09. október 2020

Ungt fólk getur haft áhrif hvar og hvenær sem er

Lilja Alfreðsdóttir: Ungt fólk á ekki að hika við að segja hvað því finnst.

Ungt fólk getur haft áhrif hvar og hvenær sem er með því að láta rödd sína heyrast! Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði var haldin í Hörpu í Reykjavík 17. september.

Með virkri þátttöku í ráðum og nefndum innan skóla og félagasamtaka fær ungt fólk tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Ungt fólk hvetur stjórnendur og ráðamenn til að bjóða ungmennum oftar að ákvarðanaborðinu eða leita eftir skoðunum þeirra. Ungt fólk kallar jafnframt eftir aukinni þjálfun og reynslu í lýðræðisákvörðunum, aukna þjálfun í að mynda sér skoðun með rökstuðningi og fræðslu um hvernig stjórnkerfið virkar, ferli ákvarðana allt frá hugmynd að samþykktri ákvörðun hvort heldur sem er innan ýmissa ráða, nefnda og Alþingis. Öll málefni eru málefni ungs fólks. Við ungt fólk erum ekki einungis framtíðin heldur erum við til staðar hér og nú.

Þetta er meðal efnis sem kom fram á ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem fram fór 17. september í tónlistar- og viðburðahúsinu Hörpu. Yfirskrift ráðstefnunnar var Lýðræðisleg áhrif. Hvar, hvernær og hvernig getur ungt fólk haft áhrif? Á viðburðinn mættu rúmlega 100 þátttakendur. Ungmenni á aldrinum 15 ára og eldri víðs vegar af landinu voru í miklum meirihluta. En sömuleiðis hafa aldrei fleiri ráðamenn og stjórnendur frá fyrirtækjum og öðrum félagasamtökum mætt á ráðstefnuna.

Á meðal þeirra ráðamanna sem tóku virkan þátt í ráðstefnunni voru Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fjöldi þingmanna.  

Þátttakendum fannst viðburðurinn afar fræðandi og gagnlegur. Um 95% þátttakenda sögðu að þeir hafi lært eitthvað nýtt. Nær allir þátttakendur (97%) hvetja Ungmennaráð UMFÍ til þess að standa áfram fyrir sambærilegum viðburðum.

Ungmennaráð UMFÍ er skipað tíu ungmennum á aldrinum 17 – 22 ára víðs vegar af landinu. Það hafði veg og vanda að öllum undirbúningi og framkvæmd ungmennaráðstefnunnar með stuðningi frá starfsfólki UMFÍ.

Á ráðstefnunni sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ungt fólk upp til hópa búa yfir því sjálfstrausti sem þarf til þess að vilja móta eigin líf og er óhrætt við það.

Undir það tekur Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra: „Ungt fólk á ekki að hika við það að segja hvað því finnst skipta máli, því ungt fólk er það fólk sem myndar framtíðina.“

Í meðfylgjandi myndbandi er að finna skilaboð og hvatningarorð frá þátttakendum ráðstefnunnar.  

 

Hér er að sjá nokkrar myndir frá ráðstefnunni. Fleiri myndir er að finna hér