Ungmennabúðir UMFÍ

Ýmsar upplýsingar

Hvar eru Ungmennabúðirnar?

Ungmennabúðir UMFÍ eru í gömlu íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni. 

Heimilisfang: Hverabraut 4, 840 Laugarvatn. 

Sími: 787 5050

Netfang: ungmennabudir@umfi.is

 

Smelltu hér til þess að opna mynd með leiðarlýsingu. 

Reglur
 • Ekki er heimilt að yfirgefa svæði Ungmennabúðanna án leyfis. Svæðið er nánar útskýrt við komuna í búðirnar.
 • Öllum nemendum ber að hlýða starfsfólki Ungmennabúðanna sem og öllum fararstjórum skólanna sem eru með í för.
 • Skyldumæting er á alla viðburði.
 • Gestir eru ábyrgir fyrir því sem þeir skemma.
 • GSM símar, spjaldtölvur og önnur nettengd tæki eru óheimil á meðan dvöl stendur.
 • Nemendum ber að virða reglur um notkun raftækja og hvað má hafa meðferðis. 
 • Ekki er leyfilegt að koma með eggvopn og eldfæri. 
 • Ofbeldi er ekki liðið.
 • Meðferð og notkun á rafrettum, tóbaki, áfengi og öðrum vímuefnum er STRANGLEGA bönnuð.
 • Nemendum er ekki leyft að koma með sælgæti, tyggjó, drykki og hverskyns nesti að heiman. 
 • Gestum er með öllu óheimilt að snerta reykskynjara, slökkvitæki og önnur björgunartæki að óþörfu.
 • Öll lyf eiga að vera geymd hjá fararstjóra.
 • Gestum er frjálst að koma með hljóðfæri með sér. 

 Brot gegn reglum getur varðað brottrekstri úr búðunum.

Viðurlög er við öllum brotum á reglum.

Námskeið fyrir nemendur

Nemendur sækja fjölbreytt námskeið og aðra skemmtilega viðburði á meðan dvöl þeirra stendur í Ungmennabúðunum.

Eftirfarandi námskeið eru í boði: 

 • Draumateymið: Hópefli, samvinna og samskipti.
 • Gögl: Einbeiting, hreyfing, athygli og þolinmæði.
 • Jarðhitameistarinn: Sjáðu hvað hægt er að nýta íslenska jarðhitann í.
 • Jöklaleikir: Ísbrjótar og hreyfing.
 • Kjarkur og þor: Tjáning og viðtal.
 • Kveikjan: Kynning á svæðinu, reglum, ábyrgð nemenda og gildi búðanna.
 • Stefnumót: Félagsfærni, uppbyggileg samskipti. 
 • Söguferð: Allt sem þig langar að vita um Laugarvatn.
 • Traustaganga: Hreyfing, traust og samvinna.    
 • Upptakarinn: Upplifun þátttaka.
 • Út úr kassanum: Hreyfing, gleði og hópefli.
 • Þrautabraut: Hópefli og áskorun.
 • Ævintýraferð: Kemur á óvart.

Undirbúningur undir Laugaleikana- hópurinn undirbýr innkomuatriði, skapar réttu stemninguna og stillir upp liði fyrir Laugaleikana. 

Laugaleikarnir — Samheldni, keppni og liðsandi. Punkturinn yfir i-ið :-)  
Saga Ungmennabúða UMFÍ

Fyrstu 10 ár Ungmenna- og tómstundabúða UMFÍ (2005 - 2015)

 

Upphafið  
Það var um miðjan janúar árið 2005 sem fyrsti hópur 9. bekkinga mætti í Ungmenna – og tómstundabúðir UMFÍ að Laugum í Sælingsdal.

Hugmyndina að stofnun búðanna má í raun rekja til skýrslu nefndar á vegum Menntamálaráðuneytisins frá árinu 2002 þar sem niðurstöður eru á úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi. Í skýrslunni eru viðraðar áhyggjur af því að þátttaka ungs fólks í félagsstarfi hefur staðið í stað eða minnkað árin á undan. Lagt var til í skýrslunni að „komið verði á laggirnar félagsforystuskóla/leiðtogaskóla í samvinnu samtaka á sviði félags- og tómstundamála með stuðningi stjórnvalda. Uppbygging námsins taki mið af reynslu og þörfum æskulýðssamtaka á þessu sviði.“

Það var svo þann 11. ágúst árið 2004 sem samstarfsyfirlýsing var undirrituð á milli Ungmennafélags Íslands, Dalabyggðar, Menntamálaráðuneytis, Iðnaðarráðuneytisins, Byggðastofnunar og Kennaraháskóla Íslands um stofnun Ungmennabúðanna. Búðirnar voru í upphafi hugsaðar sem þriggja ára tilraunaverkefni í samstarfi við ýmsa aðila sem koma að málum barna og unglinga á Íslandi.

Búðirnar, sem ætlað var að hafa frítíma unglinga sem aðalviðfangsefni, voru opnaðar í gamla skólahúsinu á Laugum sem staðið hafði autt yfir vetrartímann um nokkura ára skeið. Gamla skólahúsið var reyndar eins og hannað fyrir starfsemi af þessu tagi enda voru þar heimavist, matsalur, sundlaug og íþróttahús. Einkar ánægjulegt var að koma húsnæðinu aftur í notkun.

Ungmenna- og tómstundabúðirnar voru þær fyrstu af sínum toga á Íslandi. Annars konar búðir höfðu þó verið starfræktar um nokkurt skeið, þar á meðal skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði sem hófu starfsemi árið 1988. Áherslan þar er önnur og nemendurnir sem þangað koma yngri en í Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ. 

Þeir aðilar sem komu að opnun Ungmennabúðanna að Laugum voru öll með reynslu af vinnu með börnum og unglingum og þeirra þekking og ástríða fyrir starfi með ungmennum hafa gert Laugar að því sem þær eru í dag. Fyrsti forstöðumaður Ungmennabúðanna var Bjarni Gunnarsson en árið 2006 tók Anna Margrét Tómasdóttir við því starfi og hefur hún gegnt því allar götur síðan.

Jörgen Nilsson tómstundaleiðbeinandi hefur einnig verið starfsmaður Ungmennabúðanna nánast frá upphafi og átt mikinn þátt í að móta það starf sem þar er unnið, það má því með sanni segja að Anna Margét og Jörgen hafi verið potturinn og pannan í myndun og mótun búðanna.

Markmið búðanna í upphafi voru að hvetja nemendurna til að vera virka í félags- og tómstundastarfi, efla hjá þeim sjálfstraust, samvinnu og tillitssemi auk þess að kynna þá fyrir sögu og nánasta umhverfi staðarins.

Ungmennafélag Íslands leggur áherslu á að virkja fólk á öllum aldri til að starfa og taka þátt í félagsmálum, íþróttum, tómstundum, útivist, menningu og umhverfismálum og það hefur því alltaf verið haft að leiðarljósi á Laugum.

Það fyrirkomulag sem komið var á í upphafi að nemendahóparnir komi að Laugum á mánudagsmorgnum, sæki ýmis konar námskeið á meðan dvalið er á Laugum og haldi heim á leið í kringum hádegi á föstudögum hefur haldist eins í áranna rás. Dagskráin sem slík og námskeiðin hafa þó tekið töluverðum stakkaskiptum. Einstöku námskeið hafa þó haldist eins eða mjög svipuð alveg frá upphafi. Má þar fyrst nefna gönguferðina á Tungustapa þar sem leiðbeinandi gengur með nemendahópinn upp á topp stapans og segir þeim þar söguna um álfana í stapanum og bræðurna í Sælingsdalstungu.

Þó gangan hafi haldist í sömu mynd síðustu ár er rétt að nefna að göngurnar eru ákaflega ólíkar í eðli sínu, nemendurnir ýmist liggja í sólbaði á toppi stapans eða þjóta niður brekkurnar á rassaþotum allt eftir árstíð, veðrum og vindum. Annað námskeið sem haldist hefur að mestu leyti eins frá upphafi er blindragangan, þar sem nemendur leiða félaga sína með blindragleraugu yfir mela og móa í dalnum. Kennsla í ræðumennsku sem endar á ræðukeppni hefur líka verið á dagskrá Ungmennabúðanna nánast frá upphafi og er alltaf jafn vinsæl þrátt fyrir sviðsskrekk sumra nemenda. Að ræðukeppninni lokinni er allt stress gleymt og eftir situr bara góð reynsla og stoltur nemendahópur.

Eftir að Ungmennabúðirnar höfðu verið starfræktar í stuttan tíma var tekin sú ákvörðun að byggja vikuna upp sem keppni á milli tveggja til fjögurra liða sem væru mynduð úr nemendahópunum.

Liðin safna stigum frá fyrsta degi og fram á fimmtudagskvöldið. Hægt er að fá stig fyrir frammistöðu í námskeiðunum og geta nemendurnir fylgst með framvindu liðs síns á stigatöflu sem hangir uppi á gangi búðanna. Stigakeppnin endar á fimmtudagskvöldinu með Laugaleikunum sem einnig hafa tekið nokkrum breytingum frá upphafi. Að lokinni keppninni eru veitt verðlaun fyrir liðið sem vinnur.

Þess er gætt að liðin séu svipuð í félagslegum og líkamlegum styrk og ef fleiri en einn skóli er í búðunum í einu er passað að hlutfall nemenda úr skólunum séu jöfn í liðunum.

Stigakeppnin gefur aukið tækifæri á að mynda hópastemmningu í liðunum með aukinni samvinnu og samkennd auk þess sem hún nýtist sem ákveðið verkfæri í agamálum. Áhersla er lögð á keppnina sjálfa og gleðina og skemmtunina sem felst í því að vera hluti af hóp en minni áhersla er lögð á hvaða lið vinna og tapa.

Frá upphafi hafa Ungmennabúðirnar boðið upp á gistinguna, dagskrána og fullt fæði fyrir nemendur. Reynt hefur verið að hafa verðið hóflegt svo það sé öllum mögulegt að njóta þess sem búðirnar eiga upp á að bjóða.

 

Síðustu ár  
Í áranna rás hefur starf Ungmennabúðanna breyst töluvert þó markmiðin hafi að mestu leyti haldist þau sömu. Námskeiðin hafa tekið breytingum með því starfsfólki, sjálfboðaliðum og gestum sem hafa dvalið í búðunum, þar sem nýjar hugmyndir koma fram og sífellt er leitast við að hafa starfið sem vandaðast. Aukið samstarf við búðir annar staðar í heiminum og aukin tengsl við fræðin sem liggja að baki starfi búða hafa gert starfið sem fram fer í Ungmenna- og tómstundabúðunum að Laugum enn betra.

Áhersla á umhverfismál og heilsueflingu hefur aukist í búðunum undanfarin ár og eru Ungmennabúðirnar núna hluti af Grænfánaverkefni Landverndar og Heilsueflandi skóli. Nemendur og starfsfólk flokka rusl og gefa dýrum bændanna í kring matarafganga úr búðunum. Meistararnir í eldhúsinu á Laugum sjá um að halda öllum söddum og sælum út vikuna með smávegis óhollustu inn á milli, enda er allt gott í hófi og ekkert betra en heitt kakó þegar komið er inn úr kuldanum á veturna. 

Meginstoðir búðanna eru menning, útivist, hreyfing og félagsfærni en undanfarin ár hefur útivist og útivera fengið meira vægi í starfi búðanna og hefur ríkt almenn ánægja með þá þróun. Aukin útivera býður upp á hreyfingu utandyra þar sem hægt er að kynna nemendurna fyrir náttúru landsins og umhverfi staðarins. Á tímum þar sem ungmenni eyða sífellt meiri tíma í tölvum og símum hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að sýna þeim hversu mörg ævintýri felast í náttúrunni og að allir hafi tækifæri á að finna sér skemmtun utandyra við þeirra hæfi. Þess er gætt í þeirri útivist þar sem mikillar hreyfingar er krafist að allir fái áskorun við hæfi og að enginn sé þvingaður í eitthvað sem hann ræður ekki við.

Nokkur vinsælustu námskeið búðanna hafa skotið upp kollinum undanfarin ár og er þar göglið fremst í flokki. Í göglinu læra nemendur ýmiskonar sirkúskúnstir eins og að snúa diskum á priki, halda boltum á lofti og hjóla á einhjólum. Það er gaman að fylgjast með nemendunum gleyma sér í verkefnunum og spreyta sig á einverju sem þau hafa ekki prófað áður.

Uppbygging þrautabrautarinnar í Lillulundi hófst árið 2011. Hún var byggð upp í áföngum og er í dag orðin heilmikið mannvirki. Brautin bætir heilmiklu við útisvæði Lauga og hefur vakið hrifningu nemenda. Verkefnin í brautinni reyna mikið á samvinnu og það er ánægjulegt að sjá liðsandann í hópum nemenda í slíkum verkefnum.

Stigakeppnin hefur eins og áður segir haldist að mörgu leyti eins í gegnum árin. Aukið hefur þó verið á stemmninguna í hópunum með því að færa nemendum boli og vatnsbrúsa í lit síns liðs.

Sú breyting hefur einnig verið undanfarin ár að sjálfboðaliðar frá öðrum löndum hafa komið og unnið með starfsfólki Ungmennabúðanna. Með þeim hafa komið nýjar hugmyndir og fleiri aðferðir til að hafa vikuna sem besta fyrir nemendur. Eins hefur Jörgen dvalið í búðum Camp adventure, í Þýskalandi í nokkrar vikur og Anna Margrét heimsótt fjölmargar búðir í öðrum löndum.

 

Ungmennabúðirnar í dag 
Enn þann dag í dag eru Ungmennabúðir UMFÍ einu búðirnar með áherslu á tómstundir sem starfræktar eru yfir vetrartímann fyrir skólahópa á Íslandi.

Starfið í dag býður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir nemendur þar sem þeir fá tækifæri til að stíga út fyrir þægindarammann, auka færni sína í því að koma fram, auka einbeitingu og vinna saman að sameiginlegum markmiðum. Allir þeir nemendur sem sækja búðirnar heim eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og allir eiga að hafa tækifæri til að blómstra. Á Laugarvatni eru allir jafnmikilvægir og vinátta og virðing eru þar í fyrirrúmi enda ekkert pláss fyrir einelti, stríðni og neikvæðni.

Starfsfólk búðanna heldur áfram að þróa nýjar hugmyndir og bæta starfið á sama tíma og viðburðir eins og óvissuferðin og sundlaugapartýið standa alltaf fyrir sínu. Með áhuga, ástríðu og samvinnu hafa búðirnar sannað sig sem ein skemmtilegasta og eftirminnilegasta upplifun sem er í boði fyrir ungmenni á Íslandi í dag.

Hátt í tvöþúsund nemendur, ásamt kennurum, foreldrum eða starfsfólki félagsmiðstöðva, frá yfir fimmtíu skólum víðsvegar á landinu koma nú til dvalar yfir vetrartímann. Fjöldi nemenda sem heimsótt hefur búðirnar frá opnun er því orðinn ansi hár.

Ellefu ár eru nú liðin frá stofnun búðanna og það er ánægjulegt að sjá hversu vel þær hafa fest sig í sessi og hversu vinsælar þær eru hjá unglingunum sem hafa heimsótt þær og hve eftirvæntingarfullir unglingarnir eru sem eiga eftir að koma. Það er von allra sem standa að Ungmennabúðum UMFÍ að þær haldi áfram að vera jafn stór hluti af lífi íslenskra ungmenna og þær hafa verið hingað til og að þar haldi skemmtilegar upplifanir áfram að verða að góðum minningum. Megi næsti áratugur verða enn betri en sá fyrsti.

Verkefni og rannsóknir um starf ungmennabúða

Anna Margrét Tómasdóttir, forstöðumaður Ungmennabúðanna, lauk  M.Ed. í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2017.

Lokaritgerð hennar heitir: Ungmenna- og tómstundabúðir sem stuðningur við menntun unglinga. Þar fjallar Anna Margrét um hugmyndafræði búðanna, sögu ungmennabúða á Íslandi ásamt sérstökum kafla um sögu Ungmenna- og tómstundabúðanna. Helstu búðir fyrir börn og ungmenni á Íslandi eru ungmennabúðir, skólabúðir og sumarbúðir. Hér er hægt að nálgast ritgerðina í Skemmunni

 

Í B.A. ritgerð Rakelar Jónsdóttur í tómstunda- og félagsmálafræði sem kom út árið 2012 er fjallað um skóla- og ungmennabúðir ásamt helstu kenningum sem tengjast starfinu, m.a. reynslu- og ævintýranámi. Ritgerðina má nálgast hér.

 

Erlendar blaðagreinar um búðir

Benefit of CAMP

Starf búða í Evrópu

 

Erlendar rannsóknir

Identifying the importance and ...

Doktorsritgerð um búðir

A case study on events ... 

Mat á starfi

Ýmis konar mat er gert á starfsemi Ungmennabúða UMFÍ. Á námskeiðum er matið lifandi með nemendum í búðunum og staðan metin hverju sinni í kjölfar dvalar hvers hóps.

Á hverjum föstudegi eru lögð matsblöð fyrir nemendur þar sem þeir geta tjáð sig um viðburði vikunnar, hvað þau telja hafa staðið upp úr, hvað megi betur fara og slíkt. Þá eru kennarar teknir tali á föstudögum og þeir spurðir spjörunum úr um hvaðeina sem kemur starfseminni í búðunum. 

Starfsmenn gera jafnframt mat á námskeiðum og innra starfi búðanna. Það felur í sér að starfsmenn sækja öll námskeið og viðburði og meta tvo styrkleika og tvo veikleika námskeiðsins. Síðan eru þessir hlutir ræddi og endurmetnir. Til viðbótar eru reglulega haldnir vinnufundir um innra starf búðanna.

 

Kennaramat

Mikilvægt er að fylgjast með hvað kennurum finnst um dvölina á Laugarvatni, hvað stóð upp úr og hvað má betur fara. Handbók búðanna er unnin að hluta til eftir þörfum kennara. Seinna í vetur munu niðurstöður úr kennaramati birtast á vefsíðu Ungmennabúðanna. 

 

Nemendamat

Á hverjum föstudegi eru lögð matsblöð fyrir nemendur. Stundum eru þau þó tekin í viðtal og farið yfir vikuna. Nemendur geta gefið ákveðnum dagskrárliðum einkunn, þeir geta tjáð skoðanir sínar, komið með ábendingar og látið vita hvað stóð upp úr og hvað má betur fara. 

Hvað segja nemendur. Smelltu hér til þess að sjá dæmi um svör nemenda

 

Ígrundun

Nemendur eru taldir móta sjálfir, á grundvelli fyrri þekkingar og reynslu,  eigin viðhorf og skilning með því að hugleiða eða ræða við aðra um eigin sýn á viðfangsefni og vandamál sem koma upp. 

 

Heilsueflandi grunnskóli

Ungmennabúðir UMFÍ starfa í anda heilsueflandi grunnskóla. 

Hugmyndin um Heilsueflandi grunnskóla er byggð á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um heilsueflingu. Þar eru talin upp eftirfarandi sex grundvallaratriði:

 

Stefnuviðmið um Heilsueflandi grunnskóla

Þau koma skýrt og greinilega fram í skólanum, bæði í skjalfestum gögnum, s.s. námsskrá skóla, og í viðteknum venjum og starfsháttum sem efla heilsu, bæta líðan og örva þátttöku. Mörg slík viðmið lúta að því að efla heilsu og bæta líðan, t.d. þau sem snúast um að taka upp hollara mataræði í skólum og þau sem eiga að bæta skólabrag.

 

Skólaumhverfið

Skólaumhverfið lýtur hér að skólabyggingunum, lóðinni, tækjum og búnaði í skólum og umhverfi t.d. hvort nóg rými er fyrir líflega leiki og hvort gert er ráð fyrir að börnin geti sinnt heimanáminu og borðað hollan og góðan mat í skólanum. Skólaumhverfið lýtur líka að öryggi og grundvallarþægindum eins og salernum og þrifum á þeim til að hindra útbreiðslu sjúkdóma. Einnig er mikilvægt að aðgengi að drykkjarvatni og hreinu lofti sé gott og að hávaðastjórnun sé í lagi.

 

Félagslegt umhverfi skólanna

Félagslegt umhverfi skólanna lýtur að því hversu gott samband er milli starfsfólks og nemenda og milli nemenda innbyrðis. Samskiptin við foreldra og aðra í grenndinni hafa áhrif á félagslegt umhverfi skólanna.

 

Heilsuvitund nemenda og geta þeirra til breytinga

Þetta lýtur bæði að formlegri og óformlegri kennslu og verklegum viðfangsefnum í skólanum. Þar öðlast nemendur þekkingu og færni í samræmi við aldur og þroska og læra af reynslunni svo að þeir geti smám saman gripið til eigin ráða til að bæta heilsu og líðan sjálfra sín og annarra í námunda við sig og bætt um leið námsárangur sinn.

 

Samfélagstengsl

Samfélagstengsl snúast um sambandið milli skóla og fjölskyldna nemenda og sambandið milli skóla og helstu stofnana og félagssamtaka í nærsamfélaginu. Með því að ráðgast við og fá þessa aðila til samvinnu styrkist heilsueflingarstarf skólanna og nemendur og starfsfólk öðlast stuðning við aðgerðir sínar.

 

Heilbrigðisþjónusta

Heilsuvernd skólabarna er hluti af almennri heilsugæslu og markmið hennar er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk Heilsuverndar skólabarna vinnur með velferð nemenda að leiðarljósi og í náinni samvinnu við foreldra og aðra forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem hlut eiga að málum nemenda. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Starfsemi Heilsuverndar skólabarna fer eftir lögum, reglugerðum og tilmælum sem um hana gilda. Í henni felast skimanir, viðtöl um lífsstíl og líðan, bólusetningar og heilbrigðisfræðsla ásamt ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans.

 

Nánari upplýsingar er að finna á vef Embætti landlæknis.