28. maí 2018

Stefán Arnarson: Það má ekki taka gleðina úr leiknum

Ef íþróttamenn eru glaðir á æfingum þá eru meiri líkur á að þeir nái árangi. En mikilvægt er að þjálfarar sýni leikmönnum líka virðingu, að sögn Stefáns Arnarsonar, þjálfara íþróttastjóran KR og þjálfara Íslandsmeistara Fram í handknattleik kvenna.

Stefán lýsti því hvernig hann nálgast þjálfun í erindi á hádegisfundi í fundarröð skólans: „Best fyrir börnin - Hvernig höldum við gleðinni í íþróttum á tímum afreksmennsku.“

Fundurinn var sá sjötti og síðasti í röðinni og hafði það mark­mið að veita vel­ferð barna og ung­linga sér­staka at­hygli og dýpka sýn al­menn­ings og fag­fólks á mik­il­væg­um samfé­lags­leg­um þátt­um.

Stefán tók sem dæmi um óvirðingu þjálfara þegar þeir fá sér kaffi á meðan æfingu stendur, setjast á stól eða leggjast í gras til að fylgjast með æfingu. Það geri hann ekki heldur sé á fullu allan tímann eins og íþróttamennirnir.

 

Það má ekki taka leikinn úr leiknum

Stefán sagði líka mikilvægt að hafa gaman af því sem maður gerir og gleðjast með öðrum.

Ef eitthvað er gaman þá eru miklu meiri líkur á því að ná árangri en í því sem þér þykir leiðinlegt. Við erum 10-11 mánuði og hittumst 6-7 daga vikunnar. Ef þetta væri leiðinlegt, þá held ég að það væru mjög litlar líkur á því að ná árangri. En það er örugglega hægt,“ sagði hann og nefndi sem dæmi um gleði á æfingu atvik hjá KR fyrr um daginn.

„Við erum með verkefni fyrir eldri borgara, Kraftur í KR. Þar eru konur um sjötugt. Þær voru að reyna að hitta körfu sem var stillt í næsthæstu stillingu. Engin þeirra dreif. En svo hitti ein. Og hvað gerðist? Þær fögnuðu allar!“ sagði hann og hélt áfram: „Gleðin er í okkur öllum og hún er svo mikilvæg.“

Á meðal annarra sem héldu erindi á fundinum voru Viðar Halldórsson, dós­ent í fé­lags­fræði við Há­skóla Íslands, sem stýrði fundinum. Hann sagðist telja Íslendinga vera að upplifa gullöld íslenskra íþrótta. Í íþrótta­fé­lög­um tvinnist saman uppeldi og afsreksstarf. Í öðrum löndum sé það slitið í sundur.

Gunnar Valgeirsson, pró­fess­or við Cali­fornia State há­skól­ann í Banda­ríkj­un­um, var með erindi á milli þeirra Viðars og Stefáns. Hann fjallaði um skipu­lag íþrótta í Banda­ríkj­un­um sam­an­borið við Ísland. Hann sagði áhersluna í Bandaríkjunum lagða á af­reks­stefnu frá unga aldri og sé þar meiri al­vara, sér­hæf­ing og áhersla á að græða pen­ing. Þetta komi niður á íþróttamönnum og hafi aukið mikið tíðni meiðsla hjá börnum og ungu íþróttafólki.

 

Myndina af Stefáni tók Kristinn Ingvarsson fyrir Háskóla Íslands og fékk UMFÍ góðfúslegt leyfi fyrir birtingu hennar hér.

Allan fyrirlesturinn má sjá og heyra hér