Námskeið

Hér er að finna upplýsingar um mismunandi námskeið sem Sambandsaðilum UMFÍ stendur til boða. Ef þú hefur áhuga þá er um að gera að senda fyrirspurn á netfangið umfi@umfi.is

 

Upplýsingar um ýmis námskeið

Sýndu hvað í þér býr

Sambandsaðilum UMFÍ stendur til boða félagsmálanámskeiðið Sýndu hvað í þér býr. Á námskeiðinu er farið yfir ýmsa þætti er tengjast ræðumennsku, s.s. að taka til máls, framkomu, ræðuflutning, raddbeitingu, skipan ræðu o.fl. 

Einnig er farið yfir ýmislegt sem viðkemur fundasköpum, m.a. fundareglur, boðun funda, fundaskipan, dagskrá funda, umræður, meðferð tillagna, kosningar o.fl. Þátttakendur vinna jafnframt einföld verkefni og fara í leiki til þess að brjóta upp námskeiðið.

Ef þitt félaga hefur áhuga á að bjóða sínum félagsmönnum upp á námskeið þá er um að gera að smella línu á Sabínu á netfangið sabina@umfi.is

Verndum þau

Það er mikilvægt fyrir alla þá sem starfa með börnum og unglingum að vera meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð, geta lesið í vísbendingar um að vanræksla eða ofbeldi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt, eigi sér stað og vita hvernig bregðast á við ef slík mál skjóta upp kollinum.

Í bókinni Verndum þau er fjallað um alla þessa þætti á aðgengilegan hátt og lesendur eru upplýstir um eðli og birtingarmyndir ofbeldis og vanrækslu, auk þess sem gerð er grein fyrir ferli mála af þessu tagi hjá barnaverndaryfirvöldum og innan dómskerfisins.

Bókin var endurútgefin í júní 2013 þar sem nokkrar veigamiklar breytingar hafa orðið á réttindum barna. Kynferðislegur lögaldur hefur verið hækkaður upp í 15 ár. Úrbætur hafa verið gerðar á barnaverndarlögum og almennum hegningarlögum ásamt öðrum úrbótum þar sem hagsmunir barna eru hafðir að leiðarljósi.

Æskulýðsvettvangurinn (ÆV) hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinu Verndum þau. Námskeiðið er byggt á efni bókarinnar Verndum þau og fjallar um hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og unglingum. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem starfa með börnum og ungmennum og öðrum sem áhuga hafa. Æskulýðsvettvangurinn gerir kröfu um að allir starfsmenn og sjálfboðaliðar innan aðildarfélaga ÆV sæki námskeiðið og geta félögin fengið námskeiðið sér að kostnaðarlausu.

Höfundar bókarinnar, Ólöf Ásta Farestveit uppeldis- og afbrotafræðingur og Þorbjörg Sveinsdóttir M.Sc. í sálfræði, sjá um kennslu á námskeiðinu. Báðar starfa þær í Barnahúsi og hafa mikla reynslu af barnaverndarmálum.

Á námskeiðinu er m.a farið yfir:

• Tilkynningaskyldu starfsmanna sem vinna með börnum og unglingum.

• Líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi og vanrækslu hvers konar.

• Hvernig taka skuli á móti ofbeldisfrásögn.

• Reglur í samskiptum við börn og ungmenni.

• Ýmis atriði sem gott er fyrir vinnuveitendur að hafa í huga.

• Úrræði sem í boði eru í samfélaginu fyrir börn og unglinga sem eru þolendur ofbeldis.

Hafðu samband við Ragnheiði fyrir nánari upplýsingar. Netfang ragnheidur@umfi.is

Einelti og önnur óæskileg hegðun

Einelti er ekki liðið innan þeirra félaga sem saman mynda Æskulýðsvettvanginn. Það er mjög mikilvægt að öllum líði vel í leik og starfi innan Æskulýðsvettvangsins og að sá grundvallarréttur, að fá að vera óáreittur, sé virtur. Því er mikilvægt að bregðast strax við málum sem koma upp í starfinu og leita allra leiða til þess að leysa úr þeim hratt og vel.

Sambandsaðilum UMFÍ stendur til boða að fá til sín námskeið um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála sem og námskeið um hatursorðræðu á netinu. 

Hafðu samband við Ragnheiði fyrir nánari upplýsingar. Netfang ragnheidur@umfi.is

Kompás

Æskulýðsvettvangurinn býður reglulega upp á námskeið í notkun á Kompás. Kompás er handbók í mannréttindafræðslu ætluð þeim sem starfa í skólum eða með börnum og ungmennum á vettvangi félags-, æskulýðs- og tómstundastarfs. Bókin nýtist bæði fagfólki, forystufólki í félagsstarfi og sjálfboðaliðum.

Í bókinni er að finna hugmyndir og verkefni sem byggð eru upp á leikjum og leikjafræði. Bókin tryggir þannig að efnið sé áhugavert og skemmtilegt og veki þátttakendur til umhugsunar um mannréttindi og mismunandi aðstæður fólks.

Kompás hefur verið þýdd yfir á íslensku en hún kom fyrst út hjá Evrópuráðinu árið 2002.

Vefur Kompás: http://vefir.nams.is/kompas/

 

Litli-kompás er handbók um mannréttindamenntun fyrir börn sem nýtist öllum þeim sem vinna með börnum. Í handbókinni er fjallað um lykilhugtök á sviði mannréttinda og réttinda barna. Kjarni bókarinnar er 40 fjölbreytt verkefni sem byggjast á virkum kennsluaðferðum og er ætlað að hvetja og örva áhuga og vitund barna um mannréttindi í eigin umhverfi.

Verkefnin eiga ennfremur að þroska gagnrýna hugsun, ábyrgð og réttlætiskennd og stuðla að því að börn læri að grípa til aðgerða og leggja sitt af mörkum til hagsbóta fyrir skólann sinn og samfélagið. Auk þess er í bókinni fræðileg umfjöllun um þrettán lykilatriði mannréttinda, svo sem lýðræði, borgarvitund, kynjajafnrétti, umhverfismál, fjölmiðla og ofbeldi. Handbókin er einnig gefin út í stafrænni útgáfu.

Vefur Litla-Kompás: http://vefir.nams.is/litli_kompas/

Hafðu samband við Ragnheiði fyrir nánari upplýsingar. Netfang ragnheidur@umfi.is