09. júní 2020

Unglingalandsmót UMFÍ verður á Selfossi

„Við erum afar ánægð að geta haldið Unglingalandsmót UMFÍ um verslunarmannahelgina innan þess ramma sem sóttvarnalæknir og heilbrigðisyfirvöld setja okkur. Farið verður eftir öllum tilmælum yfirvalda um sóttvarnir og gætt að ýtrustu vörnum. Fyrir öllu er að yngri kynslóðin getur skemmt sér á heilbrigðan hátt í íþróttum og afþreyingu með foreldrum sínum og vinum á Selfossi um verslunarmannahelgina,“ segir Þórir Haraldsson, formaður Unglingalandsmótsnefndar.

Hann er fyrir miðju á myndinni hér að neðan. Á hans hægri hönd er Guðrún Tryggvadóttir, kona hans, en á þá vinstri Guðmundur Jónasson.  

 

 

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi dagana 31. júlí – 2. ágúst í samstarfi Héraðssambandsins Skarphéðins og Sveitarfélagins Árborgar. Mótið hefur verið haldið frá árinu 1992 og hefur sannað gildi sitt sem glæsileg vímuefnalaus fjölskyldu- og íþróttahátíð þar sem saman kemur fjöldi barna og ungmenna með fjölskyldum sínum.

Þórir segir dagskrá og skipulag mótsins hafa legið fyrir þegar kórónufaraldurinn skall á heimsbyggðinni en þá var allt sett á ís. Nú þegar liggi fyrir að UMFÍ geti haldið mótið með HSK og sveitarfélaginu sé allt sett í gang á ný. Gætt verður að hreinlæti á öllu mótssvæðinu, upplýsingar um COVID hafðar aðgengilegar og mótsgestir minntir á þær. Þá verður tjaldsvæði mótsgesta skipulagt með þeim hætti að reglum verði fylgt.

 

Íþróttir og frábær skemmtun

Mótið er fyrir 11-18 ára börn og ungmenni sem reyna fyrir sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Að þessu sinni verður boðið upp á 22 greinar á Unglingalandsmótinu á Selfossi frá morgni til kvölds. Boðið verður upp á fjölbreytta skemmtun fyrir alla fjölskylduna, leikjatorg og fleiri viðburði. Á meðal greinanna eru hlaupaskotfimi (biathlon), bogfimi, fimleikar, frisbígolf, frjálsar íþróttir, götuhjólreiðar, kökuskreytingar og knattspyrna auk rafíþrótta.

Öll kvöldin verða tónleikar í samkomutjaldi. Búast má við miklu húllumhæi. Á Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði í fyrra stigu stærstu stjörnurnar tónlistarinnar á svið í samkomutjaldi UMFÍ. Þar á meðal GDRN, Daði Freyr, Bríet, Salka Sól og Una Stef ásamt fleirum. Síðar verður upplýst hvaða tónlistarfólk kemur fram á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina.

 

Á vefsíðu Unglingalandsmóts UMFÍ má sjá alla greinar mótsins og ítarlegri upplýsingar: www.ulm.is