01. nóvember 2022

Leitt að Ísland sé ekki í forystu

„Enginn ætlar sér að verða nikótínneytandi. En nikótínvörurnar eru gildra,“ segir Kristín Ninja Guðmundsdóttir, lögfræðingur hjá heilbrigðisráðuneytinu. Hún hélt erindi á málþingi sem UMFÍ stóð m.a. að um nikótín og heilsu. Þar kom m.a. fram að þegar unnið var að gerð nýrra nikótínlaga mótmæltu þingmenn úr röðum Pírata, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar banni við bragðbætingu rafretta og nikótínvara. Þetta leiddi til þess að frumvarp um nikótínvörur sem samþykkt var á Alþingi í sumar reyndist mun veikara en væntingar voru um.

Kristín Ninja segir ákveðinn hóp úr röðum alþingismanna og talsmenn framleiðenda varanna ekki vilja sjá mikil inngrip í sölu á vörunum. Rök þeirra  séu þau að rafrettur og nikótínvörur, þar á meðal nikótínpúðar, séu skaðaminnkandi og fólk noti þær til að draga úr tóbaksreykingum eða reyna að hætta þeim. Staðreyndin sé þvert á móti sú að stærstur hluti notenda varanna sé ungt fólk undir tvítugu sem ekki hafi notað tóbak áður og hafi nú ánetjast efninu í gegnum þessar vörur.

„Við erum komin með nýjan hóp ungmenna sem er orðinn háður nikótíni en reykti ekki áður. Við hefðum þvert á móti átt að stíga það skref að nikótínvörur yrðu með barnalæsingu,“ segir Kristín og þykir það greinilega mjög miður að sú hafi ekki orðið raunin. Hún hélt erindi  á málþingi um nikótín og heilsu sem UMFÍ stóð fyrir nú í október ásamt  Fræðslu og forvörnum (FRÆ) og Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins.

 

Átaki kastað út í hafsauga

Á málþinginu kom fram að á síðastliðnum fimmtíu árum þegar átak gegn tóbaksreykingum 15–16 ára ungmenna hófst hefði tekist að draga  gríðarlega úr þeim. Nú heyrði til algjörra undantekninga að ungt fólk  reykti. Á hinn bóginn hefði notkun rafretta og nikótínpúða aukist svo mikið á síðastliðnum tveimur árum að um helmingur ungs fólks á aldrin- um 15–16 ára notaði nikótínpúða eða aðrar tóbaksvörur. Til viðbótar kom fram á málþinginu að tóbaksframleiðendur væru helstu eigendur fyrirtækja sem framleiddu nikótínvörur og væri mörgum sinnum meira magn nikótíns í hverjum nikótínpúða en í einni sígarettu. Jafnframt væri  meira magn leyft í vörunum hér á landi en í öðrum löndum. Mun færri rannsóknir hefðu jafnframt verið gerðar á áhrifum nikótínvara en reyktóbaks og sagði einn þátttakenda á mælendaskrá málþings að börn og ungmenni væru tilraunadýr tóbaksframleiðenda.

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, sagði í ávarpi sínu leitt að sjá íþróttamenn og forystufólk í íþróttahreyfingunni með út- troðnar varir og tóbaksnef. Hvatti hann fólk í íþróttahreyfingunni til að vera fyrirmyndir um heilbrigt líferni og hollustu.

 

 

Kristín segir það hafa verið vonbrigði hversu mótfallnir sumir þingmenn hafi verið bættum nikótínlögum. Ljóst sé að bragðefni breyti skynjun á hættulegum vörum og sé þeim óhikað ætlað að höfða til yngri markhóps.

„Enginn ætlar sér að verða nikótínneytandi. En nikótínvörurnar eru gildra. Það er því miður að ekki náðist samstaða um málið með sama hætti og í Evrópu þar sem verið er að taka harðar á málinu. Mér þykir leitt að Ísland sé ekki í forystu,“ segir hún.

 

Hægt er að horfa á ráðstefnuna alla hér og erindi Kristínar sömuleiðis.

 

 

Viðtalið við Kristínu Ninju má lesa í nýjasta tölublaði Skinfaxa sem er nýútkomið.

Á meðal annars efnis í blaðinu er:

 

 • Margrét Kristinsdóttir hjá Ungmennafélaginu Sindra, segir há æfingagjöld geta leitt til stéttaskiptingar í yngru flokkum.
 • Líf og fjör í Skólabúðunum á Reykjum og Ungmennabúðum UMFÍ á Laugarvatni.
 • Kristján Yngvason er heiðursfélagi UMFÍ. Hann er í ítarlegu viðtali um störf sín í ungmennafélagshreyfingunni.
 • Gunna Stína ræðir um Skólablakið sem hefur verið í gangi um allt land í október.
 • Ingi Þór Einarsson í HR ræðir um íþróttir og börn með fatlanir.
 • Þórdís Bjarnadóttir og Ófeigur segja frá starfi sínu hjá Íþróttafélaginu Suðra.
 • Anna Karólína er bjartsýn á jafnari tækifæri barna með fötlun.
 • Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði í máli og myndum.
 • Unglingalandsmótið, Landsmót UMFÍ 50+ og íþróttaveislan. Hvernig var?
 • Rætt við Bjarneyju hjá UMSB.
 • Guðni Th. Jóhannesson er afar ánægður með vel heppnað forsetahlaup.
 • Kári hjá Gróttu segir hundahlaupið hafa verið mjög vel heppnað.
 • Málfríður Sigurhansdóttir skrifar pistil um ungmennafélagsandann og viðburði UMFÍ í sumar.
 • Rætt við fjóra sjálfboðaliða á viðburði UMFÍ.
 • Landsmót DGI í Danmörku.
 • Svona geturðu byrjað að æfa keppnishjólreiðar.
 • Marteinn Sigurgeirsson hefur bjargað upptökum af Landsmótum UMFÍ.
 • Börn og foreldrar æfa saman hjá Karatefélagi Reykjavíkur.

 

Blaðið allt má lesa á vef UMFÍ á vefslóðinni www.umfi.is. Þú getur smellt á myndina til að lesa blaðið.