28. febrúar 2023

Spennandi mót UMFÍ sumarið 2023

Nóg verður um að vera í mótahaldi UMFÍ í sumar. Þetta verður klassískt sumar sem hefst með Landsmóti UMFÍ 50+ í Stykkishólmi. Um verslunarmannahelgina verður Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki, Drulluhlaup Krónunnar í ágúst og Forsetahlaup UMFÍ. 

Landsmót UMFÍ 50+

Stykkishólmur er mótsstaður næsta Landsmóts UMFÍ 50+. Mótið verður haldið dagana 23.–25. júní 2023 og er undirbúningur þegar hafinn. Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) ber hitann og þungann af mótahaldinu og þar á bæ er öflugur hópur sem mun láta verkin tala. Skagfirðingurinn Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, er öllum hnútum kunnugur í viðburðahaldi og heldur sem fyrr um undirbúning, skipulagningu og framkvæmd bæði
Unglingalandsmóts UMFÍ og Landsmóts UMFÍ 50+ í Stykkishólmi. 

Landsmót UMFÍ 50+ er frábær viðburður sem snýst ekki bara um íþróttir og keppni. Þetta er líka staður til að hitta vini og kunningja, skemmta sér og gleðjast í góðra vina hópi. Allir 50 ára og eldri geta tekið þátt í mótinu og er engin krafa um að vera skráður í íþróttafélag, hvað þá ungmennafélag. Stykkishólmur er afar fallegur bær og mun öll keppnin fara fram í bænum sjálfum eða í útjaðri hans. Keppt verður í hefðbundnum greinum og óhefðbundnum og eiga allir að finna eitthvað við sitt hæfi á mótinu. Gott tjaldsvæði er við hlið golfvallarins í útjaðri bæjarins og þar er tilvalið að koma með hjólhýsi eða húsbíla í Stykkishólm.

 

Greinar á mótinu verða: Badminton, boccia, borðtennis, bridds, frisbígolf, frjálsar íþróttir, golf, götuhlaup, hjólreiðar, körfubolti, pílukast, pútt, ringó, skák, stígvélakast og sund.

Ítarlegri upplýsingar um Landsmót UMFÍ 50+ er umfi.is

 

 

Unglingalandsmót UMFÍ

24. Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina 2023. Mótið hefur verið haldið áður á Sauðárkróki, en það var 2004, 2009 og 2014 og verður þetta því fjórða skiptið sem þessi skemmtilegi viðburður er haldinn á Króknum. 

Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) er framkvæmdaraðili mótsins og er Aldís Hilmarsdóttir formaður framkvæmdanefndarinnar.

Nefndin hefur þegar hafið undirbúningsvinnu, en þau eru ófá handtökin sem þarf að vinna áður en flautað er verður til leiks. Þessa dagana er verið að ákveða keppnisgreinar og keppnissvæði og vinna að því að fá sérgreinastjóra til starfa. Unglingalandsmót UMFÍ eru vímuefnalaus íþrótta- og fjölskylduhátíð þar sem um tuttugu hefðbundnar og óhefðbundnar keppnisgreinar eru á dagskrá ásamt fjölbreyttri afþreyingardagskrá fyrir alla fjölskylduna frá morgni til kvölds.

Keppnissvæðið verður í hjarta Sauðárkróks, en þar er stutt í sundlaug, frjálsíþróttavöll, tvo knattspyrnuvelli með bæði grasi og gervigrasi, íþróttahús og margt fleira. Tjaldsvæðið er á svokölluðum Nöfum ofan við keppnissvæðin ofan við bæinn og þaðan er gott útsýni yfir mótssvæðið. 

Sauðárkrókur er frábær staður til að halda Unglingalandsmót, allt nánast á einum stað og þægilegt að ganga á milli keppnissvæða og tjaldsvæðisins. Sveitarfélagið Skagafjörður kemur að mótahaldinu. Öll mannvirkin verða í góðu standi og lögð verður áhersla á að taka vel á móti öllum þeim sem sækja bæinn heim þessa daga. Unnið er að stækkun Sundlaugar Sauðárkróks en því miður verður þeirri vinnu ekki lokið fyrir mót. Engu að síður verður laugin opin alla helgina og keppnislaugin
verður tilbúin.

Ekki er ólíklegt að einhverjar keppnisgreinar á mótinu taki á sig nýja mynd en áhersla verður lögð á skemmtilegar greinar og viðburði fyrir sem flesta.

 

Greinar á mótinu verða: Badminton, bandý, biathlon, bogfimi, borðtennis, fimleikafjör, frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhlaup, hestaíþróttir, hjólreiðar, íþróttir fatlaðra, júdó, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, pílukast, skák, stafsetning, strandblak (grasblak), strandhandbolti (grashandbolti), sund, upplestur og stígvélakast.

Ítarlegri upplýsingar um Unglingalandsmót UMFÍ á umfi.is

 

 

Drulluhlaup Krónunnar

Drulluhlaup Krónunnar var haldið í Í Mosfellsbæ í fyrsta skipti í ágúst árið 2022 og sló í gegn. Þetta er drulluskemmtilegt hlaup þar sem fjölskyldan vinnur saman að því að komast í mark í skítugasta hlaupi ársins í Mosfellsbæ. Umsjón með hlaupinu hafa m.a. Ungmennafélagið Afturelding.

Undirbúningur fyrir hlaupið stendur nú yfir og er stefnt að því að halda það 12. ágúst.

 

 

Forsetahlaup UMFÍ

Rúmlega 200 þátttakendur tóku þátt í Forsetahlaupi UMFÍ þegar það var haldið í fyrsta sinn á Álftanesi í byrjun september í fyrra. Boðið var upp á tvær hlaupaleiðir, eina mílu eða rétt rúma 1,6 kílómetra, og hins vegar 5 kílómetra. Fyrra hlaupið var í nágrenni íþróttamiðstöðvarinnar á Álftanesi en hitt var öllu stærri hringur sem náði að hlaðinu á Bessastöðum þar sem hlaupararnir sneru við til baka.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók þátt í báðum hlaupunum og afhenti verðlaun í fjórum flokkum, karla- og kvennaflokki og stúlkna og ungmennaflokki þátttakenda undir 16 ára aldri.

Forsetahlaup UMFÍ er í undirbúningi og verður síðar sagt ítarlegar frá því.

 

 

Lesa má enn meira um öll mótin og sjá fleiri myndir í umfjöllun í Skinfaxa, tímariti UMFÍ.