28. maí 2019

Staða samskiptaráðgjafa orðið að veruleika

Frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs er orðið að lögum. Í ákvæði til bráðabirgða með lögunum segir að ráðherra sé nú heimilt að útvista starfinu til þriðja aðila, auglýsa það og ráða í starfið til fimm ára í senn.

Starfssvið samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs nær til skipulagðrar starfsemi eða starfsemi í tengslum við hana á vegum ÍSÍ, UMFÍ, æskulýðssamtaka sem starfa á grundvelli æskulýðslaga og aðila sem gera samning við það ráðuneyti sem fer með íþrótta- og æskulýðsmál um rekstrarframlag vegna sambærilegrar starfsemi. 

UMFÍ fagnar lögunum enda ljóst að ráðherra greip boltann á lofti eru þau til þess fallin að bæta starf félaganna. UMFÍ sendi inn umsagnir um málið á umsagnarferli þess. 

Sjá umsagnir og feril málsins

 

Öruggara umhverfi

Markmið laganna er að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar. 

Jafnframt segir í lögunum að samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðssstarfs er ekki heimilt að innheimta gjald af þjónustu sinni.

 Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs er óheimilt að skýra frá þeim atriðum sem hann verður áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Hann getur, óháð þagnarskyldu viðkomandi aðila, krafið þá sem skipuleggja eða bera ábyrgð á íþrótta- eða æskulýðsstarfi um allar þær upplýsingar sem hann metur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu og er viðkomandi aðilum þá skylt að láta honum í té umbeðnar upplýsingar. 

Tekið er fram í lögum um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, að yfirmenn þeirra aðila sem falla undir lög þessi og sinna íþróttastarfi eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur sem sótt hefur um starf við að sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri hefur hlotið dóm vegna brota sem 1. mgr. tekur til, að fengnu samþykki hans. Á þetta einnig við um þann einstakling sem hyggst taka að sér sjálfboðaliðastarf. 

 

Nánar um lög um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs