11. júní 2021

Sjálfboðaliðar

Mikið er framundan hjá UMFÍ í sumar í samvinnu við sambandsaðila, aðildarfélög og marga fleiri. Þar á meðal eru Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina og Landsmót UMFÍ 50+ í Borgarnesi. Gríðarlegur fjöldi sjálfboðaliða kemur að viðburðunum.

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, og Jóhann Steinar Ingimundarson, varaformaður UMFÍ, skrifuðu grein í Fréttablaðinu í vikunni um mikilvægi sjálfboðaliðastarfsins fyrir UMFÍ og vinnuna sem er í gangi í ungmennafélagshreyfingunni til að bæta umgjörð sjálfboðaliða. 

Hér má lesa greinina í heild sinni:

 

Sjálfboðaliðar

Ung­menna­fé­lag Ís­lands (UMFÍ) var stofnað á Þing­völlum árið 1907 af sjálfboðaliðum. Nú rúmum hundrað árum síðar er krafturinn sem keyrir ungmennafé­lags­hreyfinguna á­fram enn fenginn frá sjálf­boða­liðum.

Það er mikið fram undan hjá okkur í UMFÍ í sumar í sam­vinnu við héraðs­sam­bönd, í­þrótta­fé­lög og sveitar­fé­lög víða um land. Þessa dagana vinnum við að undir­búningi Ung­linga­land­smóts UMFÍ um verslunar­manna­helgina á Sel­fossi með Héraðs­sambandinu Skarp­héðni og sveitar­fé­laginu Ár­borg. Í Borgar­nesi stendur svo yfir undir­búningur að Lands­móti UMFÍ 50+ í sam­starfi við Ung­menna­sam­band Borgarfjarðar og sveitar­fé­lagið Borgar­byggð. Mótið er skemmti­legur vett­vangur fyrir allt fólk sem fagnar fimm­tugs­af­mæli á árinu og þá sem eldri eru.

UMFÍ er lands­sam­band ung­menna­fé­laga og innan þess eru rúm­lega 450 í­þrótta- og menningar­fé­lög um allt land og koma sjálf­boða­liðar að starf­semi þeirra allra – allt árið um kring. Þeir eru í gæslu, stýra móta­haldi, selja í sjoppunni og styðja við starfið á marga vegu. Sérstak­lega má nefna ný­legt dæmi sem sýnir kraftinn í starfi sjálf boða­liðanna sem lögðu á sig ó­mælda vinnu við að gera byggingu íþrótta­húss á Egils­stöðum að veru­leika – já, starfið er fjöl­þætt.

Oft heyrist að erfiðara sé að fá fólk til sjálf boða­liða­starfa. Sem betur fer finnum við hjá UMFÍ enn að margir vilja leggja hönd á plóg og nýta frí­tíma sinn til að gera viðburði barna sinna og annarra að skemmti­legri upp­lifun.

Sjálf­boða­liðar sækja þangað sem reglu­verkið er traust, fólk veit að hverju það gengur og hver og einn veit stöðu sína og hlut­verk. Þess vegna vinnum við hjá UMFÍ stöðugt að því að bæta um­hverfi sjálf­boða­liða.

Nú er í gangi um­fangs­mikil stefnu­mótunar­vinna sem mun styrkja UMFÍ og í­þrótta­héruð landsins, efla þau og treysta til að sinna sjálf boða­liðunum sem vilja leggja sitt af mörkum.

Sjálfboðaliðarnir eru aflið sem við verðum að huga að og halda utan um því þeir vinna að því að bæta starf hreyfingarinnar, sam­fé­laginu til góða. Það er ung­menna­fé­lags­andinn í hnot­skurn.

Greinin á vef Fréttablaðsins