26. júní 2022

Ráðherra meiddist í göngufótbolta

Tveir liðsfélagar úr sitthvoru liðinu meiddust í keppni í göngufótbolta á Landsmóti UMFÍ 50+ sem fram fór í Borgarnesi í dag og varð að blása leikinn af vegna þessa.

Aðeins voru nokkrar mínútur liðnar af geysilega spennandi leik þegar Guðlaugur Þór Þórðarson, Borgnesingur og umhverfisráðherra,- orku- og loftslagsráðherra, tognaði á fæti að talið er í kjölfar hælspyrnu. Hann þurfti að hverfa af velli til að kæla meiðslin og hætti leik. Skömmu eftir að blásið var til seinni hálfleiks féll andstæðingur hans niður. Talið er að hann hafi slitið hásin. Hann var borinn af velli. Ekkert er vitað um líðan þeirra.

Eins og sjá má af myndunum sýndi Guðlaugur Þór heilmikil tilþrif í leiknum.

 

 

Reglur í göngufótbolta eru ekki flóknar en eins og nafnið gefur til kynna er aðeins leyfilegt að ganga með boltann.

Að öðru leyti fór Landsmót UMFÍ 50+ vel fram og stórslysalaust í Borgarnesi um helgina. Keppt var í fjölda greina og voru sumar þeirra opnar fyrir yngri keppendur. Keppni hófst klukkan 8 í morgun á Hamarsvelli. Síðan héldu leikar áfram með körfubolta 3:3, göngufótbolta og að lokum stígvélakasti, sem er geysivinsæl og ávallt síðasta grein mótsins. Fjöldi þátttakenda kepptist þar um að kasta stígvéli sem lengst.

 

 

Að stígvélakasti loknu sleit Gunnar Þór Gestsson, varaformaður UMFÍ, mótinu og sagðist hlakka til að sjá mótsgesti á næsta móti sem verður á Stykkishólmi að ári.

Hér að neðan má sjá svipmyndir af greinum dagsins.

Allar myndir af Landsmóti UMFÍ 50+ má skoða á Facebook-síðu UMFÍ og myndasíðunni.