Samstarfsverkefni

Hér er að finna upplýsingar um samstarfsverkefni UMFÍ. 

Samstarfsverkefni

Ánægjuvogin 2016

Ánægjuvogin er könnun, framkvæmd af Rannsókn og greiningu meðal ungmenna sem stunda íþróttir innan UMFÍ og ÍSÍ. 

Vinsamlegast hafið samband við þjónustumiðstöð UMFÍ fyrir nánari upplýsingar. 

Æskulýðsvettvangurinn

Ungmennafélag Íslands er eitt aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins (ÆV). Önnur aðildarfélög eru Bandalag íslenskra skátaKFUM og KFUK á og Slysavarnafélagið Landsbjörg.

Fjölmörg verkefni og tækifæri koma í gegnum ÆV sem standa öllum sambandsaðilum UMFÍ til boða. Má þar nefna siðareglur um samskipti fyrir starfsmenn og sjálfboðaliða sem vinna með börnum og ungmennum og siðareglur um rekstur og ábyrgð fyrir þá sem sitja í stjórnum og bera ábyrgð í félögum. Aðgerðaáætlun gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun, eineltisveggspjald og fræðsluerindi um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála. Námskeiðið Verndum þau sem fjallar um hvernig bregðast eigi við grun um ofbeldi og vanræsklu gegn börnum og ungmennum. Námskeið í notkun á handbókunum Kompási og Litla Kompási og starfsreglur um meðferð kynferðisbrota.

Að auki eru tvö ráð á vegum ÆV sem öllum sambandsaðilum UMFÍ er velkomið að leita til. Annars vegar er það fagráð sem hefur það hlutverk að vinna með og leysa mál er tengjast kynferðisbrotum sem framin hafa verið í starfi aðildarfélaga ÆV. Hins vegar er ráðgjafahópur í meðferð eineltismála sem hefur það hlutverk að koma að þrálátum og erfiðum eineltismálum til stuðnings við starfsmenn og foreldra/forráðamenn. 

Felix - félagakerfi UMFÍ og ÍSÍ

Felix er miðlægt tölvukerfi UMFÍ og ÍSÍ og heldur utan um íþróttaiðkendur á Íslandi. Hlutverk Felix er fyrst og fremst að halda utan um skráningar og íþróttaþátttöku landsmanna. Með einum samræmdum grunni geta allir aðilar sem koma að íþróttaiðkun í landinu nálgast sömu gögn sem tryggir að allir hafa réttar upplýsingar í höndunum. Kerfið fá sambandsaðilar til notkunar endurgjaldslaust og nýtist það til að halda utan um daglega skráningu þátttakenda í íþróttastarfinu. Þjóðskrá kerfisins er uppfærð mánaðarlega sem auðveldar til muna allt utanumhald. Þá er hægt að halda utan um netföng einstaklinga og senda tölvupóst beint úr kerfinu. Þannig er t.d. hægt að gefa þjálfurum aðgang til að skrá og uppfæra iðkendur sína og allar breytingar sem gerast miðlægt sem tryggir að alltaf er verið að horfa á réttar upplýsingar. 

Forvarnadagur Forseta Íslands

Forvarnadagurinn er haldinn hátíðlega í október mánuði ár hvert. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og ungmennum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. Forvarnadagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Bandalags íslenskra skáta, Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykavík. Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni, sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum.