24. júlí 2021

Ungmenni voru búin að leggja mikið í hönnun búninga

„Það var ekki mikil gleði á heimilinu með fréttirnar í gær. Það var mikil stemning fyrir Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi og margir búnir að græja búningana,‟ segir Hrönn Erlingsdóttir, móðir 15 ára tvíbura sem ætluðu að taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ, sem fara átti fram á Selfossi um verslunarmannahelgina.

 

 

Strákarnir hennar æfa körfubolta og frjálsar en hafa alltaf tekið þátt í fleiri greinum, svo sem fótbolta. Þar hefur vinahópurinn lagt mikið upp úr nafni liðsins og hönnun búninga. Á Unglingalandsmóti UMFÍ í Þorlákshöfn árið 2018 hét liðið Krúttlegu krullurnar hans Kalla og á Höfn í Hornafirði árið 2019 hét það Mamma þín. Þegar stefnt var að Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi í fyrra ætlaði hópurinn að spila saman undir nafninu Mambas. Mótinu var frestað þá og var farið í að hanna nýja búninga fyrir mótið í ár.

„Þeir urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar mótinu var frestað í fyrra enda var búið að hanna flotta búninga með lógói og styrktaraðilum,‟ segir Hrönn.

 

Nýjar takmarkanir setja strik í reikninginn

Ríkisstjórnin kynnti í gær takmarkanir á samkomum vegna COVID-19 sem eiga að taka gildi á morgun, sunnudaginn 25. júli og gilda til 13. ágúst. Mikilvægt er talið að grípa eins fljótt og auðið er til takmarkana innanlands til að koma böndum á aukna útbreiðslu smita.

 

 

Samkomutakmarkanir kveða á um að aðeins mega 200 manns koma saman í hverju sóttvarnarhólfi, 1 metra nálægðarregla er tekin upp að nýju ásamt grímuskyldu og takmörkun á fjölda á íþróttaæfingum og keppnum barna og fullorðinna.

Framkvæmdanefnd Unglingalandsmóts UMFÍ ákvað í kjölfarið að fresta mótinu, sem fyrirhugað var um verslunarmannahelgina. Þetta var annað skiptið á tveimur árum sem mótinu á Selfossi er frestað.

 

Nýir búningar voru að koma

Hrönn segir svekkelsið nú mikið.

„Þeir stefndu á að mæta í ár þótt þeir gætu ekki keppt sem eitt lið eins og áður því þeir eru orðnir árinu eldri. Nýir búningar voru komnir með nýjum merkingum. Þeir eru flottir. En nú er ekki mikil gleði á heimilinu. Við verðum að reyna að gera eitthvað annað í staðinn,‟ segir Hrönn Erlingsdóttir.

Í fréttinni eru nokkrar myndir af drengjunum. Í Þorlákshöfn 2018 var liðið í bleikum körfuboltabúning og svörtum fötum/bleikum sokkum í fótboltanum og gulum bol í knattspyrnu á Höfn í Hornafirði árið 2019.

Hér að neðan má svo sjá ýmsa skemmtilega búninga frá Unglingalandsmótum UMFÍ.