Tilkynningarferill
Nauðsynlegt er að tilkynna ofbeldis- eða eineltismál til viðeigandi aðila þegar slíkt kemur upp innan íþrótta- og æskulýðsfélaga eða samtaka. Félög eiga að leita leiðsagnar í slíkum málum.
Hér má sjá feril yfir það hvernig tilkynning getur borist eftir öruggum boðleiðum til þeirra sem bera ábyrgð innan félags, og í kjölfarið til samskiptaráðgjafa sem aðstoðar við vinnslu slíkra mála.
Athugið að hægt er að byrja hvar sem er innan ferilsins. Mikilvægast er að traust ríki á milli aðila.
Þátttakandi í íþróttastarf
- Þátttakandi upplýsir þjálfara um ofbeldi- eða eineltismál sem hefur átt sér stað á æfingu.
- Þjálfari upplýsir yfirþjálfara og/eða framkvæmdastjóra félagsins.
- Framkvæmdastjóri upplýsir stjórn félagsins.
- Framkvæmdastjóri og/eða stjórn félagsins leitar til samskiptaráðgjafa.
Nemandi í Skólabúðum UMFÍ
- Nemandi upplýsir starfsmann eða kennara um ofbeldi- eða eineltismál sem hefur átt sér stað.
- Starfsmaður eða kennari upplýsir forstöðumann.
- Forstöðumaður upplýsir framkvæmdastjóra.
- Framkvæmdastjóri og/eða forstöðumaður hefur samband við samskiptaráðgjafa.
Tilkynningarskylda til barnaverndar
Ábyrgðaraðilar skulu gæta fyllsta trúnaðar og þagmælsku um allt það sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum og ber að fara með sem trúnaðarmál. Þagnarskyldu er þó aflétt þegar ábyrgðaraðilar, starfsfólk eða sjálfboðaliðar verða þess áskynja að barn eða ungmenni:
- búi við óviðunandi uppeldisaðstæður
- verði fyrir áreitni eða hvers konar ofbeldi
- stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu
Í slíkum tilfellum ber að fylgja ákvæðum í IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 og tilkynna málið til barnaverndarþjónustu viðkomandi sveitarfélags.
Allir ábyrgðaraðilar sem starfa hjá íþrótta- eða æskulýðsfélagi bera því ábyrgð á því að tilkynna ofantalin atvik samkvæmt barnaverndarlögum, sama hvort um starfsmenn eða sjálfboðaliða er að ræða. Tilkynningarskylda þessi gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu.
Ákvörðun um tilkynningu til barnaverndaryfirvalda er tekin af yfirmanni og eftir atvikum í samstarfi við barnaverndarþjónustu og/eða samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Alltaf skal hafa hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi við slíka ákvörðunartöku.
Tilkynningar til barnaverndar skulu berast því sveitarfélagi sem barnið býr í. Á dagvinnutíma tekur starfsfólk barnaverndarþjónustu í hverju sveitarfélagi fyrir sig við tilkynningum en utan dagvinnutíma, um helgar og á helgidögum tekur Neyðarlínan við tilkynningum til barnaverndar í símanúmerinu 112.
Barnaverndarþjónusta: Tilkynning til barnaverndarþjónustu er á ábyrgð og í nafni félagsins eða forstöðumanns en ekki einstakra ábyrgðarmanna. Ef ekki er hægt að leita til stjórnanda félagsins af einhverjum ástæðum er mikilvægt að hafa beint samband við barnavernd.
Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs: Öll þau sem sækja skipulagðar æfingar eða æskulýðsstarf á landinu geta leitað til samskiptaráðgjafa varðandi einelti og/eða ofbeldi sem þau telja sig hafa orðið fyrir í félagsstarfi sínu. Samskiptaráðgjafi getur einnig veitt ráðgjöf varðandi barnaverndartilkynningar.
Þau atriði sem eru tilkynningarskyld til barnaverndar eru:
- ofbeldi
- líkamlegt ofbeldi
- tilfinningalegt/andlegt ofbeldi
- kynferðislegt ofbeldi
- vanræskla
- áhættuhegðun barns
Smelltu hér til þess að opna pdf skjal með nánari upplýsingum um tilkynningarferil.
Smelltu hér til þes að opna pdf skjal með nánari upplýsingum um tilkynningarskyldu til barnaverndar.