31. ágúst 2022

Guðný Stefanía með kampakáta nemendur í Skólabúðunum

„Ég svíf hérna um í bongóblíðu, krökkunum finnst allt rosa gaman og kennararnir ánægðir með aðstöðuna,“ segir Guðný Stefanía Stefánsdóttir, kennari í 7. bekk Grunnskólans á Ísafirði. Hún var í hópi fyrstu gestanna sem komu í Skólabúðirnar á Reykjum í Hrútafirði á mánudag. Þetta var fyrsti starfsdagurinn eftir að UMFÍ tók þar við starfseminni á Reykjum.

Aðeins örfáar vikur eru síðan skrifað var undir samning um að UMFÍ taki við rekstri Skólabúðanna á Reykjum. Allt var sett á fullt og hefur UMFÍ og starfsmenn á vegum sveitarfélagsins Húnaþings vestra staðið í ströngu síðustu vikur við umtalsverðar umbætur á húsnæðinu á Reykjum. Búið er að mála allt, skipta út nær öllu innbúi og húsgögnum og ráða í allar stöður.

Húsnæðið rúmar 120 nemendur og munu koma af öllu landinu. Fyrstu nemendurnir, 6 kennarar og fleiri starfsmenn skólanna komu í gær frá Ísafirði, Álfhólsskóla í Kópavogi og Bolungarvík.

 

Fjórða skiptið í Skólabúðunum

Þetta er fjórða skiptið sem Guðný Stefanía kemur í Skólabúðirnar. Hún kom fyrst árið 1989 þegar hún sjálf var í grunnskóla og gisti þá á heimavistinni í húsi sem kallast Grund. Þar gisti hún áður sem kennari í fyrri skiptin. Þetta er þriðja skiptið sem hún kemur með nemendahópa og gistir að þessu sinni í húsi sem kallast Ólafshús eins og allir nemendurnir frá Ísafirði.

Þetta er afar fallegt og eftirtektarvert hús sem Guðjón Samúelsson, fyrrum húsameistari ríkisins, teiknaði. Þar er jafnframt mötuneyti Skólabúðanna ásamt heimavist.

Langflest herbergin rúma tvo til fjóra nemendur. Búið er að gera öll herbergin upp, mála þau og kaupa inn í þau nýjan húsbúnað og rúm.

Guðný Stefanía segir krakkana hafa notið fyrsta dagsins í botn, auk hefðbundinnar dagskrár hafi þau farið í fullt af skemmtilegum leikjum.

„Ég vissi að UMFÍ væri að taka við rekstrinum og af því að ég er svo mikil ungmennafélagskona þá var ég spennt að sjá breytinguna. Ég var líka ánægð að vera fyrst og taka þátt í að laga alla hnökra um leið og þeir koma upp. Þetta er æðislegt. Rúmin eru flott og gert vel við okkur. Mér líst vel dagskrána sem er hérna og gaman að sjá nýja hluti, þó svo að allt sé nýtt fyrir krökkunum. Krakkarnir eru rosalega ánægðir. Þegar þeir eru sáttir þá eru allir glaðir,“ segir Guðný Stefanía.

 

Um Skólabúðir og Ungmennabúðir

UMFÍ starfrækir nú í fyrsta sinn Skólabúðir á Reykjum í Hrútafirði fyrir nemendur í 7. bekk grunnskóla af öllu landinu. Húsnæðið rúmar um 3.200 nemendur á hverju skólaári. Ungmennabúðir UMFÍ eru á Laugarvatni og eru þær fyrir nemendur 9. bekkjar. UMFÍ hefur verið með búðirnar frá árinu 2005. Þangað koma um 2.000 nemendahópar á hverju ári. Samtals munu því meira en 5.000 nemendur í tveimur árgöngum grunnskóla dvelja í viku senn á hverju skólaári í Skóla- og Ungmennabúðum á vegum UMFÍ.

 

Meiri upplýsingar um:

Skólabúðirnar á Reykjum

Ungmennabúðir UMFÍ