12. nóvember 2019

Skóflustunga tekin að nýju íþróttahúsi á Framsvæðinu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og hópur ungra iðkenda í Fram tóku skóflustungu að nýrri íþróttamiðstöð í Úlfarsárdal í dag. Viðstaddir voru auk borgarstjóra og Framaranna ungu forsvarsmenn Fram, þar á meðal Sigurður Ingi Tómasson, formaður Fram, sem hélt stutta tölu um framkvæmdirnar ásamt Degi.

Sigurður segir framkvæmdir hefjast strax og sé áætlað að íþróttahúsið verði vígt í maí árið 2022.

Þetta verður fjölnota íþróttahús upp á 7.300 fermetra á þremur hæðum með sameiginlegu hverfistorgi, áhorfendastúku fyrir aðalleikvang í knattspyrnu, minni íþróttasölum, samkomusölum, fyrirlestrarsölum, félags- og þjónustuaðstöðu fyrir starfsfólk, þjálfara og félagsmenn, búningarými ásamt samkomusal og fundaraðstöðu

Í íþróttamiðstöðinni verður fullbúin handboltahöll með keppnisvelli og plássi fyrir 1.300 áhorfendur. Vellinum verður hægt að skipta upp í tvo handboltavelli í fullri stærð. Í húsinu verða auk þess lyftingasalur, fjölnota æfingasalur og bardagasalur. Búningsklefarnir verða fimmtán auk sérklefa fyrir hreyfihamlaða iðkendur.

Fram er aðildarfélag ÍBR, sem fékk aðild að UMFÍ með innkomu þriggja íþróttabandalaga á sambandsþingi UMFÍ í október.

Hér má sjá nokkrar myndir frá skóflustungunni í dag.