06. október 2021

Forsetinn kynnti leik Forvarnardagsins

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heimsótti Laugalækjarskóla og Menntaskólann í Kópavogi í tilefni af Forvarnardeginum 2021. Í Laugalækjarskóla skoðaði forseti skólann í fylgd með fulltrúum nemenda og Jóni Páli Haraldssyni skólastjóra og heilsaði upp á nemendur í kennslustund. Eins og gefur að skilja var efni samræðnanna í takti við námið í hverri stofu. Í einni ræddi forsetinn um kosti og mikilvægi þess að læra dönsku og önnur erlend tungumál en um muninn á lýðræði og einveldi í annarri kennslustofu.

Með í för voru Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, og Andri Stefánsson, starfandi framkvæmdastjóri ÍSÍ.

 

Leikur Forvarnardagsins

Markmið heimsóknarinnar í Laugalækjarskóla var auk þess að ræða við nemendur 9. bekkjar á sal um gildi þess að forðast hvers konar fíkniefni og draga sem lengst að prófa þau. Auk þess kynnti hann nemendunum fyrir leik Forvarnardagsins.

Þeir sem taka þátt í leiknum eiga möguleika á því að vinna 50 þúsund króna inneign í verslun 66Norður.

Taka þátt í leik Forvarnardagsins.

 

Heimsókn í Laugalækjarskóla

Eftir heimsóknina í Laugalækjarskóla lá leið forsetans í Menntaskólann í Kópavogi. Þar tók Guðríður Arnardóttir skólameistari á móti honum. Guðni ræddi við nemendur á fyrsta ári og ræddi við nemendur á afrekssviði sem skólinn hleypti af stokkunum árið 2019 í samstarfi við íþróttafélög.

Þetta var 16. árið sem Forvarnardagurinn er haldinn og eru viðburðir tengdir honum í flestum grunn- og framhaldsskólum landsins þar sem sjónum er sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla.

Þema Forvarnardagsins í ár er andleg líðan ungmenna og var rætt um þá þætti sem geta haft áhrif þar á eins og koffíndrykki, nikótínpúða og svefn. Þá voru verndandi þættir einnig ræddir og áhrif þeirra í að styrkja ungmenni til þess að taka réttar ákvarðanir þegar þau standa frammi fyrir áskorunum.

Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins sem unnin er í samstarfi við embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Bandalags íslenskra skáta, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greiningu, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Samfés og Heimili og skóla.  

Meira um Forvarnardaginn