09. nóvember 2017

Vináttuverkefni Barnaheilla hlaut Hvatningarverðlaun Dags gegn einelti

 

Vináttuverkefni Barnaheilla hlaut hvatningarverðlaun Dags gegn eineltis 2017. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti verðlaunin á sérstakri hátíðardagskrá í tilefni dagsins í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í gær. Kolbrún Baldursdóttir, formaður Barnaheilla, og Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, tóku við verðlaununum. 

Vináttuverkefni Barnaheilla er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir leikskóla og fyrstu bekki grunnskóla. Í dag eru um 100 leikskólar þátttakendur í verkefninu.

UMFÍ hefur verið aðili að Þjóðarsáttmála gegn einelti síðan árið 2011 og hefur haldinn daginn, 8. nóvember, í heiðri síðan þá. 

Í Þjóðarsáttmálanum segir: 

„Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og einnig allra hópa sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd. Við munum öll hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til þess að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er.“

 

Nánari á vefsíðunni www.gegneinelti.is