Hvernig á að bregðast við?

UMFÍ er aðili að Æskulýðsvettvanginum (ÆV) ásamt Bandalagi íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

ÆV hefur gefið út viðbragðsáætlun sem nær til aðildarfélaga þeirra samtaka sem mynda ÆV, allra iðkenda í íþrótta- og æskulýðsstarfi þeirra, stjórnenda, yfirmanna, starfsmanna, sjálfboðaliða og annarra ábyrgðaraðila innan félaganna. Dæmi um atvik sem áætlunin nær til eru agabrot, ávana- og vímuefnanotkun, einelti, kynferðisbrot, alvarleg veikindi, áföll, slys og andlát.

Þau eru ýmis atvikin sem upp kunna að koma í íþrótta- og/eða æskulýðsstarfi og bregðast þarf við. Erfitt er að gera þeim öllum skil en mikilvægt er að hafa ákveðnar grunnreglur til að fylgja. Sé um alvarlegan atburð að ræða skal ábyrgðaraðili ávallt vísa málinu til næsta yfirmanns síns sem metur hvort hægt sé að leysa það innan félags eða rétt sé að vísa því áfram til frekari úrvinnslu.

Yfirmanninum ber þó ávallt að upplýsa framkvæmdastjóra félags um þau mál sem upp koma þó svo að þau séu leyst innan félags. Sé um viðbrögð við brotum ábyrgðaraðila að ræða fylgja þau sama ferli eftir að yfirmanni berast upplýsingar um brotið, hvort sem er frá börnum, ungmennum, foreldrum eða öðrum ábyrgðaraðilum.

 

Ferli tilkynninga:

ÁBYRGÐARAÐILI - NÆSTI YFIRMAÐUR - FRAMKVÆMDASTJÓRI - FAGRÁÐ ÆV. 

 

Hagnýt verkfæri

Fagráð ÆV

Á vegum Æskulýðsvettvangsins (ÆV) starfar fagráð sem tekur til umfjöllunar kynferðisbrotamál og eineltismál sem koma upp innan þeirra félagasamtaka sem mynda ÆV og aðildarfélaga þeirra. 

Fagráðið er skipað þremur einstaklingum, tveimur tilnefndum af ÆV auk fulltrúa félagasamtaka ÆV. Í fagráðinu sitja alltaf tveir óháðir sérfræðingar sem hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við meðferð kynferðisbrotamála og eineltismála. Þegar tilkynning kemur til fagráðsins er framkvæmdastjóri þeirra samtaka ÆV sem tilkynningin varðar kallaður inn í fagráðið og tekur hann þá sæti í fagráðinu við meðferð málsins. Þannig situr framkvæmdastjóri viðkomandi samtaka sem þriðji einstaklingur í fagráðinu.

Sé framkvæmdastjóri samtakanna vanhæfur skal annar yfirmaður innan samtakanna taka sæti í fagráðinu. Í ákveðnum tilvikum getur fagráðið ákveðið að fulltrúi samtakanna taki ekki þátt í málsmeðferð. Í þeim tilvikum getur fagráðið kallað annan óháðan aðila inn í fagráðið ef þörf er á. 

Fagráðið tekur við öllum tilkynningum um kynferðisbrot sem koma upp í starfi aðildarfélaga ÆV félagasamtakanna og aðildarfélaga þeirra og heldur utan um skráningu þeirra. Fagráðið sér til þess að tilkynningunum sé komið í réttan farveg og þær fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt verklagsreglum fagráðs og landslögum. Jafnframt leiðbeinir fagráðið þolendum um málsmeðferð og sér til þess að þeir fái stuðning eftir því sem við á hverju sinni. 

Fagráðið tekur einnig á eineltismálum sem upp koma innan félagasamtakanna og aðildarfélaga þeirra. Hlutverk fagráðsins í eineltismálum er annars vegar að leita viðunandi niðurstöðu í málinu með sáttum sé þess nokkur kostur og hins vegar að veita félögum ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem fagráðinu hafa borist í viðkomandi máli.  

Netfang fagráðsins er: fagrad@aev.is 

Sjá nánari upplýsingar hér

 

Tilkynningarskylda

Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu gæta fyllsta trúnaðar og þagmælsku um allt það sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum og ber að fara með sem trúnaðarmál. Þagnarskylda á þó aldrei við þegar starfsfólk eða sjálfboðaliðar verða þess áskynja að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða hvers konar ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlegar hættu. Í slíkum tilfellum ber að fylgja ákvæðum IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2020.

Samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 er hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum barna skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd ef hann hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þorska í alvarlega hættu. 

Allir ábyrgðaraðilar sem starfa hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum bera því ábyrgð samkvæmt barnaverndarlögum, sama hvort um er að ræða starfsmenn eða sjálfboðaliða. Tilkynningarskylda þessi gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. 

 

Netnámskeið í barnavernd

Æskulýðsvettvangurinn hefur tekið í notkun netnámskeið í Barnavernd fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Um er að ræða nýjung í fræðslu og forvörnum í barnaverndarmálum á Íslandi sem snýr að því að gera umhverfi barna og ungmenna í félagsstarfi öruggara.

Það er mikilvægt að þeir sem starfa með börnum og ungmennum eru meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Starfsfólk og sjálfboðaliðar sem vinna með börnum og ungmennum þurfa að þekkja mismunandi birtingarmyndir ofbeldis, eineltis og annars áreitis sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og vita hvernig bregðast eigi við þegar slíkt kemur upp í félagsstarfi.

Markmiðið með námskeiðinu er að auka þekkingu starfsfólks og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsfélögum um land allt á einelti, ofbeldi og áreitni sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og afleiðingunum af því. Tilgangurinn með því er að reyna að koma í veg fyrir að slíkt komi upp í íþrótta- og æskulýðsstarfi og gera börnum og ungmennum auðveldara með að fá úrlausn slíkra mála þegar þau koma upp.

Námskeiðið er opið öllum áhugasömum.

Smelltu hér til þess að opna námskeiðið. 

Námskeiðið er sett á laggirnar af Æskulýðsvettvanginum í samstarfi við fagaðila í barnaverndarmálum. Efni námskeiðsins var samið af Þorbjörgu Sveinsdóttur, sálfræðingi, Ólöfu Ástu Farestveit, uppeldis, afbrota og fjölskyldufræðing, Semu Erlu Serdar, sérfræðingi í samskiptum og forvörnum og Björg Jónsdóttur hjá Erindi – samtökum fagfólks á sviði uppeldis-, lýðheilsu- og menntunarfræða. Fleiri aðilar komu með ýmsum hætti að því að setja námskeiðið á laggirnar. Er þeim öllum færðar bestu þakkir fyrir.

Verkefnið er styrkt af Félagsmálaráðuneytinu, Æskulýðssjóði og Lýðheilsusjóði.

Heimild til upplýsingaöflunar úr sakaskrá ríkisins

Samkvæmt Æskulýðslögum nr. 70/2007 er óheimilt að ráða til starfa einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna ofbeldis og ávana- og fíkniefna, á síðastliðnum fimm árum, til starfa með börnum og ungmennum. 

Samkvæmt Íþróttalögum nr. 64/1998 er óheimilt að ráða til starfa sem falla undir lög þessi og sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í íþróttastarfi einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (kynferðisbrot). Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Ákvæði þetta nær einnig til þeirra sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri á grundvelli sjálfboðaliðastarfs. 

Sambandsaðilar UMFÍ og aðildarfélög þeirra eru hvött til þess að óska eftir samþykki starfsmanna um heimild til að leita eftir upplýsingum hjá Sakaskrá ríkisins. 

Útfyllt eyðublað sendist til Auðar Ingu, framkvæmdastjóra UMFÍ á netfangið audur@umfi.is. UMFÍ sendir skjalið til Sakaskrá, félaginu að kostnaðarlausu.  

Smelltu hér til að opna eyðublaðið í word. 

The form in English.

Verndum þau, námskeið í barnavernd

Það er mikilvægt fyrir alla þá sem starfa með börnum og unglingum að vera meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð, geta lesið í vísbendingar um að vanræksla eða ofbeldi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt, eigi sér stað og vita hvernig bregðast á við ef slík mál skjóta upp kollinum.

Í bókinni Verndum þau er fjallað um alla þessa þætti á aðgengilegan hátt og lesendur eru upplýstir um eðli og birtingarmyndir ofbeldis og vanrækslu, auk þess sem gerð er grein fyrir ferli mála af þessu tagi hjá barnaverndaryfirvöldum og innan dómskerfisins.

Bókin var endurútgefin í júní 2013 þar sem nokkrar veigamiklar breytingar hafa orðið á réttindum barna. Kynferðislegur lögaldur hefur verið hækkaður upp í 15 ár. Úrbætur hafa verið gerðar á barnaverndarlögum og almennum hegningarlögum ásamt öðrum úrbótum þar sem hagsmunir barna eru hafðir að leiðarljósi.

Æskulýðsvettvangurinn (ÆV) hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinu Verndum þau. Námskeiðið er byggt á efni bókarinnar Verndum þau og fjallar um hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og unglingum. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem starfa með börnum og ungmennum og öðrum sem áhuga hafa

Æskulýðsvettvangurinn gerir kröfu um að allir starfsmenn og sjálfboðaliðar innan aðildarfélaga ÆV sæki námskeiðið og geta félögin fengið námskeiðið sér að kostnaðarlausu.

Höfundar bókarinnar, Ólöf Ásta Farestveit uppeldis- og afbrotafræðingur og Þorbjörg Sveinsdóttir M.Sc. í sálfræði, sjá um kennslu á námskeiðinu. Báðar starfa þær í Barnahúsi og hafa mikla reynslu af barnaverndarmálum.

Á námskeiðinu er m.a farið yfir:

  • Tilkynningaskyldu starfsmanna sem vinna með börnum og unglingum.
  • Líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi og vanrækslu hvers konar.
  • Hvernig taka skuli á móti ofbeldisfrásögn.
  • Reglur í samskiptum við börn og ungmenni.
  • Ýmis atriði sem gott er fyrir vinnuveitendur að hafa í huga.
  • Úrræði sem í boði eru í samfélaginu fyrir börn og unglinga sem eru þolendur ofbeldis.

Nánari upplýsingar og bókun á námskeiðum fer fram hjá Semu Erlu, framkvæmdastýru ÆV. Netfangið er aev@aev.is.