Fara á efnissvæði
13. júlí 2023

Góð skráning á Unglingalandsmót UMFÍ

Hver er þín grein?

Skráning gengur afar vel á Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Mótið er fyrir þátttakendur 11-18 ára og fjölskyldur þeirra. Ljóst er að mótið verður fjölmennt og afar skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna. Nóg verður um að vera, fjöldi íþróttagreina í boði á daginn og tónleikar á hverju kvöldi.

En fyrir hverja er mótið? Mótið er fyrir alla þátttakendur 11 til 18 ára. Miðað er við afmælisár þátttakenda og því geta auðvitað þau sem eru 10 ára nú en eiga afmæli í desember tekið þátt í því. Nóg verður í boði fyrir yngri systkini og foreldra og aðra aðstandendur.

Það sama gildir við skráningu í greinar. Í greinum sem ætlaðar eru fyrir 15 ára sem dæmi þá er þátttakandi fæddur árið 2008. Yngstu þátttakendur eru þessu samkvæmt fæddir árið 2012 og geta átt afmæli hvenær sem er á árinu til að taka þátt. Þeir elstu eru 18 ára á árinu og því fæddir árið 2005.

Svona er skráð í greinar

Þátttakendur á mótið eru skráðir á vefsíðu UMFÍ.

Hver og einn – eða forráðafólk viðkomandi - skráir sig á mótið. Fyrst þarf að greiða þátttökugjald og fyrst þá er hægt að velja greinar. Hægt er að velja eins margar greinar og viðkomandi langar til að taka þátt í.

Í lok skráningar er spurt hvort viðkomandi er í liði eða ekki. Þá er annað hvort skráð nafn á liði eða skráð að viðkomandi án liðs og er þátttakandi þá settur í lið sem jafnöldrum sínum.

Ef liðið er aðeins hálft er hægt að segja frá því í lok skráningar á Unglingalandsmót UMFÍ.

Á meðal greina sem keppt er í eru hlaupaskotfimi (biathlon), bogfimi, frisbígolf, frjálsar íþróttir, golf, grasblak, grashandbolti, hestaíþróttir, hjólreiðar, júdó, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross og pílukast, skák, stafsetning, sund og upplestur.

Opnar greinar fyrir alla fjölskylduna

Margar greinar eru opnar fyrir alla fjölskylduna og margt sérstaklega hugsað fyrir yngri systkini þátttakenda.

Auk þess er kynning á fjölda greina, bæði sem keppt er í og ekki. Á mótinu er víðavangshlaup fyrir alla, kynning á bandýi, leikjagarður, barnaskemmtun, kynning á bogfimi, sandkastalagerð, sundleikar, kynning og kennsla á borðtennis, sundlaugapartý, badminton með LED-ljósum, jóga og listasmiðjur – að ótöldum tónleikunum en þar koma meðal annars fram Emmsjé Gauti, Guðrún Árný, Magni Ásgeirsson, Herra Hnetusmjör, DJ Heisi, Danshljómsveit Dósa, Arnór og Baldur og fleiri.

Aðeins kostar 8.900 krónur fyrir hvern þátttakanda á Unglingalandsmóti UMFÍ. Inni í miðaverðinu er aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna alla helgina (fyrir utan rafmagn), aðgangur á alla viðburði, tónleika, frítt í sund í Skagafirði og margt fleira.

Á Unglingalandsmót UMFÍ er hægt að skrá sig eftir íþróttahéraði og sambandsaðilum UMFÍ. Það er líka hægt að gera án héraðs.

Sambandsaðilar UMFÍ styrkja sumir þátttakendur á sínu svæði að hluta eða öllu leyti. Aðrir veita þátttakendur á sínu svæði ýmsan varning til viðbótar, svo sem peysur eða boli merkta sambandsaðilanum. Þess vegna er mikilvægt að velja rétt íþróttahérað við skráningu.

 

Opið er fyrir skráningu núna!

Allar upplýsingar um mótið á www.umfi.is