10. maí 2019

Þorbjörg segir marga spennta fyrir Landsmóti UMFÍ 50+

„Ég var mjög ánægð eftir fundinn í Neskaupstað. Margir mættu, bæði langt undir fimmtugu og yfir áttrætt. Um 30 manns skráði sig sem sjálfboðaliða og aðrir ætla að taka þátt. Aðrir gera bæði,“ segir Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, keppnisstjóri á Landsmóti UMFÍ 50+ sem haldið verður í Neskaupstað í lok júní.

UMFÍ og landsmótsnefndin stóð fyrir opnum íbúafundi í Neskaupstað á fimmtudagskvöld. Á fundinum fór Ómar Bragi Stefánsson, landsfulltrúi og framkvæmdastjóri móta UMFÍ, yfir fyrirkomulag mótsins og keppnisgreinar og hvatti Norðfirðinga til að taka þátt í mótinu hvort heldur sem keppendur eða sjálfboðaliðar.

 

Þorbjörg segir Norðfingina mjög spennta fyrir mótinu.

„Fólk er að átta sig á því að þetta mót fyrir fólk á miðjum aldri er ekki einhver bóla sem verður haldin einu sinni eða tvisvar. Mótið er komið til að vera. Fólk er farið að tala meira um mótið í sveitarfélagin og á vinnustöðum eftir því sem nær dregur. Ég hitti sem dæmi eina konu í gær sem ætlaði úr bænum á meðan mótinu stendur. Eftir fundinn var hún staðráðin í að vera heima og taka þátt í því, hvort heldur sem sjálfboðaliði eða þátttakandi,“ segir hún.

 

Amma í strandblaki

Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið í Neskaupstað dagana 28.-30. júní. Að því standa UMFÍ, Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) auk sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Mótið hefur verið haldið árlega víða um land frá árinu 2011.

 

 

Á mótinu verður hægt að velja um þátttöku í 21 keppnisgrein. Mótið er að sjálfsögðu hugsað fyrir þá sem verða fimmtugir á árinu og alla eldri. En í Neskaupstað verða sumar greinar opnar fólki undir fimmtugu. Þar á meðal eru pílukast, sem hefur komið sterkt inn upp á síðkastið, strandblak og garðahlaup.

Á íbúafundinum fór Ómar gróflega yfir dagskrá mótsins. Á fyrsta degi hefst keppni í boccía, sem í gegnum árin hefur verið langfjölmennasta greinin. Sama kvöld verður mótið sett með hátíðlegum hætti og línudansi. Skemmtikvöld verður á laugardagskvöldinu. Klassískasta grein mótsins er stígvélakast sem er lokagrein mótsins síðdegis á sunnudegi.

Opnað verður fyrir skráningu á Landsmót UMFÍ 50 ára og eldri 15. aí næstkomandi. Þátttökugjald er 4.900 krónur og er hægt að taka þátt í eins mörgum greinum og viðkomandi vill fyrir þetta eina verð.

Fleiri myndir frá fyrri mótum.