23. júní 2022

Ísfirðingar mættir á landsmót í Borgarnesi

Þeir voru glaðir og kátir fyrstu þátttakendurnir sem komu til að ná í mótsgögnin fyrir Landsmót UMFÍ 50+ í þjónustumiðstöðina í Borgarnesi síðdegis í dag.

Þetta eru þeir Guðjón Bjarnason, Reynir Pétursson og Finnur Magnússon, sem allir ætla að keppa á mótinu í boccía fyrir liðið Kubba 3 frá Ísafirði. Kubbi er aðildarfélag Héraðssambands Vestfirðinga (HSV) og er von á miklum fjölda þátttakenda þaðan á mótið í Borgarnesi. Fjórði maðurinn er Salmar Jóhannsson, sem hefur skráð sig í sund, pútt og golf.

Þeim félögunum fannst vindurinn heldur vera að flýta sér í Borgarfirðinum, eins og þeir orðuðu það en eins og flestir vita er alltaf blankalogn á Ísafirði.

Á þriðja hundrað þátttakendur eru skráðir til leiks á Landsmót UMFÍ 50+ sem fram fer í Borgarnesi og munu þátttakendur takast á í ellefu greinum um helgina. Þjónustumiðstöðin opnaði í Hjálmakletti í síðdegis í dag og verður opin til klukkan 22:00 í kvöld. Hún verður svo opin alla helgina. 

Leikar hefjast klukkan 9:30 í boccía í fyrramálið og síðdegis verður keppt í skák, ringó og götuhlaupi. Mótið verður svo sett formlega annað kvöld klukkan 20:30. 

 

Ítarlegri upplýsingar má sjá hér: Allt um Landsmót UMFÍ 50+

Hægt er að smella á myndina og skoða mótaskránna hér.