06. júlí 2018

Stanslaust stuð á Króknum á Landsmótinu

Glæsilegt kynningarblað um Landsmótið fylgdi Fréttablaðinu í gær. Í blaðinu er rætt við Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ, um þessa íþróttaveislu sem framundan er á Sauðárkróki. Auður ætlar að sjálfsögðu að taka þátt í mótnu með fjölskyldu sinni og hlakkar til.

„Ég hef sett mér markmið um að prófa þrjár til fjórar íþróttagreinar. Vinkonur mínar úr íþróttunum í gamla daga eru orðnar mjög spenntar fyrir Landsmótinu og hafa sett saman lið í bæði brennó og strandblaki og skorað á maka sína til þátttöku í fleiri greinum. Þeir eru til dæmis búnir að búa tl líð í knattspyrnu. Einhverjir ætla líka að skella hjólunum aftan á bílinn og taka þátt í hjólreiðum,“ segir hún.

Auður hvetur sem flesta til að taka þátt og skrá sig til leiks á www.landsmotid.is.

„Landsmót UMFÍ mun halda áfram að þróast og verða skemmtileg samverustund fyrir fjölskyldur og vini þar sem hreyfing og íþróttir verða í forgrunni enda öflugur liður í forvarnarstarfi og bættri lýðheilsu þjóðarinnar.“

 

Bræður keppa í nokkrum greinum

Í blaðinu er líka rætt við bræðurna Gunnar og Sævar Birgissyni sem ætla báðir að keppa í hjólaskíðaspretti, hjólreiðum og fleiri greinum. Gunnar ætlar líka að keppa í strandblaki með kærustunni sinni, blakkonunni Velinu Apostolova.

 

Brjálað götupartí

Auðunn Blöndal, Steindi Jr, Sverrir Bergmann og Halldór Gunnar Fjallabróðir ætla allir að mæta á Landsmótið á Sauðárkróki. Þeir stýra þar götupartí og lofar Auddi miklu stuði. Hann lofar að Gerimundur Valtýsson taki upp nikkuna og haldi uppi góðri stemningu.

Hann bendir á að allir geti skráð sig á Landsmótið sem vilja. „Fólk þarf ekki að vera í neinu íþróttafélagi til þess. Þetta er tilvalið fyrir vinahópa, skreppa norður, kíkja á ball með Páli Óskari og taka þátt í dagskránni. Svo vonumst við auðvitað til að brottfluttir Króksarar komi í heimsókn enda er þetta hátíð fyrir alla.“

 

Hægt er að smella á myndina hér að neðan og skoða kynningarblaðið um Landsmótið.