14. mars 2019

Velferðarráðherra styrkir UMFÍ til að halda áfram með verkefnið Vertu með!

UMFÍ hlaut á dögunum 1,2 milljóna króna styrk velferðarráðherra í tengslum við verkefnið Vertu með! Verkefnið er liður í því að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Vertu með er samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ og á vegum þess kom út bæklingur í september í fyrra með upplýsingum á nokkrum erlendum tungumálum sem hugsaðir voru til þess að upplýsa foreldra barna af erlendum uppruna um frístundastyrki og fleira sem börnum stendur til boða.

Í kjölfarið hlutu fimm félög styrk til að fara af stað með verkefni sem hvetja eiga börn og ungmenni til aukinnar þátttöku í íþróttum.

Styrkurinn sem ráðherra veitti mun nýtast til að búa til rafræna verkfærakistu með upplýsingum og kennsluefni fyrir starfsfólk og þjálfara innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar. Sem dæmi um það sem verður í verkfærakistunni eru ráð og tól sem starfsfólk íþróttafélaga og þjálfarar geta nýtt sér þegar tekið er á móti barni eða ungmenni af erlendum uppruna og ráðleggingar til að byggja brýr á milli ólíkra menningarheima.

 

Mikið grasrótarstarf

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, veitti styrkinn af safnliðum fjárlaga. Á sama tíma hlutu 37 önnur félagasamtök styrki til 47 verkefna. Heildarupphæð styrkja nam 190 milljónum króna. Þetta eru árlegir styrkir. Nú var áherslan á verkefni sem lúta að málefnum barna og snemmtækri íhlutun. Þá voru veittir styrkir til verkefna á sviði málefna fatlaðs fólks, eldri borgara, fátæktar, geðheilsu, félagslegrar virkni og fleira.

Ásmundur sagði framlag almannaheillasamtaka til heildstæðrar velferðarþjónustu mjög dýrmætt. „Við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því, fyrr en á þarf að halda, hvað frjáls félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og hvað þar er unnið mikið grasrótarstarf.“

Ragnheiður Sigurðardóttir landsfulltrúi UMFÍ, tók við styrknum fyrir hönd UMFÍ.

 

Vefsíða Vertu með!

Sjá: Fimm félög hlutu styrk til að fjölga börnum erlendra foreldra í íþróttum

Listi yfir þá sem hlutu styrk velferðarráðherra

 

Dæmi um bæklingana sem komu út í fyrra