Fara á efnissvæði
11. apríl 2019

Ungt fólk hefur mikil áhrif

„Sókratíska aðferðin að taka þátt í samræðum er mikilvægur liður í því að verða besta útgáfan af sjálfum sér og átta sig á því hvers vegna ég bregst við skoðunum annarra eins og ég geri,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna.

Hún var með ávarp við setningu ungmennaráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði sem Ungmennaráð UMFÍ stendur fyrir í Borgarnesi í vikunni. Ráðstefnan hófst á miðvikudag og stendur til föstudags.

Salvör sagði Umboðsmann barna ætla að efla ráðgjafahóp sinn til að tryggja að raddir allra barna og ungmenna heyrist í samfélaginu og að náð sé eyrum barna við sem fjölbreyttastar aðstæður.

Liður í því er að halda barnaþing í nóvember.

Hún biðlaði til Ungmennaráðs UMFÍ og þátttakenda á ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði að taka þátt í vinnu Umboðsmanns barna við undirbúning barnaþingsins.

„Við viljum eiga samstarf við ykkur,“ sagði hún.

 

 

Salvör sagði fleiri hlusta á ungt fólk en það telji. Aðgerðasinninn Greta Thunberg sem dæmi um það.

„Hún er manneskja sem margir líta til. En hún sýnir að þegar þið takið til máls þá er hlustað á meiri gaumgæfni á ykkur en þið gerið ykkur grein fyrir. Þið getið haft áhrif. Það er verið að hlusta. En það tekur tíma fyrir stjórnmálin og kerfin að bregðast við. Það gerist ekki á einni nóttu. En þið getið haft gríðarlega mikil áhrif. Við þurfum aðeins að halda í trú og bjartsýni á að við getum breytt einhverju. Þið eruð í lykilhlutverki á næstu árum. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur af þróun í loftslagsmálum. Verið bjartsýn. Þið munuð finna lausnir og leiðir, bæði fyrir ykkur sjálf og aðra,“ sagði hún.

 

Ráðstefna fyrir ungt fólk

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði hefur verið haldin árlega í tíu ár og er þetta ellefta ráðstefnan í röð þar sem ungt fólk er í öllum hlutverkum. Ungmennaráð UMFÍ, sem samanstendur af tíu manns frá 16-25 ára aldri af öllu landinu, skipuleggur ráðstefnuna frá grunni.

Þegar ráðstefnan var fyrst haldin árið 2009 voru ungmennaráð í fjórtán sveitarfélögum. Núna eru ráðin í 42 sveitarfélögum, takk fyrir. Til viðbótar má ekki gleyma þeim ótal ungmennaráðum sem eru innan félagasamtaka, eins og Ungmennaráð UMFÍ sem hefur rutt margar brautir. Þessi árangur hefði aldrei orðið ef ekki væri fyrir þau ungmenni sem létu í sér heyra.

Við setninguna hafa boðað komu sína Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir dómsmálaráðherra og Salvör Nordal, umboðsmaður barna auk Gunnlaugs Júlíussonar, sveitarstjóra Borgarbyggðar.

Að setningu lokinni verða fyrirlestrar um gildi leiðtoga og liðsheildar og erindi um viðhorfsbreytingar gagnvart líkamanum. Í tengslum við erindið vinna ráðstefnugestir saman í hópum. Erindi halda Jón Halldórsson frá KVAN, áhrifavaldarnir Fanney Dóra og Erna Kristín auk Unnar Örnu Jónsdóttur og Hrafnhildar Sigurðardóttur frá Hugarfrelsi.

Á föstudag verða pallborðsumræður með ráðafólki. Í pallborði verða Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Soffía Ámundadóttir, formaður íþróttanefndar ríkisins, Guðmundur Ari Sigurjónsson, sem situr í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri UMSB, og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnastjóri Sjúk ást. Fleiri þingmenn hafa einnig boðað komu sína á ráðstefnuna.