21. nóvember 2022

Elsa, Kristján, Stefán og Valdimar heiðruð með gullmerki

Elsa Jónsdóttir, Kristján Sveinbjörnsson, Stefán Konráðsson og Valdimar Gunnarsson voru öll heiðruð með gullmerki UMFÍ í 100 ára afmælisveislu Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK), sem haldið var á laugardag.

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, tilkynnti um viðurkenninguna og tók sérstaklega fram að þau eru veitt þeim sem hafa um árabil unnið öflugt starf í þágu ungmennafélagshreyfingarinnar, verið í forystu í héraði eða á vettvangi UMFÍ eða í áratugi unnið ötullega að eða tekið þátt í verkefnum UMFÍ.

Fjölmennt var í afmælisveislunni sem haldin var í Hlégarði í Mosfellsbæ, sem er eitt af sveitarfélögunum á sambandssvæði UMSK. Guðmundur G. Sigurbergsson, formaður UMSK, hélt ávarp ásamt nokkrum fleirum. Auk þess hélt tónlistarmaðurinn Jón Jónsson uppi stuðinu. 

 

Nánar um gullmerkjahafana

Elsa Jónsdóttir. Elsa hefur unnið ómælt sjálfboðaliðastarf fyrir UMSK og Gerplu og var formaður fimleikadeildar félagsins til margra ára. Elsu hefur verið veitt starfsmerki UMFÍ, Gullmerki UMSK, Gullmerki ÍSÍ og Heiðurskross ÍSÍ.

Kristján Sveinbjörnsson. Kristján hóf ungur að taka þátt í starfi Ungmennafélags Bessastaðahrepps. Hann varð gjaldkeri þess 16 ára gamall og formaður 18 ára. Hann sat í stjórn UMSK og var formaður sambandsins á árunum 1981 – 1985. Hann hefur um árabil verið skoðunarmaður reikninga UMSK. Hann hefur hlotið starfsmerki UMFÍ og Gullmerki UMSK.

Stefán Konráðsson. Stefán er löngu landsþekktur af störfum sínum fyrir íþróttahreyfinguna. Hann hefur hlotið flest allar þær viðurkenningar sem hreyfingin er með í boði og er nú sæmdur gullmerki UMFÍ.

Valdimar Smári Gunnarsson. Valdimar hefur undanfarin 14 ár starfað sem framkvæmdastjóri UMSK en á mun lengri sögu í starfi innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Of langt mál er að fara yfir allt sem hann hefur gert en hann hefur komið með nýjar hugmyndir inn í starfið og var nú síðast helsti arkitekt að viðburðum Íþróttaveislu UMFÍ og UMSK.