Þann 21. september sl. var Íþróttabandalagi Akraness (ÍA) veittur styrkur frá ÍSÍ og UMFÍ til að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi.
Styrkurinn var veittur á grundvelli umsóknar frá ÍA sem innihélt hugmyndafræðina á bak við verkefnið og aðgerðaráætlun.
Verkefnið var unnið í samstarfi við frístundamiðstöðina Þorpið á Akranesi og grunnskóla Akraneskaupstaðar, Grundaskóla og Brekkubæjarskóla.
Meginþema verkefnisins var að koma á tengslum við nemendur og foreldra af erlendum uppruna og nýta til þess viðtalsdaga grunnskólanna þar sem auðvelt er að ná til alls þessa hóps. Á sama tíma væru aðildarfélög ÍA tilbúin með aðgengilegar upplýsingar og prufutíma fyrir þennan hóp til að auðvelda honum að hefja þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi.
Undirbúningur
Ákveðið hafði verið að verkefnið snéri að því að ná til nemenda í 3. og 4. bekk beggja grunnskólanna. Lang flestir af þeim sem eru að erlendum uppruna á Akranesi eru af pólskum ættum.
Byrjað var á því að hafa samband við skólastjóra beggja grunnskólanna og óska eftir samstarfi um verkefnið og voru þeir tilbúnir til þess og fannst spennandi að fá að taka þátt í þessu verkefni. Síðan var haft samband við umsjónarkennara 3. og 4. bekkja grunnskólanna. Þeim var send kynning á verkefninu og svo var fundað með þeim í kjölfarið um framkvæmd verkefnisins.
Verkefnið var einnig kynnt fyrir öllum formönnum 19 aðildarfélaga ÍA og óskað eftir nánu samstarfi við þá og var það auðsótt mál. Einnig var óskað eftir því að þau aðildarfélög sem bjóða upp á íþróttaæfingar fyrir þennan hóp tækju saman upplýsingar um hverja íþróttagrein á staðlað blað, bæði á íslensku og ensku.
Óskað var eftir því að þjálfarar myndu taka sérstaklega vel á móti nýjum iðkendum og veita þeim og foreldrum þeirra sérstaka athygli. Mikilvægt væri að fara sérstaklega yfir með þeim út á hvað starfið gengur og kynna fyrir þeim fjáraflanir og mótahald en menning okkar í þeim efnum getur verið framandi fyrir fólki frá öðrum löndum.
Haft var samband við foreldra og forráðamenn í gegnum umsjónarkennara og verkefnið kynnt fyrir þeim en þeir einnig látnir vita af því að fulltrúar frá ÍA og frístundamiðstöðinni Þorpinu yrðu til staðar á viðtalsdegi sem fram fór í báðum skólum í nóvember. Útbúin var stutt könnun um þátttöku í íþróttum, tónlistarnámi eða skipulögðu tómstundastarfi og ákveðið að biðja foreldra um að svara henni með umsjónarkennara á viðtalsdegi og afhenda fulltrúa ÍA að því loknu þar sem möguleiki yrði á að spjalla aðeins um það sem þar kæmi fram.
Að síðustu voru upplýsingarsíður um Nóra og almennar upplýsingar um ÍA og aðildarfélög þess á heimasíðu ÍA, ia.is, þýddar á pólsku og ensku. Sjá: http://ia.is/almennt-um-ia/idkendasida-ia/ og https://ia.is/almennt-um-ia/about-ia/.
Framkvæmd
Á viðtalsdögum grunnskólanna voru Hildur Karen frá ÍA og fulltrúi frá frístundamiðstöðinni Þorpinu í skólunum frá kl. 8:00 – 16:30, einn dag í hvorum skóla. Þá daga mæta foreldrar og nemendur í u.þ.b. 20 – 30 mínútna viðtal til umsjónarkennara þar sem áhersla er lögð á líðan og árangur í námi. Í lok viðtals fengu allir foreldrar og nemendur 3. og 4. bekkja afhent könnunarblað sem þau áttu að skila til okkar en við vorum staðsett nálægt skólastofum nemenda þar sem viðtölin fóru fram. Þar voru við með upplýsingablöð frá hverju íþróttafélagi sem bjóða upp á æfingar fyrir þennan aldurshóp og upplýsingar um frístundamiðstöðina Þorpið. Við gáfum öllum sem vildu ÍA tattú og penna merkta ÍA ásamt því að kynna bæklinginn ”Vertu með” frá ÍSÍ og UMFÍ. Við vorum einnig með fartölvu og kynntum fyrir þeim sem vildu heimasíðu ÍA, Nóra (skráningarkerfi íþróttafélaganna) og hvar væri að finna upplýsingar um þær íþróttagreinar sem eru í boði hjá okkur á Akranesi auk upplýsinga um Þorpið.
Það að nemendur og foreldrar þurftu að skila til okkar könnunarblaðinu skapaði oft góðan grundvöllur fyrir spjalli um þær íþróttagreinar og tómstundir sem viðkomandi er að æfa eða langar að kynna sér. Þetta atriði var mjög mikilvægt því það stuðlaði að því að allir fengju kynningu og upplýsingar um það sem er í boði hjá okkur á Skaganum í íþróttum og tómstundum hvort sem þeir væru af erlendum uppruna eða ekki. Mörg systkini nemenda í 3. og 4. bekk komu einnig að borðinu hjá okkur og fengu upplýsingar um íþróttir og tómstundir á Akranesi.
Í Brekkubæjarskóla fóru fram um 10 túlkaviðtöl með nemendum og foreldrum af erlendum uppruna á öðrum degi en önnur viðtöl fóru fram. Fyrir þau viðtöl var Hildur Karen búin að hitta túlkinn sem aðstoðaði umsjónarkennara og kynnti verkefnið fyrir honum. Í hverju túlkaviðtali fékk foreldri bæklinginn frá ÍSÍ um íþróttir og var einnig sagt frá því hvaða íþróttir væri hægt að stunda hjá ÍA. Þegar þessir foreldrar og nemendur komu út úr viðtalinu komu þeir allir að borðinu hjá Hildi Karen þar sem hún kynnti Nóra fyrir þeim sem vildu.
Eftirfylgni
Í janúarbyrjun var sent bréf á þremur tungumálum (Fylgiskjal F) til allra nemenda og foreldra í 3. og 4. bekk með stuttri kynningu á þeim íþróttagreinum sem hægt er að stunda og um leið hvatningu til að hafa samband við ÍA ef frekari upplýsingar vantar, t.d. varðandi skráningu í Nóra.
Niðurstaða
Að loknum viðtölum tókum við saman upplýsingar úr könnuninni sem skilað var til okkar. Á vormánuðum verður svo kannað hvort að fleiri iðkendur af erlendum uppruna hafi skilað sér í íþróttir og tómstundir og/eða dregið hafi úr brottfalli þeirra úr þessu skipulagða starfi. Sú könnun mun verða framkvæmd í samstarfi við umsjónarkennara í 3. og 4. bekk. Þannig getum
við kannað hvort að þessi íhlutun hafi haft einhver áhrif á þátttöku og brottfall nemenda í 3. og 4. bekk í íþróttum og tómstundum á Akranesi.
Mikil ánægja var með að hafa fulltrúa frá ÍA á staðnum á viðtalsdögum og þegar túlkaviðtöl fara fram og kom sú ánægja fram frá foreldrum, skólastjórnendum og forsvarsmönnum íþróttahreyfingarinnar. Því hefur verið ákveðið að halda þessu áfram þannig að á hverju hausti þegar viðtalsdagar fara fram í grunnskólum bæjarins muni fulltrúi frá íþróttahreyfingunni vera á staðnum og að aðstoða og veita upplýsingar um íþróttir á Akranesi.
Hér eftir munu öll aðildarfélög ÍA taka saman á eitt blað upplýsingar um hvert félag, tímatöflu, verð og upplýsingar um tengilið. Því miður hafa þessar upplýsingar ekki verið samræmdar og nógu skýrar og einfaldar hjá okkur.
Verkefnið leiddi einnig í ljós að hægt er að gera mun betur varðandi þýðingar á önnur tungumál á heimasíðu ÍA og mun áhersla vera lögð á að bæta þar enn frekar úr. Í tengslum við verkefnið komst ÍA í gott samband við þýðendur á ensku og pólsku og munum því samstarfi verða haldið áfram.
Við hjá ÍA erum afar þakklát fyrir þann styrk sem við hlutum frá ÍSÍ og UMFÍ en hann ýtti við okkur varðandi þarfir fólks af erlendum uppruna og undirbúningur og framkvæmd verkefnisins leiddi í ljós ýmislegt sem hægt er að gera betur.
Verkefnið sýndi m.a. fram á mikilvægi þess að:
• upplýsingar séu aðgengilegar og ljóst sé hvert eigi að leita eftir upplýsingum um íþrótta- og tómstundastarf
• setja andlit á þá sem eru í forsvari fyrir íþróttahreyfinguna, það auðveldar fólki að hafa samband og leita aðstoðar
• tengja sama skóla- og íþróttasamfélag en þar eru umsjónarkennarar og forsvarsmenn íþrótta- og tómstundastarfs lykilaðilar
• fá foreldra til að taka virkan þátt í íþrótta- og tómstundastarfi barna sinna og þar með forvarnarstarfi
Við munum nýta þessar niðurstöður og vísbendingar til að bæta enn íþrótta- og tómstundastarf á Akranesi enda hefur verið sýnt fram á að einn af helstu verndandi þáttum í lífi barna er þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi í þar höfum við mikinn metnað.