06. júní 2018

Telur lukkudýrin gera mikið gagn

Tími lifandi lukkudýra er sennilega liðinn. Grafíski hönnuðurinn og markaðsfræðingurinn Jóhann Waage hefur hannað flest lukkudýr og merki ungmenna- og íþróttafélaga landsins. Hann segir góð lukkudýr, sem tengjast merkjum ungmennafélaga, geta gert mikið gagn. Bæði gagnist þau í fjáröflunarskyni og geti þau hvatt til íþróttaiðkunar barna.

En hver er hugmyndin á bak við lukkudýr félags? Koma þau að gagni? Hvernig eru þau gagnleg? 

Jóhann er mesti reynslubolti landsins þegar kemur að lukkudýrum. Hann bjó meðal annars til lukkudýr fyrir Skallagrím í Borgarnesi, Breiðablik, Kela fyrir Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag, Tindastól og fleiri. Síðasti lukkudýrabúningurinn, sem hann skóp, var Sprettur sporlangi, lukkudýr UÍA.

Jóhann segir gott lifandi lukkudýr geta gert góða hluti fyrir viðkomandi félag, jafnvel hvatt börn til íþróttaiðkana.

„Lukkudýr eru skemmtileg og geta búið til góða stemningu á íþróttaviðburðum. Þegar ég fór með krakkana mína á leiki með Skallagrími í Borgarnesi biðu þau eftir lukkudýrinu og vildu láta taka mynd af sér með því. Góð lukkudýr geta líka haft hvetjandi áhrif. Þau ná til stuðningsmanna og barna sem hafa í sjálfu sér lítinn áhuga á íþróttum en vilja leika sér. Þegar fígúra eins og lukkudýr tengist leiknum fá þau áhuga. Ég hef alltaf viljað sjá félögin gera krakkana spennta fyrir því að fara á íþróttaleiki. Ef þau verða ekki íþróttamenn sjálf eru samt líkur á að þau vinni síðar fyrir félagið, sem stjórnarmenn, sjálfboðaliðar eða foreldrar barna sem stunda íþróttir.“

 

Dýrt að búa til lifandi lukkudýr

Jóhann segir minna um það nú en áður að íþróttafélög láti búa til lifandi lukkudýr fyrir sig.

„Vinnan kostar sitt og búningurinn er ekki ókeypis. Hann getur farið í nokkuð hundruð þúsund krónur. Þótt lifandi lukkudýr geri mikið gagn held ég að tími þeirra sé liðinn. Félögin gera það nú í meira mæli að búa til lógó með lukkudýrum í og setja þau á miða, boli, búninga og varning. Lógóið og lukkudýrið eru andlit félagsins. Eftir þessu er tekið. Félögin hafa líka notað lukkudýr í vörumerkjum til fjáröflunar. Það þarf ekki að vera dýrt og getur skilað miklu fyrir félagið til lengri tíma,“ segir Jóhann og rifjar upp að hann hafi séð mikið af vörum merktum með bolabít.

Þótt tími lifandi lukkudýra sé að mestu liðinn hér á landi segir Jóhann öðru máli gegna um stöðu þeirra utan landsteinanna.

„Lukkudýr hafa lifað góðu lífi í Bandaríkjunum í áraraðir og eru mjög tengd við körfubolta þar. Japanir eru líka allir í fígúrum og líka Kóreumenn og ýmsir aðrir Asíubúar. Þá eru lukkudýr að verða vinsæl á meginlandi Evrópu,“ segir hann.

 

Viðtalið við Jóhann er í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ

Þú getur nálgast blaðið í sundlaugum og íþróttamiðstöðvum víða um land. Skinfaxi er líka á netinu.

Smella hér og lesa Skinfaxa