24. júní 2022

Jóhann Steinar: Við verðum að halda áfram að hreyfa okkur!

„Við verðum að halda áfram, njóta lífsins og samverunnar með öðrum. Það má ekki gleyma að hreyfa sig og ekki er verra að hreyfa sig með öðrum,‟ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ. Hann setti Landsmót UMFÍ 50+ við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti í Borgarnesi í kvöld.

Í ávarpinu lagði Jóhann áherslu á mikilvægi þátttökunnar, sérstaklega eftir heimsfaraldurinn sem olli því að stór hluti viðburða féll niður eða var færður til síðastliðin tvö ár. Það sama á við um Landsmót UMFÍ 50+ og Unglingalandsmót UMFÍ sem hefur verið frestað árin 2020 og 2021.

 

 

„Eins og allir þekkja hefur verið erfitt að standa fyrir opnum viðburðum síðastliðin misseri og meðganga mótsins ansi löng, sagði Jóhann og bætti við að nú þegar hægt er að halda viðburði á ný sé mikilvægt að koma fólki á hreyfingu sem hefur koðnað niður í faraldrinum. Hann þakkaði sérstaklega öllum bakhjörlum móta UMFÍ fyrir þolinmæðina í gegnum faraldurinn. Þar á meðal eru einstaklingar og fyrirtæki.

„Síðast en ekki síst þakka ég sjálfboðaliðum UMSB og styrktaraðilum, öllum þeim nauðsynlegu bakhjörlum sem gera okkur kleift að halda mót eins og þetta. Sjálfboðaliðarnir hafa ár eftir ár farið af stað í undirbúning móta okkar en ætíð þurft að leggja árar í bát þegar faraldurinn hefur hamlað mótahaldi. Eins hafa fjölmargir styrktaraðilar okkar verið einkar þolinmóðir í gegnum árin þegar á móti blés,‟ sagði hann að lokum.

 

Ávarp Jóhann Steinars í heild sinni

Loksins erum við aftur komin af stað. Það er okkur hjá Ungmennafélagi Íslands sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin á Landsmót UMFÍ 50+ hér í Borgarnesi. Eins og allir þekkja hefur verið erfitt að standa fyrir opnum viðburðum síðustu misseri og meðganga mótsins hefur verið ansi löng. Mótið nú er haldið í þriðju tilraun og sannast hið forkveðna: “Allt er þegar þrennt er.”

Við vonum auðvitað að ekki sé um svikalogn að ræða og að við séum komin fyrir vind í hamförunum sem á okkur öll hefur dunið. Við verðum líka að halda áfram. Halda áfram að njóta lífsins og samverunnar með öðrum. Þá má heldur ekki gleyma að hreyfa sig og ekki er verra að hreyfa við öðrum.

Við hjá UMFÍ viljum einmitt hreyfa við öðrum. Hlutverk okkar er að efla, styrkja og byggja upp fólk með íþrótta-, félags- og æskulýðsstarfi. Hugsunin nær allt frá barnæsku til efri ára, að vera ungur í anda. Rétt eins og kjörorð UMFÍ fangar svo vel: Ræktun lýðs og lands. Reynslan sýnir að styrkur hvers og eins skilar sér til samfélagsins. Það sem er gott fyrir mig og það góða sem ég geri það bætir samfélagið. Og UMFÍ vill vera samfélaginu til góða.

UMFÍ er þjónustu- og samstarfsvettvangur fyrir sambandsaðila og aðildarfélög þeirra. Sambandsaðilar eru 26 talsins en undir þá falla yfir 400 félög um allt land. Lögð er áhersla á fagleg vinnubrögð, jákvæð samskipti og samvinnu með sameinaða krafta að leiðarljósi. Við viljum að allir geti tekið þátt í íþróttum og hreyfingu og verið hluti af öflugri liðsheild i samfélaginu. Þannig vinnum við saman að því að bæta heilsu landsmanna og samfélagið um leið.

Á meðan hefðbundið starf lá niðri i faraldinum nýtti ungmennafélagshreyfingin tímann vel til að styrkja innra starfið. Niðurstaða af þeirri vinnu er skarpari sýn og áherslur samtakanna. Þá settum við okkur gildi þar sem lögð er áhersla á gleðina sem felst í þátttöku fólks í samfélaginu og viðburðum, frumkvæði og traust og áhersla á samvinnu. Því enginn einn gerir allt.

Það er gaman að segja frá því að fyrsta Landsmót 50+ var haldið á Hvammstanga þessa sömu helgi árið 2011. Um stórviðburð var að ræða því mót eins og þetta hafði aldrei áður verið haldið fyrir fólk yfir miðjum aldri.

Framundan er tími þátttakendanna þar sem mestu máli skiptir er að mæta, vera með og prófa eitthvað nýtt. Hittum gamla vini og kynnumst nýjum og njótum þess að vera saman. Þannig styður UMFÍ við bætta lýðheilsu og við virkjum ungmennafélagsandann sem felur í sér að bæta sjálfan sig og samfélagið um leið og endurspeglast í gildum UMFÍ; Gleði – Traust – Samvinna.

Viðburður eins og þessi kallar á mörg handtök. Velvilji sveitarfélaga til að starfa með héraðssamböndum og íþróttafélögum í heimabyggð er hornsteinninn að mótahaldinu. Það veitir þeim líka tækifæri til að laða að þátttakendur til sín sem nýta sér þá þjónustu sem er í nærsamfélaginu ásamt því að kynnast því sem sveitarfélagið hefur uppá að bjóða. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka fulltrúum sveitarfélagsins og starfsmönnum þeirra sem að mótinu komu, einnig starfsmönnum UMSB og UMFÍ sem allir hafa lagt hönd á plóg til að gera mótið sem best úr garði.

Síðast en ekki síst þakka ég sjálfboðaliðum UMSB og styrktaraðilum, öllum þeim nauðsynlegu bakhjörlum sem gera okkur kleift að halda mót eins og þetta. Sjálfboðaliðarnir hafa ár eftir ár farið af stað í undirbúning móta okkar en ætíð þurft að leggja árar í bát þegar faraldurinn hefur hamlað mótahaldi. Eins hafa fjölmargir styrktaraðilar okkar verið einkar þolinmóðir í gegnum árin þegar á móti blés.