31. ágúst 2022

Styttist í spennandi Forsetahlaup á Álftanesi

Það rignir kannski á höfuðborgarsvæðinu í dag. En alltaf styttir upp um síðir og á laugardag er spáð sól og blíðu. Þá um morguninn verður líka ræst í Forsetahlaupinu á Álftanesi.

Við mælum með því að þátttakendur mæti tímanlega í hlaupið. Þátttakendur fá mótsgögn afhent í anddyri Íþróttamiðstöðvarinnar á Álftanesi. Hún opnar klukkan 9:00 og verður þá hægt að hita upp og skemmta sér með fjölskyldu og vinum þar til ræst verður í fyrsta hlaup.

Ræst verður í míluhlaupinu klukkan 10:30 og í 5 km klukkan 11:00. Míluhlaupið er eins og nafnið gefur til kynna rétt rúmir 1,6 km.

Heilmikið húllumhæ verður við Íþróttamiðstöðina á Álftanesi, leikjagarður á íþróttavellinum og líf og fjör á meðan viðburðinum stendur.

Opið verður fyrir forskráningu í Forsetahlaupið til klukkan 22:00 á föstudag. En ungmennafélagsandinn er alltumlykjandi og leyfir allt og því hægt að skrá sig á staðnum fyrir hlaupið á laugardeginum.

Ítarlegri upplýsingar og skráning í Forsetahlaupið: 

Smelltu hér 

 

Hlaupið verður svona

Hlaupaleið – 5 km hlaup: Hefst norðan megin við Álftaneslaug.  Hlaupið á malbiki, hellulögn og smá á  malarstígum. Hlaupið er suður Breiðumýrina, síðan beygt til vinstri við Suðurnesveg í átt að Bessastöðum. Síðan yfir hringtorgið áfram Bessastaðaafleggjara og yfir planið framhjá Bessastöðum og allt þar til komið er að malarveg. Eftir um 500m á malarveg er snúið við og hlaupin sama leið til baka. Þetta er mjög flöt braut og tilvalin til bætinga. 

1 mílu hlaup (1,6 km): Hefst norðan megin við Álftaneslaug. Hlaupið er allt á malbiki. Hlaupið er norður Breiðumýri að gatnamótunum við Norðurnesveg. Þar er beygt til hægri í norður átt. Síðan er beygt til hægri aftur við stíg milli Vesturtúns og Túngötu. Þeim stíg er fylgt þar til kemur aftur að rásmarki.

Eins og sést á kortinu af hlaupaleiðinni verður þetta stórkostlega skemmtilegt hlaup fyrir alla sem hafa gaman af því að hreyfa sig.