05. janúar 2018

Sigurður er nýr framkvæmdastjóri UMSB

Sigurður Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB). Hann tekur til starfa 1. febrúar. Sigurður tekur við starfinu af Pálma Blængssyni, sem hefur verið framkvæmdastjóri frá miðju ári 2013.

Sigurður er fjögurra barna faðir frá Hvanneyri. Hann er nú verkefnastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) og kemur þar að skipulagningu stórra viðburða á borð við Reykjavíkurmaraþonið. Hann hefur áður starfað sem tómstundafulltrúi Borgarbyggðar fyrir hönd UMSB og unnið hjá UMFÍ, m.a. sem framkvæmdastjóri Landsmóta UMFÍ 50+ og ýmissa lýðheilsuverkefna. Því til viðbótar hefur hann setið í Æskulýðsráði ríkisins sem m.a. vinnur að stefnumótun æskulýðsmála í landinu.

Sigurður er með B.Sc. gráðu í íþrótta-, kennslu- og lýðheilsufræðum frá Háskólanum í Reykjavík. Þá hefur hann einnig menntað sig í leiðtoga- og frumkvöðlafræðum og almennum íþróttum auk þess að hafa sveinspróf í húsasmíði.

Sigurður er af mikilli ungmennafélagsfjölskyldu sem hefur um árabili verið virk í starfi hreyfingarinnar, svo sem á Unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina 2016. Sigurður er sjálfur formaður Ungmennafélagsins Íslendings sem rekur m.a. Hreppslaug í Efri-Hrepps í Skorradal.