05. júní 2021

Víkingasveitinni veittar viðurkenningar í Hveragerði

Víkingasveitinni voru veittar viðurkenningar í Hveragerði í gær rétt áður en ræst var í 160 km hlaupi um Hengilinn. Víkingasveitin samanstendur af þátttakendum í öllum fjórum keppnum í Víkingamótaröðinni á síðasta ári.

Hlaupið er hluti af Víkingamóta röðinni en henni tilheyra líka KIA Gullhringurinn á Suðurlandi, Eldslóðin utanvegahlaup og Landsnet MTB fjallahjólakeppni sem báðar fara fram í Heiðmörkinni við borgarmörki

Hver og ein keppni er sjálfstæð en saman mynda þær Víkingamótaröðina.

Einar Bárðarson, forsprakki mótaraðarinnar, sagði við afhendingu viðurkenninganna í Hveragerði í gær, að hann hafi leitað til UMFÍ eftir samstarfi um Víkingamótaröðina og verið vel tekið. Hann benti á að þátttakendur í mótaröðinni eigi margt sameiginlegt, þá séu flestir keppendur á milli fertugs og sextugs og njóti þess mjög að hreyfa sig.

Auk þessa er heilmikið samstarf á milli mótahaldara og ungmennafélaga á hverju svæði. Tugir karla og kvenna frá Ungmennafélaginu Hamri í Hveragerði vinna að Salomon Hengill Ultra um helgina og gera það víðar, svo sem Stjörnufólk í Garðabæ í tengslum við Eldslóðina. Þegar KIA Gullhringurinn fer fram á Selfossi í júlí er samstarf við Umf Selfoss. 

Ellefu þátttakendur mótanna mynda Víkingasveitina og mættu þeir nær allir til að taka þátt í Salomon Hengill Ultra hlaupinu í Hveragerði um helgina.

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, afhenti viðurkenningarnar í hádeginu í blíðviðrinu í Hveragerði nokkru áður en ræst var í fyrsta hlaupið, 160 km hlaup um Hengilsvæðið. Síðan stillti Víkingasveitin sér upp með aðstandendum hlaupsins og Auði Ingu.