25. nóvember 2021

Skráning á Almannaheillafélagaskrá og Almannaheillaskrá

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um skráningu Almannaheillaskrá Skattsins. Skráningin er ætluð óhagnaðardrifnum félögum, sjóðum og stofnunum sem hafa með höndum óhagnaðardrifna starfsemi til almannaheilla.  Gjafir og framlög til slíkra lögaðila skapa frádráttarheimild hjá gefendum. Listi yfir viðurkennda lögaðila hvers árs verður birtur á heimasíðu Skattsins.

Umsókn um skráningu á almannaheillaskrá er rafræn í gegnum þjónustuvef Skattsins.

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum almannaheillafélögum að nýtt skattaumhverfi slíkra félaga tók gildi 1. nóvember síðastliðinni samanber lög nr. 32/2021 um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla) og lög nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.

Síðustu daga hafa borist tilkynningar og leiðbeiningar frá Skattinum um hvernig skrá eigi og breyta skráningu félaga í almannaheillafélag þannig að þau fari inn á Almannaheillafélagaskrá.

Nú í vikunni komu leiðbeiningar um skráningu á Almannaheillaskrá sem er jafnframt skilyrði fyrir því að geta nýtt sér ávinning af breyttu lagaumhverfi. 

Athugið að gjald vegna skráningar á breytingu á félagi kostar 2.000 kr. en gjald vegna nýskráningar á almannaheillafélagi er 30.000 kr.

Eftirfarandi eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga:

  • Breyting á skráningu félags yfir í að vera almannaheillafélag:  Fylla þarf út eyðublað RSK_17.10 og undirrita af stjórn en því skal fylgja breytt lög/samþykktir félags (sýnishorn af samþykktum fyrir almannaheillafélag) einnig undirritað af stjórn.  Með þessum gögnum þarf að berast kvittun fyrir greiðslu á breytingargjaldi sem er 2.000 kr. og greiðist inn á reikning 0515-26-723000 á kt. 540269-6029 (upplýsingar fengnar frá fyrirtækjaskrá).
  • Svipað ferli gildir fyrir félög til almannaheilla yfir landamæri sjá leiðbeiningar. En þau eru skráningarskyld skv. lögum nr. 119/2019. Eingöngu er hægt að skila gögnum á pappír fyrir nýskráningu en áður skráð félög geta skilað inn upplýsingum um raunverulega eigendur rafrænt.
  • Frumskráning á almannaheillafélagi: Fylla þarf út eyðublað RSK_17.09 og undirrita, meðfylgjandi þarf að vera tilkynning um raunverulega eigendur RSK_17.28 ásamt stofngögnum, þ.e. samþykktum, stofnsamningi og stofnfundargerð (sjá leiðbeiningar). Einnig þarf að fylgja kvittun fyrir greiðslu tilkynningargjalds 30.000 kr. á bankareikning:
     0515-26-723000 á kt. 540269-6029. Hægt er að senda skönnuð gögn inn til fyrirtækjaskra@skatturinn.is.
  • Skráning á Almannaheillaskrá: Öll félög sem vilja nýta sér ávinning af lögum 32/2021 verða að skrá sig á Almannaheillaskrá í gegnum innskráningu á sitt heimasvæði á þjónustuvef skattsins (skattur.is) sem er tiltölulega einföld skráning (Sjá tilkynningu og leiðbeiningar frá Skattinum).

 

Umfjöllun um málið og ítarlegar leiðbeiningar má finna á www.almannaheill.is.