13. apríl 2018

Undrast að ekki eru lýðháskólar á Íslandi


Lisbeth Trinskjær er skólastjóri lýðháskóla í Danmörku. Hún var stödd hér á landi í haust ásamt fleiri lýðháskólafrömuðum af Norðurlöndunum. 
Lisbeth Trinskjær undrast að ekki skuli vera fyrir löngu búið að setja lýðháskóla á laggirnar hér á landi.

„Ég er alveg undrandi á því að lýðháskólar skuli ekki vera til á Íslandi. Þeir auka víðsýni nemenda, skapandi hugsun, fá ungmenni til að hugsa svolítið öðruvísi og taka áhættu auk þess að draga úr brottfalli úr skólum,“ segir Lisbeth Trinskjær, formaður samtaka lýðháskóla í Danmörku.
Hún var fram á haust líka formaður stjórnar samtaka lýðháskóla á Norðurlöndunum. Trinskjær er skólastjóri lýðháskólans Ubberup Højskole í Danmörku. Hún fundaði hér á landi í haust ásamt fleirum úr stjórn norrænu samtakanna nú á haustmánuðum.

Trinskjær og fleiri í stjórninni undruðust að hér skuli ekki vera eiginlegir lýðháskólar. Slíkir skólar auðgi samfélagið. Án lýðháskóla sé menntavegurinn ansi einsleitur og fátt um möguleika fyrir ungt fólk í námi. Bæta lýðháskólar í raun og veru einhverju við? 

„Jú, þegar fólk fer í lýðháskóla þá kynnist það fleiru en ef það gengi hefðbundnari menntaveg. Í lýðháskólunum fá nemendur að kynnast mörgu sem þeir vissu ekki um áður og fá ekki að kynnast í öðrum skólum. Margir sem fara í lýðháskóla segja að víðsýni þeirra hafi aukist. En svo er það fleira. Í venjulegu námi er einblínt á frammistöðu nemenda og því þora þeir ekki að taka áhættu í námi sínu. Lýðháskólar gera út á forvitni nemenda og því má taka áhættu þar. Þar uppgötva nemendur nýjar hliðar á sjálfum sér, kannski nýtt áhugasvið og læra jafnvel nýtt tungumál. 
Það sem skiptir ekki síður máli er að í lýðháskóla læra nemendur að þekkja rætur sínar, samfélagið, hefðir og menningu. Nemendur fá því meiri þekkingu á allan hátt í lýðháskóla. Þess vegna skiptir máli fyrir Íslendinga að hafa lýðháskóla.“

Minna brottfall úr skóla

Fjöldi lýðháskóla er á hinum Norðurlöndunum og hafa margir Íslendingar farið utan til náms, bæði með og án stuðnings UMFÍ. Trinskjær segir suma setja lýðháskóla skör neðan en aðra framhaldsskóla. Það sé ekki rétt. 

„Margir halda að nám í lýðháskóla sé ekki eins gott, ekki jafn  metnaðarfullt eða krefjandi og í öðrum skólum, jafnvel laust í reipunum. Ég er algjörlega ósammála því. Nám í lýðháskóla er mjög framsækið. Munurinn felst í því að nám í lýðháskólum íþyngir ekki nemendum og krefur þá stöðugt um að sýna frammistöðu sína og fá góðar einkunnir. Skari fram úr á einhvern hátt. Það eru einmitt áhættuþættirnir í skólakerfinu, kröfurnar auka líkur á þunglyndi ungs fólks, kvíða og brottfalli úr námi. Í lýðháskólum fá nemendur krefjandi verkefni sem reynir á þá. En þeir þurfa ekki að verða bestir. Þar fá þeir þrautseigjuna, verða hugaðri og vilja prófa eitthvað nýtt. Íslendingar eru á réttri leið með því að setja lýðháskóla á laggirnar. Þeir eru eitt af þessum verkfærum sem þið  þurfið til að bæta samfélagið,“ segir Lisbeth Trinskjær og bætir við að gögn sem hún hafi séð bendi til að nemendur sem falla úr skóla en koma sér aftur af stað í lýðháskóla fari í frekara nám en aðrir sem ekki fóru í lýðháskólann. 

Lýðháskólar vökva plöntuna

Lisbeth Trinskjær ítrekar að hún undrist að ekki skuli vera fyrir lifandi löngu búið að opna lýðháskóla hér á landi. Hún segir þá staðreynd að hér á landi er ekki lýðháskóli eins og á hinum Norðurlöndunum hugsanlega tengjast því að árangur af starfi lýðháskóla láti bíða eftir sér. 

Stjórnmálamenn hafi lítinn hvata til að stofna slíka skóla þar sem þeir eru ekki fyrir af þeirri einföldu ástæðu að árangurinn lætur bíða eftir sér.

„Stjórnmálamenn vilja sjá árangur á tiltölulega stuttum tíma,“ segir Lisbeth. „Íslendingar ættu að hafa lýðháskóla. Þeir auka fjölbreytni í námi. En svo er þetta eins og með plönturnar. Ef þú vökvar ekki blómin stækka þau ekki heldur visna og deyja. Það sama á við ungt fólk sem vill læra annað en er boðið í framhaldsskólum nú. Ef ungu fólki er ekki leyft að vaxa og dafna leiðir það til vandamála,“ segir hún og færir þannig rök að því að lýðháskólar bæti samfélagið.

 

Ráðstefna um lýðháskóla

Lisbeth Trinskjær er væntanleg hingað til lands en hún verður á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni Hvernig á að búa tl skóla úr engu? Þar verða lýðháskólar skoðaðir frá mörgum hliðum. MFÍ er meðal þeirra sem standa að ráðstefnu um lýðháskóla á Íslandi. Hinir eru LungA skólinn og Lýðháskólinn á Flateyri.

Ráðstefnan verður í Norræna húsinu 23. apríl næstkomandi.

Á meðal annarra mun Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, meðal annars ræða um áform UMFÍ að stofna lýðháskóla á Laugarvatni. 

 

Meira um ráðstefnuna

Viðtalið við Lisbeth Trinskjær birtist í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Blaðið er hægt að nálgast í heild sinni hér.