Almennar upplýsingar

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð. Fyrsta mótið var haldið á Dalvík árið 1993. Frá árinu 2002 hefur mótið verið haldið árlega, en því var frestað 2020 og 2021 vegna Covid. Mótið 2023 verður það 24. í röðinni og verður haldið á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Mótið hefst fimmtudaginn 3. ágúst og því líkur sunnudaginn 6. ágúst. Unglingalandsmót hafa verið haldin á Sauðárkróki árin 2004, 2009 og 2014. Ugmennasamband Skagafjarðar er mótshaldari mótsins en sveitarfélagið Skagafjörður kemur einnig að mótahaldinu. Mótið er fyrir alla 11-18 ára. Allir geta tekið þátt á sínum forsendum og valið sér keppnisgreinar, eina, tvær, þrjár eða fleiri. Við hvetjum líka til þess að prófa nokkrar greinar sem í boði verða.

 

Mótsgjald

Mótsgjald er 8.900kr. Innifalið í því er þátttaka í öllum keppnisgreinum, viðburðum, sundlaugum í Skagafirði og tjaldsvæði mótsins.  

Mótsstaður

Sauðárkrókur er í Skagafirði og er jafnframt stærsti þéttbýliskjarninn á Norðurlandi vestra en þar búa um 2.700 manns. Sauðárkrókur hefur allt til alls og hefur blómlegt atvinnulíf, mannlíf og ekki síst íþróttalíf. Í Skagafirði er öflug heilbrigðisstofnun, frábærir skólar - grunnskóli, framhaldsskóli og háskóli sem er staðsettur á Hólum. Góðar verslanir og veitingastaðir eru á staðnum ásamt nokkrum sundlaugum sem vert er að heimsækja. En fyrst og síðast býr gott fólk í Skagafirði sem hlakkar að taka á móti mótsgestum Unglingalandsmótsins.

Mótssvæði

Á Sauðárkróki er frábær íþróttaaðstaða og staðurinn er kjörinn til að halda Unglingalandsmót. Allt nánast á sama svæðinu; keppnisstaðir og tjaldsvæði. Aðal mótssvæðið er í hjarta bæjarins og þar munu flestar greinar fara fram. Frjálsíþróttavöllur, knattspyrnuvellir, íþróttahús fyrir körfuboltann og sundlaug er meðal þess sem þarna er staðsett. Golfvöllurinn er í göngufæri og það sama má segja um nánast allar aðrar keppnisgreinar.

Íþróttir

Mikill fjöldi íþróttagreina verður í boði, bæði hefðbundnar og óhefðbundnar. Keppni fer fram í mörgum þeirra en einnig verða ákveðnar greinar sem ekki verður formlega keppt í en allir geta prófað. Einnig verða ákveðnar greinar opnar fyrir alla fjölskylduna og þá skiptir aldurinn engu máli. 

Unnið er að því að velja greinar á mótið.  Grunnurinn liggur fyrir en verið er að leggja lokahönd á vinnuna en eins og er þá eru þetta þær greinar sem í boði verða: Badminton, bandý, biathlon, bogfimi, borðtennis, fimleikafjör, frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhlaup, hestaíþróttir, hjólreiðar, íþróttir fatlaðra, júdó, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, pílukast, skák, stafsetning, strandblak (grasblak), strandhandbolti (grashandbolti), sund, upplestur, stígvélakast.

Keppnisfyrirkomulag

Í flestum greinum verður keppnisfyrirkomulagði hefðbundið eins og það hefur verið á undanförnum Unglingalandsmótum. Við vinnum hinsvegar að breytingum á “stóru” greinunum (knattspyrnu, körfubolta, strandhandbolta (grashandbolta), strandblaki (grasblaki) og frjálsum íþróttum. Breytingin felst í því að við skiptum mótsdögunum í þrjú tímahólf: 09-12, 12-15 og 15-18. Þessar greinar fara fram á einum degi og verður leikið mjög þétt en stefnt er á að allir fái sama leikjafjölda og á undanförnum mótum. T.d. tekur körfuboltakeppnin einn dag að þessu sinni og er þar með lokið. Það sama á við aðrar greinar. Þetta auðveldar öllum að skipuleggja sig og taka þátt í fleiri greinum. Minna stress þegar hlaupið er á milli greina og meira fjör á mótsstað. Greinar munu skarast minna en áður og því allir glaðir.

Afþreying

Mótssvæðið á Sauðárkróki verður iðandi af lífi frá morgni til kvölds. Við segjum; “Íþróttir á daginn og tónlist á kvöldin”. Öll kvöldin verða tónlistarviðburðir þar sem okkar besta tónlistarfólk kemur fram. 

Dagskrá

Endanleg dagskrá liggur ekki fyrir en verið er að vinna í að setja hana saman. Það er þó ljóst að grunnurinn er svona:

Fimmtudagur 3. ágúst:

  • Nokkrar keppnisgreinar hefjast seinni partinn.
  • Tónleikar um kvöldið

Föstudagur 4. ágúst:

  • Keppnisgreinar hefjast að morgni og standa fram eftir degi.
  • Mótssetning og tónlistardagskrá verður um kvöldið.

Laugardagur 5. ágúst:

  • Keppnisgreinar hefjast að morgni og standa fram eftir degi.
  • Tónlistardagskrá um kvöldið.

Sunnudagur 6. ágúst:

  • Keppnisgreinar hefjast að morgni og standa fram eftir degi.
  • Tónlistardagskrá um kvöldið.
  • Mótsslit og flugeldasýning rétt fyrir miðnætti.

Tjaldsvæði

Tjaldsvæði mótsgesta er á svökölluðum Nöfum sem eru fyrir ofan aðal íþróttasvæði Sauðárkróks. Tjaldbúðagestir sem eru fremst á svæðinu geta fylgst með keppni fjölmargra greina þaðan sem er einstakt. Tjaldsvæðið er innifalið í mótsgjaldinu og þarf því ekki að greiða fyrir það sérstaklega. Á svæðinu verða snyrtingar, rennandi vatn og rafmagn. Lítið gjald er hinsvegar tekið fyrir afnot af rafmagni.

Stjórnstöð

Mótsstjórn verður til húsa í Árskóla sem er á mótssvæðinu sjálfu. Þar tökum við á móti mótsgestum, skráum þá inn, afhendum gögn og verðum til staðar og svörum spurningum sem kunna að vakna.

Nánari upplýsingar

Framkvæmdastjóri mótsins er Ómar Bragi Stefánsson. Netfang omar@umfi.is. Sími 898 1095.