Kosningar

Eitt af verkefnum Sambandsþings UMFÍ er að kjósa formann UMFÍ. Sex fulltrúa í aðalstjórn UMFÍ og fjóra fulltrúa í varastjórn UMFÍ. 

Tilkynning um framboð til stjórnar eða varastjórnar UMFÍ skal lögum samkvæmt berast skriflega til kjörstjórnar eigi síðar en tíu dögum fyrir þing. Einstaklingur sem býður sig fram til formanns getur jafnframt boðið sig fram til aðalstjórnar og/eða varastjórnar á þinginu kjósi hann svo. Sama á við um einstakling sem býður sig fram til aðalstjórnar og getur hann þá á þinginu boðið sig fram til varastjórnar.

Við kosningu í stjórn UMFÍ skal leitast við að í kjöri séu fulltrúar frá hverju kjördæmi. Náist það markmið ekki eftir að framboðsfrestur rennur út, er kjörnefnd heimilt að framlengja framboðsfrestinn um allt að fimm daga. Heimilt er líka að bera fram tillögu um fleiri einstaklinga en einn úr hverju kjördæmi.

Kjörgengir til stjórnar og varastjórnar UMFÍ eru allir skattskyldir ungmennafélagar.

Tilkynning um framboð rann út á miðnæstti 5. október sl. 

Upplýsingar fyrir kosningar - hvernig kýs ég?

 

Einungis þingfulltrúar á kjörbréfi geta kosið. 

Kosning til aðalstjórnar UMFÍ. SMELLIÐ HÉR Á HLEKKINN. 

Þegar smellt er á hlekkinn opnast innskráningargluggi sem opnar leið að atkvæðaseðli. 

Hægt er að auðkenna sig/skrá sig inn til að greiða atkvæði með íslykli eða rafrænum skilríkjum á farsíma eða tölvu. 

  • Ef þú vilt auðkenna þig með rafrænum skilríkjum þá slærð þú inn GSM símanúmer þitt inn í svæðið „Símanúmer“. Að því loknu smellir þú á hnappinn „Innskrá“, þá koma boð í síma þinn þar sem þú ert beðin um að slá inn “pin” númer þitt. Ef þú ert á kjörskrá þá birtist kjörseðilinn.
  • Ef þú vilt auðkenna þig með Íslykli þá slærð þú inn kennitölu þína inn í svæðið „Kennitala“ og Íslykilinn þinn inn í svæðið „Íslykill“. Að því loknu smellir þú á „Staðfesta“. Ef þú ert á kjörskrá þá birtist kjörseðilinn.

Að innskráningu lokinni birtist skjár með mynd af þeim sem bjóða sig fram. 

Merkið við sex frambjóðendur eða "tek ekki afstöðu"

Ýtið á "kjósa" hnappinn til þess að koma atkvæði þínu til skila. 

Ef þú lendir í vandræðum er starfsfólk UMFÍ til staðar til aðstoðar. 

 

Sama ferli er fyrir kosningu til varastjórnar UMFÍ. 

Kosning til varastjórnar UMFÍ. SMELLIÐ HÉR Á HLEKKINN. 

 

Upplýsinginar um frambjóðendur er að finna hér fyrir neðan.

Formannskjör

Jóhann Steinar Ingimundarson UMSK

Jóhann Steinar hefur setið í stjórn UMFÍ frá árinu 2017. Árin 2017 – 2019 var hann meðstjórnandi stjórnar UMFÍ. Árið 2020 var hann formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ og árið 2021 tók hann sæti varaformanns UMFÍ af Ragnheiði Högnadóttur.

Jóhann Steinar er Stjörnumaður fram í fingurgóma og hefur frá unga aldri unnið innan ungmennafélags-hreyfingarinnar. Í kringum 1990 kom hann að undirbúningi leikja hjá meistaraflokki karla í handknattleik hjá Ungmennafélagi Stjörnunnar í Garðabæ. Hann byrjaði eins og flestir á kústinum, færði sig þaðan yfir á ritaraborðið, í dómgæslu og áfram uns hann varð fulltrúi í meistaraflokksráðum karla og kvenna í handknattleiksdeild félagsins og síðar í meistaraflokksráði karla í knattspyrnu. Jóhann Steinar tók síðan sæti í aðalstjórn Stjörnunnar og hafði þar „marga hatta“. Hann tók við formennsku í aðalstjórn Stjörnunnar af Snorra Olsen á aðalfundi 2011 og gegndi því fram til ársins 2015. Árið 2019 var hann gerður að heiðursfélaga í Stjörnunni.

Jóhann Steinar er fjölskyldumaður, búsettur í Garðabæ. Í frítíma sínum nýtur hann þess að vera með fjölskyldu og vinum og sinna félagsmálum en hann hefur kallað Stjörnuna og ungmennafélagshreyfinguna sína aðra fjölskyldu.

Sturluð staðreynd: Jóhanni leiðist ekki að taka snúning með kústinum hvort sem það er heima fyrir eða í íþróttahúsi!

Frambjóðendur til aðalstjórnar UMFÍ

Gissur Jónsson HSK

Gissur hefur setið í varastjórn UMFÍ frá árinu 2019. Hann hefur alið aldur sinn hjá ungmennafélögum í suðurkjördæmi, er uppalinn á sambandssvæði Ungmennasambandsins Úlfljótur (USÚ) en hefur alið manninn á svæði Héraðssambandsins Skarphéðsins (HSK). Gissur er starfandi framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Selfoss.

Sturluð staðreynd: Helsta áhugamál Gissurar er kosningastjórn Framsóknar.  

Guðmundur Sigurbergsson UMSK

Guðmundur sat í varastjórn UMFÍ árin 2015 – 2017. Frá 2017 hefur hann setið í aðalstjórn og sinnt hlutverki gjaldkera sambandsins. Guðmundur kemur frá sambandssvæði Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) og þekkir vel til hreyfingarinnar á höfuðborgarsvæðinu, aðallega Breiðabliki í Kópavogi. Guðmundur á að baki rúmlega 20 ára stjórnarsetu innan Breiðabliks, fyrst innan körfuknattleiksdeildar og síðar í aðalstjórn félagsins.

Í febrúar 2021 var Guðmundur kosinn formaður UMSK og tók við því hlutverki af Valdimari Leó Friðrikssyni. Áður hafði Guðmundur verið gjaldkeri UMSK í sex ár. 

Sturluð staðreynd: Guðmundur hefur stundum verið kallaður gjaldkeri Íslands þar sem hann var gjaldkeri UMFÍ, UMSK og Breiðabliks á sama tíma.

Gunnar Gunnarsson UÍA

Gunnar kom inn í varastjórn UMFÍ árið 2009 - 2011. Árið 2013 kom hann inn í aðalstjórn sem meðstjórnandi og hefur hann gegnt því hlutverki til dagsins í dag. Gunnar kemur frá sambandssvæði Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) sem hann þekkir mjög vel til. Hann var formaður UÍA árin 2012 – 2021.

Sturluð staðreynd: Það er ekki ofsögum sagt að Gunnar elski ís. Gunnar eeeelskar ís í öllum þeim formum sem hægt er að koma ís í og gæti þess vegna fengið sér ís í öll mál!

Gunnar Þór Gestsson UMSS

Gunnar kom inn í varastjórn UMFÍ árið 2017 og hefur setið í aðalstjórn frá árinu 2019 sem meðstjórnandi. Hann kemur frá sambandssvæði Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) en þar er hann fæddur og uppalinn. Eftir 9 ár sem formaður aðalstjórnar Tindastóls og varaformaður UMSS var Gunnar kosinn formaður UMSS í nóvember 2020.

Sturluð staðreynd: Gunnar þeysist landshornanna á milli á rafmagnsbíl.

Ragnheiður Högnadóttir USVS

Ragnheiður sat í varastjórn UMFÍ árin 2013 – 2015. Árin 2015 – 2019 sat hún í aðalstjórn sem meðstjórnandi. Í kjölfar þingsins árið 2019 varð Ragnheiður varaformaður UMFÍ. Ári síðar hafði hún svo sætaskipti við Jóhann Steinar Ingimundarson, hætti sem varaformaður og gerðist formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ. Ragnheiður kemur frá sambandssvæði Ungmennasambands Vestur-Skaftfellinga (USVS).

Sturluð staðreynd: Þegar Unglingalandsmót UMFÍ féll niður sumarið 2020 vegna heimsfaraldurs COVID-faraldursins, þá hélt Ragnheiður sitt eigið mót með fjölskyldu sinni.

Silja Dögg Gunnarsdóttir UMFN

Silja Dögg er ný í framboði til stjórnar UMFÍ. Hún kemur frá sambandssvæði Ungmennafélags Njarðvíkur (UMFN). Silja Dögg hefur setið í stjórn sunddeildar UMFN og júdódeildar UMFN (nú glímudeild UMFN). Hún og börn hennar hafa lengi verið mjög virkir þátttakendur í starfi ýmissa deilda UMFN og Keflavíkur. Silja Dögg hefur víðtæka reynslu af stjórnarstörfum og félagsmálum, er mikil ungmennafélagsmanneskja og sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn 2013-2021.

Sturluð staðreynd: Silja Dögg hefur skrifað bók um íslenska matþörunga og stundar sjósund á Reykjanesinu.

Frambjóðendur til aðal- og varastjórnar UMFÍ

Guðmunda Ólafsdóttir ÍA

Guðmunda er ný í framboði til stjórnar UMFÍ. Hún hefur tengst íþróttastarfi í mörg ár, bæði sem sjálfboðaliði og starfsmaður síðastliðin 20 ár. Guðmunda er framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness (ÍA) og hefur lokið MBA-námi frá Háskóla Íslands. Lokaverkefni hennar var stefnumótun KR í heild fyrir árið 2019-2024. Guðmunda hefur setið í aðalstjórn KR, stýrt verkefni um eflingu kvennastarfs innan KR og margt fleira. Guðmunda er fædd á svæði HSH, uppalin á svæði USAH, en hefur starfað lengst á svæði IBR.

Sturluð staðreynd: Guðmunda elskar sjósund. Hún hefur samt aldrei farið í heitan sjó við sólarstrendur því hann er ekki nógu kaldur.

Málfríður Sigurhansdóttir ÍBR

Málfríður er ný í framboði til stjórnar UMFÍ. Þrátt fyrir að hafa ekki sinnt stjórnarstörfum áður hefur hún komið töluvert að innra starfi ungmennafélagshreyfingarinnar með setu í fastanefndum.

Málfríður kemur frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR). Hún hefur starfað lengi fyrir Ungmennafélagið Fjölnir, var í 11 ár í stjórnum deilda og hefur frá hausti 2007 verið starfsmaður aðalstjórnar Fjölnis. Málfríður kemur að íþróttastarfinu frá öllum hliðum. Hún hefur verið iðkandi frá barnsaldri og mætir á öll Landsmót UMFÍ 50+, hún hefur átt börn í íþróttum, verið sjálfboðaliði og unnið að málefnum hreyfingarinnar á breiðum grunni.

Sturluð staðreynd: Fríða hefur verið vísað út úr boccia-liði á Landsmóti UMFÍ 50+. Það gerðist áður en hún fékk að sýna hæfileika sína á vellinum!

Sigurður Óskar Jónsson USÚ

Sigurður tók sæti í varastjórn UMFÍ árið 2015 og sat þar í tvö kjörtímabil. Frá árinu 2019 hefur hann setið í aðalstjórn UMFÍ og er hann ritari stjórnar. Siggi, eins og hann er gjarnan kallaður, kemur frá sambandssvæði Ungmennasambandsins Úlfljóts (USÚ) en þar er hann fæddur og uppalinn. Hann sat í stjórn Ungmennafélags Mána árin 2005 til 2020 og hefur verið gjaldkeri USÚ frá árinu 2011. Eins og gengur hefur Siggi gegnt öllum hlutverkum í stjórnum þeirra félaga sem hann hefur átt sæti í – nema gjaldkerastöðunni.

Sturluð staðreynd: Siggi veit ekki alltaf hvort hann býr á Suðurlandi eða á Austurlandi. Búseta hans fer reyndar alveg eftir því hver spyr.

Frambjóðendur til varastjórnar UMFÍ

Elísabet Ásdís Kristjánsdóttir UDN

Elísabet, eða Beta eins og hún er gjarnan kölluð, hefur setið í varastjórn UMFÍ frá árinu 2019. Hún kemur frá sambandssvæði Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN) en þar er hún fædd og uppalin. Elísabet sat í ungmennaráði UMFÍ árin 2013 – 2019. 

Elísabet hefur unnið með börnum og ungmennum síðan að hún var tvítug og tekur virkan þátt í að stuðla að jafnrétti allra kynja í íslensku samfélagi. 

Sturluð staðreynd: Gæludýr Betu eru hundar, kisur, rollur og kýr.

Hallbera Eiríksdóttir UMSB

Hallbera tók sæti í varastjórn UMFÍ árið 2019. Hún kemur frá sambandssvæði Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB). Í dag býr hún hins vegar á höfuðborgarsvæðinu. Hallbera hefur verið þátttakandi í íþrótta- og félagsstarfi allt sitt líf og hefur líklega prófað að æfa allar íþróttir sem voru í boði í Borgarnesi þegar hún var að alast upp. Núna er Hallbera rekstrarverkfræðingur sem finnst skemmtilegast að spila golf og skíða niður brekkur í frítíma sínum.

Sturluð staðreynd: Hallbera hefur hlaupið 5 km á flugbraut komin 5 mánuði á leið!

Lárus B. Lárusson UMSK

Lárus tók sæti í varastjórn UMFÍ árið 2017 og hefur setið í henni í tvö kjörtímabil. Hann kemur frá sambandssvæði Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK), nánar tiltekið frá Gróttu á Seltjarnarnesi. Lárus hefur setið í stjórn UMSK frá 2014.

Lárus hefur töluverða reynslu af nefndarsetum en hann sat í bæjarstjórn Seltjarnarness í tólf ár og var þar m.a. formaður íþrótta- og tómstundaráðs í átta ár. Auk þess sat hann í fjöldamörgum nefndum og ráðum fyrir hönd Seltjarnarness á sínum starfstíma. Jafnframt átti Lárus sæti í landsliðsnefnd kvenna hjá Handknattleikssambandi Íslands (HSÍ) í fjögur ár.

Lárus þekkir vel til starfs ungmennafélagshreyfingarinnar og hvað starfið felur í sér. 

Sturluð staðreynd: Lárus hefur sest oftar upp í flugvél en allir aðrir í stjórn UMFÍ - samanlagt!

Sigurður Eiríksson UMSE

Sigurður er nýr í framboði til stjórnar UMFÍ. Hann kemur frá sambandssvæði Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE) og er hann formaður sambandsins. Sigurður hefur tekið virkan þátt í starfi ungmennafélagshreyfingarinnar í gegnum árin. Hann hefur m.a. sinnt stjórnarstörfum hjá Umf. Samherjar í Eyjafjarðarsveit, verið þjálfari í borðtennis og dómari í knattspyrnu fyrir KSÍ. Sigurður er virkur í starfi knattspyrnudómarafélags Norðurlands. Sigurður er giftur fjögurra barna faðir og býr í Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit.

Sturluð staðreynd: Sigurður er haldinn lítt bældri athyglisþörf þar sem hann yrkir vísur og telur að allir þurfi að heyra þær hvort sem þær eru góðar eða ekki.  Hann á það því til að taka til máls á fundum þótt alla sé farið að langa heim.

Sveinn Ægir Birgisson HSK

Sveinn Ægir er nýr í framboði til stjórnar UMFÍ. Sveinn er fæddur og uppalinn Selfyssingur og kemur því frá svæði Héraðssambands Skarphéðins (HSK). Sveinn, eða Svenni eins og hann er gjarnan kallaður, hefur setið í Ungmennaráði UMFÍ síðastliðin fjögur ár, þar af tvö ár sem varaformaður ráðsins. Öll þessi ár hefur hann tekið virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði, sem er á vegum UMFÍ. Síðastliðin tvö ár hefur hann setið í nefnd sem mótar starf Ungmennabúða UMFÍ.

Sveinn tekur virkan þátt í félagsstörfum í sinni heimabyggð. Hann er varabæjarfulltrúi í Árborg, aðalmaður í eigna- og veitunefnd Árborgar og varamaður í umhverfisnefnd sveitarfélagsins. Sveinn er nemi á menntasviði Háskóla Íslands og er starfsmaður ungmennaráðs Samfés.

Sturluð staðreynd: Sveinn mætti fjórum tímum of seint í sitt eigið tvítugsafmæli eftir að hafa verið í útkalli björgunarsveitar Árbogar í 12 tíma að bjarga fólki, sem sat fast í bílum sínum upp á Hellisheiði.