07. september 2021

Sigríður er nýr framkvæmdastjóri UMSB

„Mér finnst alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt enda öllum hollt að fara svolítið út fyrir þægindarammann. Þegar stjórn UMSB hafði samband og spurði hvort ég vildi taka við af Sigga þá fannst mér það spennandi,“ segir Sigríður Dóra Sigurgeirsdóttir, sem tekið hefur við sem framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB).

Sigríður Dóra kemur í stað Sigurðar Guðmundssonar, sem er nýráðinn forstöðumaður Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni. Ráðning þeirra beggja er tímabundin út skólaárið.

Sigríður Dóra segist þekkja afar vel til starfsins enda hafi hún verið tómstundafulltrúi UMSB síðastliðin fimm ár eða svo. Í hennar stað kemur inn Svala Eyjólfsdóttir sem tómstundafulltrúi og starfsmaður UMSB.