09. október 2019

UMFÍ verður öflugra landssamband

Tillaga um aðild íþróttabandalaga að UMFÍ verður á dagskrá sambandsþings UMFÍ í október. Formaður vinnuhóps um málið segir það stórt framfaraskref og að það sé í samræmi við stefnu UMFÍ um að allir séu með og getur styrkt UMFÍ gríðarlega mikið.

„Ég sé fyrir mér að saman getum við orðið ein stór heild, landssamband með sterka samningsstöðu og öflugur málsvari fyrir almenningsíþróttir á Íslandi. Það er nú eða aldrei. Við verðum að fullorðnast og ákveða hvað við viljum vera, landshlutasamtök eða kröftug fjöldahreyfing allra íþróttahéraða landsins sem hlustað er á,“ segir Guðmundur Sigurbergsson, stjórnarmaður í UMFÍ og formaður vinnuhóps um aðild íþróttabandalaga að UMFÍ.

 

 

Sambandsþing UMFÍ verður haldið á Laugarbakka í Miðfirði í október. Á dagskrá þingsins verður aðildarumsókn bandalaganna að UMFÍ. Málið var á dagskrá þingsins, sem haldið er á tveggja ára fresti, árið 2017. Á þinginu voru tillögur um aðild bandalaganna ýmist felldar eða vísað frá. Tillögur um breytingar á lögum, sem tengdust inngöngunni, náðu ekki 2/3 hluta atkvæða en þó var meira en helmingur þingfulltrúa sem studdi lagabreytingarnar eða 63 af 109. Tólf sátu hjá og voru 34 á móti. Þar sem lagabreytingin komst ekki í gegn var aðildarumsóknin ekki talin þingtæk. Boðað var til  sambandsráðsfundar sérstaklega vegna málsins í janúar 2018 til að svara ákalli hreyfingarinnar um áframhaldandi samtal um aðild íþróttabandalaganna að UMFÍ.

 

Stjórn UMFÍ er einróma í afstöðu sinni og telur inngöngu bandalaganna skref fram á við fyrir  ungmennafélagshreyfinguna, það sé hreyfingunni til hagsbóta að öll íþróttahéruð landsins hafi möguleika á því að starfa í ungmennafélagshreyfingunni. Sameiginlegir kraftar nýtist betur til framtíðar. Aðildin sé jafnframt í samræmi við stefnu UMFÍ um að allir séu með á eigin forsendum.

 

Kraftur þess að vinna saman

Guðmundur telur það stórt og mikilvægt skref fyrir þróun ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar á Íslandi gerist íþróttabandalögin aðilar að UMFÍ. Það geti skipt sköpun þegar fram í sækir. „Menntamálaráðherra kynnti nýverið stefnumótun í íþróttamálum til ársins 2030. Af henni má greina ýmsa þætti, meðal annars mögulega endurskoðun á íþróttahéruðum og skarpari áherslur í  verkaskiptingu verkefna á milli UMFÍ og ÍSÍ. Við þurfum að vera undirbúin og reiðubúin til að bregðast við

breyttum þörfum samfélagsins og takast á við verkefni framtíðarinnar Það gerum við best saman. Við hjá UMFÍ höfum góða tengingu við félögin í landinu og höldum stóra viðburði á borð við Unglingalandsmót UMFÍ. Íþróttabandalögin búa jafnframt yfir mikilli þekkingu á sama hátt og núverandi sambandsaðilar UMFÍ. Í samræðum okkar sjáum við fyrir okkur að allir geti sótt í þekkingarbrunna annarra. Við það styrkjumst við gríðarlega saman og getum eflt íþróttalíf landsins. Það eru þessir sameiginlegu kraftar sem bindur okkur saman. Ef ekki verður hver í sínu horni og erfiðara að sækja fram,“ segir Guðmundur og leggur áherslu á að forysta sambandsaðila UMFÍ horfi til framtíðar þegar snúi að umsókn íþróttabandalaga að UMFÍ. „Ég – og stjórn UMFÍ – er fullviss um að með þessu skrefi verði til tækifæri, svigrúm til að verða öflugri málsvari íþróttahéraða á Íslandi. En það sem líka skiptir máli er að sameiginlegir kraftar auka skilvirkni,“ segir Guðmundur.

 

Hagsmunir núverandi sambandsaðila varðir

UMFÍ á 13,33% hlut í Íslenskri getspá á móti ÍSÍ og ÖBÍ. Sambandsaðilar UMFÍ fá í hverjum mánuði greiðslur vegna eignarhlutar UMFÍ og skiptir það sköpum. Eðlilega hafa forsvarsmenn í ungmennafélagshreyfingunni áhyggjur af því að sneið þeirra minnki með aðild íþróttabandalaga að UMFÍ. Guðmundur segir að það sé búið að gera ráð fyrir hagsmunum núverandi sambandsaðila við inngöngu. Búið verði svo um hnútana að í kjölfar aðildar verði leitað til ÍSÍ um endurskipulag skiptingarinnar og fái íþróttabandalögin ekki aðgang að lottófjármagninu fyrr en UMFÍ og ÍSÍ hafi samið upp á nýtt, þannig séu hagsmunir núverandi sambandsaðila tryggðir. Til viðbótar þurfi með sama hætti og við aðrar lagabreytingar víðtæka sátt um málið eða 2/3 hluta atkvæða svo lögum um lottóið verði breytt.

Guðmundur hefur aðrar áhyggjur og þær snúa að því ef mögulega dragi úr tekjum Íslenskrar getspár af einhverjum sökum. „Sagan hefur margsannað að ekkert er eilíft. Það sama á við um tekjurnar úr lottóinu. Að mínu mati þá finnst mér áhætta fólgin í því að gera ráð fyrir að þær verði óbreyttar til framtíðar. Ef þær tekjur dragast saman þá verðum við að vera í stakk búin til að bregðast við. Við verðum enn sterkari saman, eigum meiri möguleika á því að sækja fjármagn til ríkis og sveitarfélaga og getum nýtt fjármagnið betur sem veitt er til skipulags íþrótta- og æskulýðsstarfs en nú. Saman getum við alltaf fundið leiðir til að halda áfram og að bæta starfið,“ segir Guðmundur og bendir á að búið sé að tryggja fleiri þætti. Þar á meðal geri tillögur vinnuhópsins ráð fyrir því að fulltrúafjöldi á þingi sé breyttur á þann veg að stórir sambandsaðilar fái mest tíu þingfulltrúa. Með þeim hætti sé tryggt að rödd minni sambandsaðila fái hljómgrunn.

 

 

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa sem var að koma út. Blaðið er að lesa í heild sinni hér.