25. janúar 2022

Á góðar minningar úr Ungmennabúðum UMFÍ

„Ég var eitthvað farin að dútla mér í tónlist. Ég var ekki mikið að semja lög en þegar minn hóp vantaði innkomuatriði varð allt mjög metnaðarfullt,“ segir tónlistarkonan Bríet Elfar. Hún kom með skólafélögum sínum í 9. bekk í Laugalækjarskóla í Ungmennabúðir UMFÍ árið 2015.

Búðirnar voru þá á Laugum í Sælingsdal. Bríet man vel eftir dvölinni í búðunum.

„Minningin er ótrúlega hlý. Þarna áttu að vera tveir skólar saman. En af því að Laugalækjarskóli er svo stór vorum við ein og ég held að það hafi verið blessun. Það dregur allan hópinn betur saman. Þegar svona stór hópur kemur saman verður aldeilis til eitthvað sérstaklega skemmtilegt. Samheldnin verður líka öðruvísi en í skólanum og góð. Í ungmennabúðunum eignaðist ég alvöru vini. Það er eitt að eiga vini í skólanum. En þegar við gistum nokkrar nætur saman úti í sveit, þá verður stemningin önnur,“ heldur Bríet áfram.

Hópur Bríetar samdi tilkomumikið innkomuatriði á svokölluðum Laugaleikum með dansi
og heljarstökkum og man hún vel eftir því.

„Mér þykir afar vænt um að við vorum ekki í neinum unglingagír á Laugum og allt var þar svo skemmtilegt. Ég hugsa til ungmennabúðanna með hlýjum hug,“ segir hún.

 

Hér að neðan má sjá nemendur Laugalækjarskóla í Ungmennabúðunum á sínum tíma. Bríet er fremst og lengst til vinstri á myndinni.

 

Um Ungmennabúðir UMFÍ

  • UMFÍ hefur starfrækt ungmennabúðir frá árinu 2005. Þær voru fyrstu árin að Laugum í Sælingsdal en eru nú í gömlu íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni.
  • Ungmennabúðirnar eru fyrir nemendur í 9. bekk.
  • Nemendur geta dvalið þar frá mánudegi til föstudags við leik og störf og óformlegt nám.
  • Markmiðið með dvölinni er að styrkja félagsfærni ungmenna og efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og samfélagi, ásamt mikilvægi þess að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi.
  • Árlega koma rúmlega 2.200 ungmenni í búðirnar.
  • Fyrir fyrirspurnir og bókanir, vinsamlegast hafið samband í gegnum netfangið ungmennabudir@umfi.is.

 

Viðtalið og umfjöllunin er í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur smellt á blaðið hér að neðan og lesið það allt á umfi.is.

Myndina hér að ofan af Bríeti tók ljósmyndarinn Hafsteinn Snær Þorsteinsson.