09. mars 2018

Ungmennafélag Kjalnesinga stofnaði leiklistarfélag fyrir ungmenni

Ungmennafélag Kjalnesinga (UMFK) fékk fimmtíu þúsund króna styrk úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ vegna stofnunar leiklistardeildar innan félagsins. Hægt er að sækja um styrki í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ til 1. apríl.

Ungmennafélög á Íslandi hafa sinnt margvíslegum verkefnum í gegnum tíðina. Ungmennafélag Kjalnesinga (UMFK) heldur úti víðtæku félagsstarfi á svæði sínu, að stórum hluta í samstarfi við Klébergsskóla. Það sinnir skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi barna og ungmenna, heldur íþróttamót, þorrablót og sér um páska- og jólabingó og skötuveislu ásamt mörgu fleiru.

Í nóvember 2017 fékk Ungmennafélag Kjalnesinga 50.000 króna styrk úr fræðslu- og verkefnasjóði vegna stofnunar leiklistardeildar. Björgvin Þór Þorsteinsson, formaður UMFK, segir mikið líf í félaginu og að angar þess teygist víða.

Leiklistardeildina segir hann bundna við grunnskólann og sé horft til þess að leiklist verði valgrein í skólanum.

„Við þurfum að halda unglingunum í einhverju og því varð leiklist fyrir valinu fyrir 14–15 ára. Þetta er á byrjunarreit en hefur gengið vonum framar. Þau kepptu í Skrekki og svo höldum við áfram.“

 

Ekki gleyma að sækja um í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ.

Nánar um Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ