30. apríl 2021

Sérstakur frístundastyrkur framlengdur til loka júlí

Ákveðið hefur verið að framlengja umsóknarfrest fyrir sérstaka frístundastyrki frá 15. apríl til 31. júlí næstkomandi. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, verkefnastjóri í félagsmálaráðuneytinu, segir þetta gert svo fólk geti nýtt þá fyrir sumarnámskeið barna sinna og fyrir íþrótta- og tómstundaræfingar.

„Það er augljóst að fólk er ekki að fara mikið erlendis og mörg sumarnámskeið þegar orðin fullbókuð. Þessi sérstaki styrkur mun vafalítið koma mörgum að góðum notum,“ segir hún.

 

Styrkurinn er veittur grunnskólabörnum sem fædd eru á árunum 2005-2014 og búa á heimilum þar sem heildartekjur framfærenda, einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks, voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði.

Styrkurinn er að hámarki 45.000 krónur fyrir hvert barn sem stundar skipulagt tómstunda- og/eða íþróttastarf undir leiðsögn þjálfara eða leiðbeinanda. Athugið að hægt er að koma með kvittanir fyrir íþrótta- og tómstundastarfi sem greitt var fyrir í upphafi skólaárs, eða frá hausti 2020.

 

Frekari upplýsingar er að finna á Ísland.is en þar er líka hægt að sækja um styrk