Göngubók
Göngubók UMFÍ er afrakstur vinnu umhverfisnefndar UMFÍ sem vildi í samræmi við stefnu Ungmennafélags Íslands auka þekkingu fólks á landinu og kynna fólk fyrir umhverfinu svo það fari betur með náttúruna og læri að umgangast hana. Með styrk frá Heilbrigðisráðuneytinu var ákveðið að fara af stað með átak til þess að fá landsmenn í gönguferðir um landið með aðgengilegum og stikuðum gönguleiðum.
Fyrsta göngubókin kom út sumarið 2002 og innihélt hún 144 stuttar gönguleiðir víða um land. Nýjasta eintak Göngubókar UMFÍ inniheldur lýsingar á 282 stuttum gönguleiðum fyrir alla fjölskylduna ásamt 10 gönguleiðum á fjöll. Það er liður í gönguverkefni UMFÍ sem heitir Fjölskyldan á fjallið og hefur verið í gangi jafn lengi og Göngubókin.
Göngubókinni er ætlað að hvetja fólk til útiveru og hreyfingar og vekja athygli á gönguleiðum ásamt því að hvetja til samveru fjölskyldunnar.
Tilviðbótar hefur UMFÍ staðið fyrir gönguverkefninu Fjölskyldan á fjallið. Verkefnið fer þannig fram að sambandsaðilar UMFÍ tilnefna fjöll í verkefnið ár hvert og sjá sjálfir um að auglýsa göngur á þau. Kössum er komið fyrir á tindum fjallanna með gestabókum sem þátttakendur eru hvattir til að skrifa í. Fjöll sem eru í verkefninu hverju sinni eru tilgreind í göngubókinni - Göngum um Ísland.