Fara á efnissvæði
29. ágúst 2025

54. sambandsþing UMFÍ í október

54. sambandsþing UMFÍ verður haldið á Fosshóteli Stykkishólmi dagana 10. – 12. október næstkomandi. Sambandsþing UMFÍ er haldið annað hvert ár og er það æðsta vald í málefnum hreyfingarinnar.

Sambandsþingið er fjölmennur viðburður fulltrúa íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar um allt land. Nýir fulltrúar sambandsaðilar sitja þingið að þessu sinni því Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) bættist í raðir UMFÍ fyrr á þessu ári. Þar með eru öll íþróttahéruð landsins innan UMFÍ.

Eins og þau vita sem hafa sótt þing UMFÍ er þarna gríðarlega gott tækifæri fyrir fólk til að hittast, skiptast á skoðunum, bera saman bækur sínar, læra og deila þekkingu með öðrum. 

Kosið til stjórnar

Á Sambandsþingi UMFÍ er kosið til stjórnar. Þau sem áhuga hafa á stjórnarsetu geta boðið sig fram í aðdraganda þess og er mikilvægt að áhugasamir einstaklingar gefi sig fram við kjörnefnd eigi síður en tíu dögum fyrir settan fyrirvara. Við bendum fólki á að kynna sér lög UMFÍ varðandi framboð.

Tillögur og ýmislegt fleira

Rétt til setu á sambandsþingi eiga fulltrúar sambandsaðila UMFÍ. 

Fjöldinn er fenginn úr skráningarkerfi íþróttahreyfingarinnar og eru þeir mismargir eftir umfangi sambandsaðila. Þeir sambandsaðilar sem mæta á þingið þurfa að skila inn kjörbréfum fyrir upphaf sambandsþings.

Upplýsingar um fjölda þingfulltrúa sem eiga rétt til setu á sambandsþinginu hafa þegar verið sendar sambandsaðilum í fyrra boði á þingið.

Óskað er eftir því að sambandsaðilar sendi beiðni um fjölda herbergja fyrir 5. september næstkomandi. Þar sem gistingin er takmörkuð er óskað eftir því að sambandsaðilar reyni að samnýta herbergi eftir því sem kostur er.

Sambandsaðilar geta sent inn tillögur á þingið í samræmi við lög UMFÍ en þær þurfa að berast eigi síðar en 12. september á netfangið umfi@umfi.is.

Á þinginu verður jafnframt fjöldi heiðrana, matmaður þingsins verður valinn og margt fleira.

 

Nánari upplýsingar um þingið auk ítarlegrar dagskrár verða sendar út þegar nær dregur.