04. október 2021

UMFÍ í fyrsta sinn á þingi ÍBR

UMFÍ vinnur að stefnumótun fyrir ungmennafélagshreyfinguna. Í vinnunni felst að straumlínulaga frekar þá stefnu sem er til staðar og setja færri atriði á oddinn, að sögn Jóhanns Steinars Ingimundarsonar, varaformanns UMFÍ. Afrakstur stefnumótunarvinnunnar verður kynnt að Sambandsþingi UMFÍ sem fram fer á Húsavík dagana 15. – 17. október næstkomandi.

Jóhann Steinar hélt ávarp á 50. þingi Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) um helgina þar sem hann hvatti m.a. stjórnendur aðildarfélaga ÍBR til að taka þátt í ferðum og verkefnum UMFÍ. Það auki samstarf innan íþróttahreyfingarinnar.

ÍBR fékk aðild að UMFÍ á Sambandsþingi UMFÍ árið 2019 ásamt tveimur öðrum íþróttabandalögum, Íþróttabandalagi Akraness (ÍA) og Íþróttabandalagi Akureyrar (ÍBA). Þetta var í fyrsta sinn sem íþróttabandalög bætast í hóp UMFÍ. Með aðild ÍBR bættust nærri því öll íþróttafélög í Reykjavík í raðir UMFÍ. Innan UMFÍ eru því nánast öll íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu að félögum í Hafnarfirði undanskilin.

Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem þing ÍBR er haldið eftir að bandalagið gekk í raðir UMFÍ og fyrsta skipta skiptið sem fulltrúi UMFÍ situr það og heldur ávarp.

Á þingi íBR voru fjölmargar tillögur lagðar fram og var mikið rætt um siðamál og rafíþróttir. Á þinginu var svo samþykkt að taka rafíþróttir undir hatt ÍBR og muni þær starfa með sama hætti þar og aðrar íþróttagreinar. ÍBR verði falið að móta stefnu um það hvernig af þessu geti orðið og hvernig það verðir fjármagnað.

Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, var endurkjörinn.

Í stjórn ÍBR sitja:

  • Gígja Gunnarsdóttir
  • Lilja Sigurðardóttir
  • Viggó Viggósson
  • Guðrún Ósk Jakobsdóttir
  • Margrét Valdimarsdóttir
  • Björn M. Björgvinsson

Varamenn:

  • Haukur Þór Haraldsson
  • Brynjar Jóhannesson

 

Ávarp Jóhanns Steinars í heild sinni

 

„Ágætu þingfulltrúar.

Það er gaman að vera hér í dag með ykkur, fulltrúum fjölmennasta íþróttahéraðs landsins. Fyrir okkur hjá UMFÍ er þetta einnig stór dagur í ljósi þess að þetta er í fyrsta skipti sem við komum á ykkar fund sem aðildarfélags að samtökunum. Aðdragandinn að þeirri aðild var vissulega langur en eigum við ekki bara að segja að allt gott taki sinn tíma til að verða að veruleika.

Starfsemi UMFÍ eins og margra annarra hefur síðustu misseri verið nokkuð sérstök og mörg verkefna okkar hafa frestast eða breyst vegna Covid áhrifa. Á sama tíma má þó segja að samstaðan innan hreyfingarinnar hefur sjaldan verið meiri og margt í þessu ástandi sem hefur gefið okkur kost á að læra og þróast. Við söknuðum vissulega Landsmótanna og tækifæranna á að hitta félaganna, gleðjast saman í góðum hópi. Starfsemi ungmennabúðanna að Laugarvatni var gloppótt en þó er gaman frá því að segja að allir sem gátu komist nýttu sér tækifærið til að skipta um umhverfi og tóku þátt í starfinu þar. Mikið álag var á þjónustumiðstöðinni þar sem reynt var eftir bestu getu að rýna í stöðuna og koma þeim upplýsingum sem skjótast til hreyfingarinnar ásamt því að reyna að aðlaga starfsemina að þeim aðstæðum sem komu upp hverju sinni.

Síðustu misserin hefur staðið yfir vinna að stefnumótun fyrir hreyfinguna, m.a. vegna innkomu nýrra aðildarfélaga. Rauði þráðurinn fólst í því að straumlínulaga frekar þá stefnu sem þegar var til staðar og setja færri atriði á oddinn. Sú vinna var einnig verulega háð ástandinu en í raun sýndi starfsfólk og hreyfingin úr hverju þau eru búin til, því að þrátt fyrir umtalsverðar breytingar á upphaflegum plönum um fundahald þá tókst að fá víðtæka rýni og góðar ábendingar sem við stefnum á að kynna fyrir hreyfingunni á þingi okkar á Húsavík nú í október.

Við hjá UMFÍ hlökkum til að kynnast aðildarfélögum ÍBR enn betur en vegna Covid  hafa ekki gefist nægilega mörg tækifæri til að hittast. Þá viljum við hvetja stjórnendur aðildarfélaganna til að taka þátt í þeim ferðum og verkefnum sem við reynum að setja upp með reglulegu millibili því að við höfum séð að tengsl á milli félaga hafa aukist verulega á slíkum vettvangi. Síðast en ekki síst vonumst við til að sjá sem flest ykkar á þinginu á Húsavík um miðjan mánuðinn.

Að lokum vil ég þakka kærlega fyrir boðið og vona að umræður á þinginu ykkar verði góðar og gefandi bandalaginu, hreyfingunni og samfélaginu til heilla.“