14. september 2017

Vilja fá fleiri til að halda reiðnámskeið fyrir fötluð börn

Stjórn Hestamannafélagsins Harðar leitar eftir samstarfi við hestamannafélög á höfuðborgarsvæðinu um að halda reiðnámskeið fyrir fötluð börn. Ástæðan er sú að námskeiðahald Harðar er fyrir löngu sprungið.

„Það er gríðarleg eftirspurn eftir námskeiðum fyrir fötluð börn hjá okkur. Námskeiðahaldið er svo vel sótt að það er algjörlega sprungið,“ segir Hákon Hákonarson, formaður Hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ. Félagið hefur síðastliðin sjö ár haldið reiðnámskeið fyrir börn og ungmenni með fötlun en það er fyrsta félagið til að bjóða upp á slíkt.

Í upphafi voru 4-5 nemendur á nokkrum námskeiðum sem haldin voru að jafnaði einu sinni í viku. Töluverð ásókn hefur verið í reiðnámskeið frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Selfossi og námskeiðin orðin átta á viku. Hákon segir það alltof mikið. Félagið geti í besta falli sinnt aðeins þremur námskeiðum á viku.

„Nú er þetta komið á það stig að við þurfum að geta aukið framboðið og fá hestamannafélögin á höfuðborgarsvæðinu í lið með okkur,“ segir hann og ítrekar að ekki sé hægt að auglýsa námskeiðin þar sem þau séu þegar uppseld, enda gríðarlega vinsæl.

 

Vilja fá fleiri í verkefnið

Stjórn Hestamannafélagsins Harðar leitar vegna þessa eftir samstarfi við önnur hestamannafélög á höfuðborgarsvæðinu um reiðnámskeið fyrir fötluð börn og ungmenni sem fyrst.

Hugmyndin er að stofna sérstakt félag í áföngum utan um reksturinn í félagi við fleiri hestamannafélög, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, félagasamtök á borð við Öryrkjabandalag Íslands, Íþróttasamband fatlaða, Einhverfusamtökin og fleiri.

Forsvarsmenn hestamannafélaga á höfuðborgarsvæðinu hittust í Harðarbóli, húsi Hestamannafélagsins Harðar, á mánudag. Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, var boðið á fundinn enda hefur hann sýnt verkefninu mikinn áhuga.

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, var sömuleiðis á fundinn en reiðhöll Hestamannafélagsins Harðar var reist í ráðherratíð Guðna og var áherslan þá sérstaklega á stuðning við fötluð börn.

Hestamannafélagið Hörður er aðildarfélag UMSK (Ungmennasambands Kjalarnesþings), sambandsaðila UMFÍ.

Hér má sjá myndir frá fundinum á mánudag.