29. maí 2019

Starfsmenn Lyfju gera þrekæfingar á vaktinni

„Þetta leggst mjög vel í mannsskapinn. Okkur öllum finnst hreyfing góð. Það er gott að taka svolítið á því og hreyfa sig í Hreyfiviku UMFÍ. Það er hvatning til starfsmanna sem vinna langan dag og eflir starfsandann,“ segir Þorsteinn Hjörtur Bjarnason, aðstoðarlyfjafræðingur í Lyfju við Smáratorg í Reykjavík. Opið er frá morgni til miðnættist í Lyfju við Smáratorg og er vinnudeginum skipt niður á vaktir.

Þorsteinn og nær allt starfsfólk Lyfju bæði við Smáratorg og á Selfossi tekur þátt í Hreyfiviku UMFÍ sem nú stendur yfir. Vinnudagurinn hjá starfsfólki Lyfju við Smáratorg skiptist í tvær vaktir og stefnir hvor þeirra að því að gera 100 þrekæfingar af ýmsum toga á hvorri vakt. 

Á mánudag gerðu starfsmenn á dagvakt Lyfju við Smáratorg 100 armbeygjur og skákaði kvöldvaktin með sama fjölda. Í gær gerðu starfsmenn 100 burpees á hvorri vakti. Í dag stefndi hvor vakt að því að klára 100 dýfur í dag með hendur á tveimur stólum. Fjörið heldur áfram á morgun og alveg fram á sunnudag.

Á morgun er stefnt að því að taka 100 hnébeygjur, á föstudagverður farið í planka. Yfir helgina er á dagskrá 100 framstig og 100 hnébeygjuhopp.

Það má því með sanni segja að starfsmenn Lyfju á Smáratorgi muni flestir hverjir taka vel á í vikunni.

 

Starfsfólk apóteks í taekwondo

Starfsmenn Lyfju á Selfossi hafa farið í göngutúra eftir vinnu í vikunni. Í hádeginu í dag kom í heimsókn jógakennarinn Bryndís Guðmundsdóttir og fór hún með þeim í gegnum svokallað vinnustaðajóga. Vinnustaðajóga er stuttur jóga- og slökunartími sem haldin er í hádegishléi starfsmanna. Jógað endurnærir hugann og gerir starfsmanninum kleift að koma vel frískur til vinnu að hléi loknu. Í lok vikunnar stefnir hópurinn á að prófa nýja og skemmtilega hreyfingu. Fyrir valinu varð æfing í taekwondo.

 

Hvetur aðra til að hreyfa sig

Hreyfivika UMFÍ hófst á mánudag og lýkur sunnudaginn 2. júní. Hún hefur verið haldin árlega frá því árið 2012 og er markmið hennar að fjölga þeim sem hreyfa sig reglulega, að minnsta kosti í 30 mínútur á hverjum degi.

Í ár hefur áhersla verið lögð á að virkja fyrirtæki og starfsfólk þess til að taka þátt í Hreyfiviku UMFÍ og stuðla að því að draga úr kyrrsetu fólks.

Þorsteinn mælir með þátttöku í Hreyfivikunni og hvetur bæði starfsfólk fyrirtækisins og aðra sem hreyfa sig lítið í vinnunni að taka þátt í Hreyfiviku UMFÍ.

Hreyfivika UMFÍ er í samstarfi við Ölgerðina sem hefur veitt nokkrum fyrirtækjum glaðning fyrir starfsfólk sem tekur þátt í hreyfingunni og boðað hana. Þeir starfsmenn Lyfju sem taka þátt í Hreyfivikunni fengu því að gjöf Kristal og Heilsusafa frá Ölgerðinni.

Á myndinni hér að neðan má sjá Lovísu í Lyfju við Smáratorg taka dýfur. og starfsmenn Lyfju á Selfossi í gönguferð í Hellisskógi.