04. apríl 2022

UMFÍ og ÍSÍ taka í notkun nýtt skýrsluskilakerfi Abler

„ Í dag eru tímamót hjá íþróttahreyfingunni. Það er von okkar að með nýju skýrsluskilakerfi fáum við tækifæri til að fá enn skýrari mynd um stöðu skipulags íþróttastarfs á landsvísu“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, í ávarpi sem hann hélt í tilefni af því að opnað var fyrir skil á starfsskýrslum í nýju skilakerfi UMFÍ og ÍSÍ í dag. Fyrirtækið Abler hefur þróað nýja kerfið. Það fer fram í gegnum Sportabler, sem er sama kerfi og meirihluti íþróttafélaga notar í daglegu starfi.

Viðstaddir voru Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, sem jafnframt hélt erindi, Guðmunda Ólafsdóttir, stjórnarkona UMFÍ og staðgengill Gunnars Þórs Gestssonar, varaformanns UMFÍ, ásamt fleirum.

Með nýja kerfinu er horft til þess að skýrsluskilin verði einfaldari og skilvirkari en áður.

Skilakerfið nýja tekur við af kerfinu Felix, sem hefur verið notað frá árinu 2004.

Jóhann lagði í ávarpi sínu ríka áherslu á að íþróttastarfið hafi vaxið mikið í gegnum árin og mikilvægt sé að nýta tæknina til að halda utan um það til að bæta og styrkja starfi.

„Í nútíma samfélagi verðum við alltaf að vera á tánum. Landssamtök eins og ÍSÍ og UMFÍ verða að leiða lestina í tækniframförum. Kerfið á líka að gera okkur kleift að fá betri upplýsingar sem gefa aukna yfirsýn og veita okkur dýpri og þar með betri skilning á starfinu en áður. Með þær upplýsingar að vopni erum við í stöðu til að móta starfið enn betur og greina vísbendingar um það sem betur má fara á hverjum stað fyrir alla,“ sagði hann.

Markús Máni M. Maute, framkvæmdastjóri Abler, fór jafnframt yfir nýja kerfið, hvernig það virkar og möguleika þess og sagði starfsfólk fyrirtækisins afar stolt og þakklátt fyrir að vera þátttakendur í verkefninu.

Íþróttastarfið er að skila gríðarlega miklu og við erum að hjálpa til við það sem skiptir máli.“

Viðburðurinn var í beinu streymi á Teams. Hægt er að skoða hann betur með því að smella hér.