31. desember 2020

UMSK styður aðildarfélög um 10 milljónir króna

„Mörg aðildarfélög okkar glíma við erfiðar aðstæður. Ungmennasamband Kjalarnesþings er ákaflega vel rekið. Okkur langaði því að styðja við félögin og greiða þeim sérstaka aukaúthlutun,‟ segir Valdimar Leó Friðriksson, formaður Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK).

Stjórn UMSK ákvað á fundi sínum á þriðjudag að greiða 10 milljónir króna til aðildarfélaga af rekstrarafgangi síðustu ára. Ekki var eftir neinu að bíða og lagði gjaldkeri UMSK inn á reikninga aðildarfélaga í gær. Úthlutunin er einstök í sögu UMSK.

 

 

Aðildarfélög UMSK eru um 40 íþrótta- og ungmennafélög á höfuðborgarsvæðinu. Á meðal félaganna eru Afturelding í Mosfellsbæ, Stjarnan í Garðabæ, íþróttafélögin þrjú stóru í Kópavogi; Breiðablik, HK og Gerpla, Grótta á Seltjarnarnesi og mörg fleiri.

Við útgreiðslu fjárins var stuðst við reglur um lottóúthlutun UMSK. Þar er miðað við að félög með barna- og unglingastarf og öflugt starf 18 ára og yngri fái hæstu upphæðirnar.

Valdimar segir stjórn UMSK hafa verið sammála um að snúa bökum saman og styðja aðildarfélögin með þessum hætti.

„Staða aðildarfélaganna er mjög misjöfn. En áhrif kórónuveirufaldarusins hefur reynst mörgum íþróttafélögum erfið og þeim munar um allt,‟ segir hann.

 

 

Á myndinni hér að ofan má sjá Valdimar ásamt Hauki Valtýssyni, formanni UMFÍ (til vinstri), þegar UMSK hlaut Hvatningarverðlaun UMFÍ árið 2019.