreyfa okkur. Það er öllum til góða.

 

Mikilvægt að vinna saman

Íslensk getspá hefur fært íþróttahreyfingunni háar fjárhæðir sem hafa komið sér afar vel í faraldrinum sem enn geysar. Reksturinn hefur gengið vel og skilað íþrótta- og ungmennafélagshreyfingunni verulegum fjármunum. Við þurfum að huga vel að Íslenskri getspá. Það er þjóðarhagur því fyrirtækið styður afar vel við íslenskt íþróttalíf og aðra íslenska starfsemi. Það gera erlendar veðmálasíður hins vegar ekki. Erlendu fyrirtækin bera ekki hag íslenskra íþróttafélaga fyrir  brjósti og skila næstum engu aftur til samfélagsins, hvað þá til íslenskra íþróttafélaga. Við verðum að leitast við að nota íslenska lottó- og getraunaleiki, sem styðja við íslenskt samfélag og er okkur sjálfum til góða. Horfum til þess og styðjum okkar félög og fyrirtæki. 

Þótt góð afkoma Íslenskrar getspár hafi hjálpað íslenskum íþróttafélögum í COVID-faraldrinum þá verð ég og íþróttahreyfingin öll að þakka ríkisstjórninni fyrir stuðning hennar við ungmenna- og íþróttastarf og þá ekki síst mennta- og menningarmálaráðherra fyrir það markmið að koma sem mest í veg fyrir brottfall barna og ungmenna úr æskulýðs- og íþróttastarfi sem ég tel afar mikilvægt. Einnig þakka ég félags- og barnamálaráðherra fyrir baráttuna í stuðningi við málefni barna og einkum jaðarsetta einstaklinga svo og fólk af erlendum uppruna. 

Þetta eru mál sem við verðum að vinna saman að á nýju ári.

 

Viðburðir á nýju ári

Á síðasta ári urðum við eins og nærri allir aðrir að fresta þremur stórum viðburðum um ár. Nú í upphafi árs getum við ekki annað en vonast til að Landsmót UMFÍ 50+ geti farið fram í Borgarnesi í sumar, Íþróttaveislan í Kópavogi og Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi. Þetta eru vissulega þrír stærstu viðburðirnir. Fleiri minni eru ótaldir.

 

Setjum lýðheilsuna í fyrsta sæti

Ég hef oft bent á að þörf er að bæta lýðheilsu okkar Íslendinga. Lýðheilsa er vel notað orð um þessar mundir enda æ fleiri sem gera sér grein fyrir mikilvægi þess að efla lýðheilsu í landinu.

 

 

Heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga er talið mjög gott í samanburði við aðrar þjóðir. En heilsufarið okkar er því miður ekki eins gott og það gæti verið. Fram kemur í Lýðheilsuvísum Embættis landlæknis og í niðurstöðum Rannsókna og greiningar að fólk á öllum aldri sefur enn of lítið, gosdrykkjaneysla er talsverð, fleiri finna til einmanaleika og notkun samfélagsmiðla og stöðugur samanburður fólks við aðra, samhliða minni hreyfingu virðist auka vanlíðan, sérstaklega ungmenna. Það kann ekki á gott. Við getum látið okkur líða betur, bæði andlega og líkamlega. Hlutskipti flestra er slíkt að það er undir okkur sjálfum komið. Slenið og neikvæður lífsstíll veldur stöðugt meira álagi á heilbrigðiskerfið og eykur kostnað ríkissjóðs.

 

 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagði í nýársávarpi sínu við upphaf árs, að við verðum við að huga að forvirkum aðgerðum sem stuðla að betri lýðheilsu og geðheilsu. Ég tek heilshugar undir þetta enda er þetta kjarni ungmennafélagshugsjónarinnar. Heilbrigður lífsstíll er einföld forvirk aðgerð. Við þurfum aðeins að verða meðvitaðri, hugsa betur um okkur, borða betur, huga að svefni okkar og hreyfa okkur. Það er samfélaginu til góða enda er framlag hvers og eins lóð á vogarskálarnar. Bætt lýðheilsa landsmanna mun draga úr álagi á heilbrigðiskerfinu og kostnaði ríkissjóðs til heilbrigðismála. 

 

Nýtum tækifærið

Nú á nýju ári er tækifæri til að  hefja skipulega vinnu og átak til að efla lýðheilsu allra Íslendinga – á öllum aldri. Slíkt átak þarf að byggjast á samvinnu ungmennafélaga- og íþróttahreyfingarinnar og yfirvalda þar sem þekking og fræðsla og stjórnsýslulegt regluverk koma saman í eina heild. Íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin er með þræði um allt land og því ætti okkur að vera í lófa lagið að bæta lýðheilsu þjóðarinnar. Við verðum að gera það saman!

 

Gleðilegt nýtt ár. 

Haukur F. Valtýsson, formaður UMFÍ.