10. maí 2021

Tækifæri til að styrkja skipulagt íþróttastarf

Mikilvægt er að íþróttahreyfingin vinni saman að því að efla og samræma starfsemi íþróttahéraða á Íslandi. Þar eru tækifæri til að styrkja enn frekar skipulagt íþróttastarf um allt land, að mati Hauks Valtýssonar, formanns UMFÍ. Hann hélt ávarp á þingi ÍSÍ á föstudag.

Í ávarpinu sagði Haukur samvinna innan íþróttahreyfingarinnar hafa stutt við íþróttastarf á Íslandi til viðbótar við stuðning stjórnvalda í COVID-faraldrinum. Trúi hann því að enn frekari tækifæri leynist í samvinnunni.

„En þótt lífið sé að komast í samt lag á ný þá verðum við að vera áfram á tánum. Við þurfum að horfa til framtíðar og halda áfram að styrkja starfið enn frekar,“ sagði hann og hélt áfram:

„Eitt af þeim atriðum sem ég og fleiri horfum til, er þörfin á því að við, innan íþróttahreyfingarinnar, eflum og samræmum starfsemi íþróttahéraða í landinu. Þar eru tækifæri til að styrkja enn frekar skipulagt íþróttastarf um allt land og þjónusta félögin í hverjum landshluta. Í því liggur besta þjónustan við iðkendur, við stjórnendur og sjálfboðaliða félaganna.“

 

Ávarp Hauks í heild sinni

 

75. Íþróttaþing ÍSÍ

7.-8.maí 2021

Góðir þingfulltrúar. 

 

Nú er farið að hilla undir að við sjáum fram á að daglegt líf komist í samt lag á ný. Við höfum barist við COVID-veiruna í á annað ár og margir hafa fært miklar fórnir en við höfum gengið í gegnum þetta saman allan tímann. 

Samvinna innan íþróttahreyfingarinnar hefur hjálpað okkur mikið nú þegar. Ég trúi því að enn frekari tækifæri leynast í samvinnunni. 

Stjórnvöld hafa stutt vel við íþróttastarfið frá því faraldurinn fór af stað. Það ber að þakka og er afar dýrmætt og sýnir að stjórnvöld gera sér grein fyrir mikilvægi íþróttastarfsins.

En þótt lífið sé að komast í samt lag á ný þá verðum við að vera áfram á tánum. Við þurfum að horfa til framtíðar og halda áfram að styrkja starfið enn frekar. 

Eitt af þeim atriðum sem ég og fleiri horfum til, er þörfin á því að við, innan íþróttahreyfingarinnar, eflum og samræmum starfsemi íþróttahéraða í landinu. 

Þar eru tækifæri til að styrkja enn frekar skipulagt íþróttastarf um allt land og þjónusta félögin í hverjum landshluta. Í því liggur besta þjónustan við iðkendur, við stjórnendur og sjálfboðaliða félaganna. 

Styrking og efling íþróttahéraða er í samræmi við íþróttastefnu mennta- og menningarmálaráðherra, sem gefin var út fyrir rúmlega tveimur árum. Þar er mikilvægi íþróttahreyfingarinnar rammað inn.

En íþróttahreyfingin þarf stuðning og fjármagn til að halda úti sínu starfi . Hún á með öðrum fyrirtækin Íslenska getspá og Íslenskar getraunir.                                                                                                  

Þau hafa reynst afar góður stuðningur við íþróttastarfið um allt land.

Við þurfum að vera vakandi yfir því hvernig við getum auki virði þess fjár sem fyrirtækin skila til starfsemi okkar.

Stuðningur við Íslenska getspá er okkur öllum mikilvægur og ég er  mjög þakklátur fyrir aukaúthlutanir til hreyfingarinnar á Covid tímum.

Eitt af því sem við verðum að gera til að styðja enn frekar við rekstur íþróttastarfs á Íslandi er að vinna saman gegn starfsemi erlendra veðmálafyrirtækja á Íslandi.                                                                  

Þær eru ekki heimilar hér á landi og starfsemin er ólögmæt. Talið er að Íslendingar verji um sjö milljörðum króna í veðmál á erlendum síðum. Það eru fjármunir sem íþróttafélög verða af, amk að stórum hluta. 

Þessi fyrirtæki skila ekki neinu inn í íslenskt samfélag.         

Þetta er langt í frá ásættanlegt og þessu verður að breyta. Við getum gert það með því að hætta að flytja fjármuni úr landi í gegnum erlendar veðmálasíður og styðja frekar við fyrirtækin sem skila einhverju aftur inn í samfélagið.  

Við þurfum líka að auka fræðslu um þessi mál.  

Ef við ætlum okkur að hafa sterk íþróttafélög  á Íslandi þá þurfum við svo sannarlega að styðja Íslenska getspá og Getraunir og efla tekjumöguleika okkar. 

Það er samfélagi okkar til góða. 

Ég óska ykkur öllum velfarnaðar og hvet alla til þess að horfa bjartsýn til framtíðar um leið og ég færi ykkur kveðjur frá Ungmennafélaghreyfingunni og einnig kveðjur héðan að norðan frá “Höfuðborg hins bjarta norðurs“. 

Gangi  ykkur vel í ykkar mikilvægu störfum og gleðilegt íþróttasumar.  

Takk fyrir.