Viðbragðsáætlun

Ýmis atvik geta komið upp innan íþrótta- og æskulýðsfélaga og mikilvægt er að bregðast við á sem bestan máta. Erfitt er að gera öllum mögulegum atvikum skil en mikilvægt er að hafa ákveðnar grunnreglur til þess að fylgja.

Í nóvember 2022 kom út viðbragðsáætlun sem unnin var í samráði við Bandalag íslenska skáta, Íþróttabandalag Reykjavíkur, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, KFUM og KFUK á Íslandi, Slysavarnafélagið Landsbjörgu, Æskulýðsvettvanginn, Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs og UMFÍ. 

Markmið áætlunarinnar er að færa aðilum innan íþrótta- og æskulýðsfélaga um allt land verkfæri vegna atvika og áfalla sem upp geta komið í starfinu. Í áætluninni er að finna verkferla sem skal fylgja þegar upp koma atvik eða áföll. Dæmi um atvik sem áætlunin nær til eru slys, veikindi, náttúruhamfarir, einelti og ofbeldi. Einnig eru gagnlegar upplýsingar um meðal annars ferðalög, hinseginleika og fjölmenningu og inngildingu í félagsstarfi, öryggismál og skráningu atvika.

Þó að starfsemi geti verið misjöfn milli félaga er mikilvægt að öllum líði vel við leik og störf. Allt fólk á að geta gengið að því sem vísu að félagsstarf þess bjóði upp á öruggt umhverfi og að fólk fái að vera óáreitt í starfinu óháð aldri, kynferði eða stöðu að öðru leyti. Sömuleiðis á allt fólk að geta leitað réttar síns ef atvik koma upp, án þess að óttast afleiðingar.  

 

 

Tilkynningaferli fyrir þátttakanda í íþróttastarfi

 

Samskiptaráðgjafi

Starfssvið samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs nær til allrar skipulagðrar starfsemi íþrótta og æskulýðssamtaka sem starfa á grundvelli æskulýðslaga og aðila sem gera samning við Mennta- og barnamálaráðuneytið. Það þýðir að allir sem sækja skipulagðar æfingar eða félagsstarf á landinu geta leitað til samskiptaráðgjafa varðandi einelti eða ofbeldi sem þeir telja sig hafa orðið fyrir í sínu íþrótta- eða æskulýðsstarfi.


Viðbragðsáætlun

Áætluninni er skipt niður í nítján kafla. Hér fyrir neðan er hægt að skoða alla áætlunina í heildarskjali en einnig eftir köflum. 

Heildaráætlunin

Viðbragðsáætlunina er að finna inn á heimasíðu Samskiptaráðgjafa. 

Smelltu hér til þess að opna pdf útgáfu af allri áætluninni. 

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs starfar eftir lögum nr. 45/2019 og er markmið laganna að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi. 

Heimasíða: samskiptaradgjafi.is

Símanúmer: 839 9100

Netfang: samskiptaradgjafi@samskiptaradgjafi.is

Tilkynningarferill og tilkynningarskylda

Tilkynningarferill

Nauðsynlegt er að tilkynna ofbeldis- eða eineltismál til viðeigandi aðila þegar slíkt kemur upp innan íþrótta- og æskulýðsfélaga eða samtaka. Félög eiga að leita leiðsagnar í slíkum málum.

Hér má sjá feril yfir það hvernig tilkynning getur borist eftir öruggum boðleiðum til þeirra sem bera ábyrgð innan félags, og í kjölfarið til samskiptaráðgjafa sem aðstoðar við vinnslu slíkra mála. 

Athugið að hægt er að byrja hvar sem er innan ferilsins. Mikilvægast er að traust ríki á milli aðila.

Þátttakandi í íþróttastarf

 1. Þátttakandi upplýsir þjálfara um ofbeldi- eða eineltismál sem hefur átt sér stað á æfingu.
 2. Þjálfari upplýsir yfirþjálfara og/eða framkvæmdastjóra félagsins.
 3. Framkvæmdastjóri upplýsir stjórn félagsins.
 4. Framkvæmdastjóri og/eða stjórn félagsins leitar til samskiptaráðgjafa.

Nemandi í Skólabúðum UMFÍ

 1. Nemandi upplýsir starfsmann eða kennara um ofbeldi- eða eineltismál sem hefur átt sér stað.
 2. Starfsmaður eða kennari upplýsir forstöðumann.   
 3. Forstöðumaður upplýsir framkvæmdastjóra.
 4. Framkvæmdastjóri og/eða forstöðumaður hefur samband við samskiptaráðgjafa.

 

Tilkynningarskylda til barnaverndar

Ábyrgðaraðilar skulu gæta fyllsta trúnaðar og þagmælsku um allt það sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum og ber að fara með sem trúnaðarmál. Þagnarskyldu er þó aflétt þegar ábyrgðaraðilar, starfsfólk eða sjálfboðaliðar verða þess áskynja að barn eða ungmenni:

 • búi við óviðunandi uppeldisaðstæður 
 • verði fyrir áreitni eða hvers konar ofbeldi 
 • stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu 

Í slíkum tilfellum ber að fylgja ákvæðum í IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 og tilkynna málið til barnaverndarþjónustu viðkomandi sveitarfélags.

Allir ábyrgðaraðilar sem starfa hjá íþrótta- eða æskulýðsfélagi bera því ábyrgð á því að tilkynna ofantalin atvik samkvæmt barnaverndarlögum, sama hvort um starfsmenn eða sjálfboðaliða er að ræða. Tilkynningarskylda þessi gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu. 

Ákvörðun um tilkynningu til barnaverndaryfirvalda er tekin af yfirmanni og eftir atvikum í samstarfi við barnaverndarþjónustu og/eða samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Alltaf skal hafa hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi við slíka ákvörðunartöku. 

Tilkynningar til barnaverndar skulu berast því sveitarfélagi sem barnið býr í. Á dagvinnutíma tekur starfsfólk barnaverndarþjónustu í hverju sveitarfélagi fyrir sig við tilkynningum en utan dagvinnutíma, um helgar og á helgidögum tekur Neyðarlínan við tilkynningum til barnaverndar í símanúmerinu 112.

Barnaverndarþjónusta: Tilkynning til barnaverndarþjónustu er á ábyrgð og í nafni félagsins eða forstöðumanns en ekki einstakra ábyrgðarmanna. Ef ekki er hægt að leita til stjórnanda félagsins af einhverjum ástæðum er mikilvægt að hafa beint samband við barnavernd.

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs: Öll þau sem sækja skipulagðar æfingar eða æskulýðsstarf á landinu geta leitað til samskiptaráðgjafa varðandi einelti og/eða ofbeldi sem þau telja sig hafa orðið fyrir í félagsstarfi sínu. Samskiptaráðgjafi getur einnig veitt ráðgjöf varðandi barnaverndartilkynningar.

Þau atriði sem eru tilkynningarskyld til barnaverndar eru:

 • ofbeldi
 • líkamlegt ofbeldi
 • tilfinningalegt/andlegt ofbeldi
 • kynferðislegt ofbeldi
 • vanræskla
 • áhættuhegðun barns

Smelltu hér til þess að opna pdf skjal með nánari upplýsingum um tilkynningarferil. 

Smelltu hér til þes að opna pdf skjal með nánari upplýsingum um tilkynningarskyldu til barnaverndar.

Agabrot

Agabrot eru brot á lögum og reglum sem viðkomandi félag setur sér. Skipta má agabrotum í væg og alvarleg agabrot. 

Félög eru hvött til þess að aðstoða þátttakanda til þess að bæta ráð sitt í kjölfar agabrota til að koma í veg fyrir endurtekin agabrot.

Sjá nánari upplýsingar hér. 

Ávana- og vímuefni

Íþrótta- og æskulýðsfélög gegna mikilvægu hlutverki í vímuvörnum. Rannsóknir á högum barna og ungmenna sýna að þau ungmenni sem eru virk í íþrótta- og æskulýðsstarfi farnast betur og þau neyta síður ávana- og vímuefna. Ábyrgðaraðilar í félagsstarfi eru fyrirmyndir og því er öll neysla áfengis, tóbaks og annarra ávana- og vímuefna bönnuð í starfi með börnum og ungmennum. Á þetta einnig við um notkun nikótínpúða og rafretta.

Þá segir í 2. mgr. 10. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007 að forystufólki, leiðbeinendum, sjálfboðaliðum og öðru starfsfólki í skipulögðu æskulýðsstarfi og í ferðum með börnum og ungmennum sé óheimilt að neyta áfengis og annarra vímuefna. 

Sjá nánari upplýsingar hér. 

Ofbeldi

Ofbeldi er ekki liðið í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Öllum á að geta liðið vel í félagsstarfi sínu og gengið að því vísu að þar sé öruggt umhverfi. 

Ofbeldi varðar við landslög og er mikilvægt að bregðast við slíkum málum þegar þau koma upp innan íþrótta- og æskulýðsstarfs. Ofbeldisbrot á ávallt að tilkynna til viðeigandi yfirvalda en einnig til samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Það auðveldar yfirsýn varðandi umfang slíkra mála, stuðlar að samhæfðum og réttum viðbrögðum aðila og til endurmats á vinnubrögðum og verkferlum með það að markmiði að auka öryggi allra.

Sjá nánari upplýsingar hér. 

Einelti og samskiptavandi

Í félagsstarfi þar sem margir koma saman getur komið upp samskiptavandi innan hópa, sérstaklega þegar unnið er með börnum, þar sem þau eru að þroskast og æfa sig í samskiptum. Ef gripið er fljótt inn í samskiptavanda eða einelti er í mörgum tilvikum hægt að minnka líkur á alvarlegum afleiðingum. Það er því mikilvægt að ábyrgðaraðilar séu vel vakandi fyrir því hvernig þátttakendum í félagsstarfinu líður og grípi inn í um leið og upp kemur vandi. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir þáttum eins og samskiptavanda, baktali, stríðni, augngotum og útskúfun. Hvetja þarf börn og ungmenni til að láta vita ef þau verða fyrir endurtekinni stríðni eða annars sem einkennir einelti, eða ef þau verða vör við slíkt á milli annarra einstaklinga.

Sjá nánari upplýsingar hér. 

Að vera hinsegin í félagsstarfi

Þátttakendur í íþrótta og æskulýðsstarfi eru allskonar og geta komið út sem hinsegin á öllum aldri. Þeir geta einnig átt hinsegin fjölskyldur og vini. Það skiptir máli að allir upplifi öryggi og vellíðan og séu lausir undan fordómum í félagsstarfi sínu. Íþrótta- og æskulýðsfélög þurfa að vera vel í stakk búin til að styðja við fjölbreyttan hóp þátttakenda sem eru oft á því aldursskeiði að það er að uppgötva kynhneigð sína. Besta leiðin til að gera það er að skapa og rækta opna og umburðarlynda menningu innan félagsins, þar sem hinsegin félagar finna að þeir eru hluti af hópnum og verða ekki fyrir áreiti. Þá þarf einnig að beina sjónum að þátttakendum sem eru ekki hinsegin og hvernig þeir tala og haga sér. Með því að vinna að hinseginvænni íþrótta- og æskulýðsfélögum er unnið gegn staðalímyndum sem geta þrengt að fleirum en einungis hinsegin fólki.

Sjá nánari upplýsingar hér. 

FJölmenning og inngilding í félagsstarfi

Samfélög nútímans eru í stöðugri þróun og eru sífellt að verða fjölbreyttari, meðal annars með tilliti til uppruna, þjóðernis, húðlitar, menningar, trúar- og lífsskoðana eða annarra persónueinkenna. 

Með fjölmenningar samfélagi er átt við samfélag fólks af ólíku þjóðerni og af ólíkum menningar- og trúarlegum uppruna, samfélag fólks sem býr yfir ólíkri reynslu, getu og hæfni, ber virðingu hvert fyrir öðru og hefur samskipti sín á milli. 

Öll eigum við rétt á því að taka þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi án þess að vera mismunað vegna uppruna, þjóðernis, húðlitar, menningar, trúar- og lífsskoðana eða annarra persónueinkenna. Öll eigum við sama rétt á því að taka þátt og upplifa öryggi, viðurkenningu, virðingu og hlutdeild.

Það er ábyrgð starfsfólks og sjálfboðaliða að stuðla að inngildingu í starfinu með því að virkja allt fólk til þátttöku og gera fjölbreyttum hópi fólks kleift að njóta sín í félagsstarfi og taka þátt í ákvarðanatöku.

Það er mikilvægt að öll félagasamtök séu með stefnu um inngildingu og fjölbreytileika. Einnig ættu þau að búa yfir verkferlum  þar sem farið er yfir hvernig bregðast skal við, komi upp atvik eða áföll sem fela í sér kynþáttaníð, útlendingaandúð eða annars konar fordóma og mismunun á grundvelli uppruna, þjóðernis, húðlitar, menningar, trúar- og lífsskoðana eða annarra persónueinkenna.

Sjá nánari upplýsingar hér. 

Andleg líðan

Ef þátttakandi í félagsstarfi upplýsir ábyrgðaraðila um sálræna vanlíðan sína, sjálfsskaða eða mögulegar sjálfsvígshugsanir skal styðjast við eftirtaldar upplýsingar. 

Sjá nánari upplýsingar hér. 

Slys, veikindi, sjúkdómar, andlát og viðbrögð við áföllum utan félagsstarfs

Þegar slys verða á fólki og viðstaddir ábyrgðaraðilar hafa einhvern grun um að áverkar séu alvarlegir eða lífshættulegir eða eru í nokkrum vafa um hvaða viðbrögð séu viðeigandi skal alltaf hringja í 112.

Slys geta orðið í öllu félagsstarfi. Því er nauðsynlegt og á ábyrgð yfirmanna að þau sem standa fyrir félagsstarfi séu viðbúin að bregðast við þegar slys ber að garði. Viðeigandi sjúkragögn skulu ætíð vera til í húsakynnum félagsstarfs og höfð meðferðis í ferðum sem farnar eru á vegum félags. Lagt er til að minnst einn ábyrgðaraðili í félagsstarfi og ferðum hafi gilt skyndihjálparskírteini.

Sjá nánari upplýsingar um slys. 

Sjá nánari upplýsingar um veikindi og sjúkdóma. 

Sjá nánari upplýsingar um andlát. 

Sjá nánari upplýsingar við áföllum utan félagsstarfs. 

Öryggismál, ferðalög, gistingar og náttúruhamfarir

Félögum sem standa fyrir íþrótta- og æskulýðsstarfi ber að sjá til þess að allur aðbúnaður í starfi þeirra sé öruggur sem hæfi aldri og þroska þátttakenda. Jafnframt þurfa ábyrgðaraðilar að uppfylla þau lagalegu skilyrði sem gerð eru til starfsins og hljóta nauðsynlega þjálfun til að geta sinnt eftirlits- og aðgæsluskyldum sínum í starfi. Ábyrgðaraðilum ber að sýna varkárni miðað við aðstæður og aldur þátttakenda hverju sinni.

Sjá nánari upplýsingar um öryggismál hér. 

Sjá nánari upplýsingar um ferðalög og gistingar hér. 

Sjá nánari upplýsingar um náttúruhamfarir hér. 

Samskipti við fjölmiðla

Grunnregla í samskiptum við fjölmiðla er sú að hafa aðeins einn talsmann í hverju máli og verður hann talsmaður málsins út á við. Ef fjölmiðill hefur samband og leitar upplýsinga vegna atviks sem upp hefur komið hjá félagi er brýnt að vísa málinu til þess talsmanns. Hann getur verið eftir atvikum framkvæmdastjóri félagsins, upplýsingafulltrúi eða annar sem félagið hefur fengið til að vera talsmaður í málinu.

Sjá nánari upplýsingar hér. 

Utanumhald skráninga og fylgiskjöl

Skráning mála hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum er mikilvæg til þess að hafa yfirsýn yfir það hvers konar mál koma upp innan raða þeirra. Það er gert til þess að hægt sé að sinna þeim rétt og vel, fylgja þeim eftir og ákvarða uppfærslur eða endurmeta verkferla í framhaldinu. 

Í fjölbreyttu íþrótta- og æskulýðsstarfi getur ýmislegt komið upp, svo sem samskiptavandi, slys eða jafnvel ofbeldi. Í öllum þessum tilvikum er gott að hafa yfirsýn yfir það hvað hefur komið upp, hvernig hefur verið tekið á málunum í kjölfarið og hvernig þeim hefur verið lokið. Með slíkri yfirsýn er þá hægt að sjá hvort til dæmis slys verða oftar á ákveðnum svæðum, á ákveðnum tíma eða hjá ákveðnum hópi. Út frá þeim upplýsingum er hægt að gera breytingar til hins betra og tryggja þannig öryggi þátttakenda frekar. 

Það sama gildir um eineltis- og ofbeldismál. Rati slík mál inn á borð stjórna deilda eða félaga er mikilvægt að skrá í trúnaðarbók eða í fundargerð hvaða ákvarðanir voru teknar þannig að hægt sé að rekja meðferð hvers máls. 

Tilkynning um einelti

Slysaskýrsla

Málaskrá vegna eineltis og ofbeldismála