02. september 2022

Forsetinn hvetur fjölskyldur og hlaupara til að mæta

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mælir með því að fjölskyldur og áhugahlauparar mæti í Forsetahlaupið sem fer fram á Álftanes í fyrramálið. Hann ræddi lítillega um hlaupið í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær ásamt því að kynna bók sína Stund milli stríða, sem fjallar um sögu landhelgismálsins á árunum 1961 – 1971. Guðni, sem er verndari ungmennafélagshreyfingarinnar, sagðist ætla að taka þátt í hlaupinu.

Forsetahlaup UMFÍ er haldið í fyrsta sinn á Álftanesi á morgun. Þetta er stór viðburður enda fyrsta skiptið viðburður er haldinn í nafni þjóðhöfðingja hér á landi. Hlaupið er í anda danska viðburðarins, Royal Run þar sem Friðrik krónprins tekur virkan þátt í. Forsetahlaup UMFÍ er jafnframt lokahnykkurinn á Íþróttaveislu UMFÍ og UMSK sem farið hefur fram í sumar. Íþróttaveislan er hluti af viðleitni UMFÍ til hvetja almenning til að hreyfa sig. Í sumar hafa farið fram bæði Drulluhlaup Krónunnar og Hundahlaupið, sem bæði tókust afar vel auk Unglingalandsmóts UMFÍ og Landsmóts UMFÍ 50+.

Umsjón með hlaupinu hafa hlaupahópur Stjörnunnar og Hlaupahópur Álftanes.

 

Gaman fyrir alla fjölskylduna

Búist er við miklum fjölda fólks í Forsetahlaupið á Álftanesi. Hægt verður að ná í mótsgögn í anddyri Íþróttamiðstöðvar Álftanes frá klukkan 9:00 og verður hitað upp fyrir fyrsta ræs um tíuleytið. Á íþróttavellinum á Álftanesi verður leikjagarður og sirkusþrautir, grillað verður fyrir alla þátttakendur og gesti og allt gert til að sem flestir njóti dagsins á skemmtilegum lýðheilsuviðburði áður en amstur dagsins tekur við.

 

 

Tvær vegalengdir eru í boði í Forsetahlaupi UMFÍ sem eru vel viðráðanlegar fyrir flesta hlaupara og alla fjölskylduna. Annars vegar er það míluhlaup eða upp á 1,6 km. Hins vegar er í boði 5 km hlaup. Hlauparar sem vilja bæta tíma sinn í hlaupinu ættu ekki að láta þetta tækifæri sér úr greipum renna því leiðin er slétt og þægileg auk þess em Veðurstofan spáir fyrirtaks hlaupaveðri, 14 gráðum og 3 m/sek, sem er ferskur andblær á hlaupaleiðinni, sem er löglega mæld samkvæmt kúnstarinnar reglum.

Míluhlaupið hefst kl. 10:30 og 5 km hlaup kl. 11:00.

Þátttökugjald er 1.000 kr fyrir Mílu hlaup og 2.000 kr fyrir 5 km hlaupið. Frítt er fyrir börn og ungmenni 16 ára og yngri.

Allir frá þátttökuverðlaun þegar komið er í mark.

 

Ítarlegri upplýsingar má finna á hlaup.is. Skráning í Forsetahlaupið er í fullum gangi en hægt er að skrá sig hér.